Vinstribeygja

Kæri Hinrik Friðbertsson.

Til hamingju með að vera orðinn umferðarljósastjóri höfuðborgarsvæðisins.

Þú getur ef til vill lagað þau ljós sem nú um stundir angra marga og valda síendurteknum umferðarbrotum þar sem ökumenn gefast upp á biðinni á rauðu ljósi og fara yfir, eftir að hafa verið sniðgengnir af ljósakerfinu allt að 4 sinnum.

Hér að ofan getur að líta hvað um er að ræða. Gula pílan sýnir vinstri beygjuljós af Hagasmára yfir á Smárahvammsveg. Stundum eru ljósin regluleg, hver átt fær sitt græna ljós og svo næsta koll af kolli (upp og niður Smárahvammsveg, beygja af Smárahvammsvegi til vinstri á Hagasmára og svo Hagasmári til vinstri upp Smárahvammsveg).

Stundum er vinstri beygju úr Hagasmára sleppt annað hvert sinn, stundum kemur það í þriðja hvert sinn og nýlega voru það fjögur skipti sem vinstri beygjunni var sleppt! Þetta nálgaðist 5 mínútur, og á endanum trillaði mest af bílalestinni yfir galtóm gatnamótin gegn rauðu ljósi.

Ég sé þetta nú dags daglega að ökumenn eru hættir að virða ljósin á þessari vinstri beygju, svo oft hafa þessi ljós bitið þá, þeir hafa setið á galtómum gatnamótum í bílalest sem bíður eftir þessari vinstri beygju. Það er jafnvel flautað á þá sem fremstir eru og virða rauða ljósið.

Þessi ráðstöfun er stórundarleg, ekki er hægt að sjá að umferð í vinstri beygjuna sé neitt minni en umferð upp og niður Smárahvammsveg, sem og vinstri beygja af Smárahvammsveg.

Þessum ljósum þarf að breyta, þetta gengur ekki og þessi ráðstöfun minnir mann á “með lögum skal land byggja en ólögum eyða” þar sem þessi ljósastilling fer að ala upp í mönnum fyrirlitningu á umferðarljósum þegar þau eru jafn galin og þarna gerist.

Með vinsemd,

Jóhannes Birgir Jensson, daglegur notandi téðra umferðarljósa

Comments are closed.