Category Archives: Molasykur

Fótbolti Molasykur Samfélagsvirkni

Kemur þó hægt fari

Enn einn vináttuleikurinn í kvöld. Núna brá svo við að einn maður tók ábyrgðina á liðsuppstillingu og skiptingum og það sýndi sig að þetta gefst mun betur, við vorum 2-0 yfir í leikhléi.

Eftir leikhlé tókst andstæðingunum að pota einu marki inn eftir nokkrar mínútur, 10 mínútum seinna var svo aukaspyrna fyrir utan teig og hún skrúfaðist neðst í fjærstöngina, markmaðurinn var í boltanum en snúningurinn var of mikill, vel tekin aukaspyrna en svekkjandi mark fyrir okkur. Á 82. mínútu náði svo miðjumaður þeirra að pota sér í gegnum þvögu og sneiða boltann í markið, vel klárað. Þegar 4 mínútur voru eftir æstust leikar þegar að 2 leikmenn úr sitt hvoru liðinu byrjuðu að slást eftir vafasama tæklingu. Þetta leystist upp í skallaeinvígi milli þeirra og að auki var sparkað í andlitið á liggjandi manni. Báðir menn voru leiddir á brott og róaðir niður, og við flautuðum leikinn bara af, ekki gaman að spila þegar kergja er komin í mannskapinn.

Þokkalegur leikur hjá okkur, það er flestallt að batna hjá okkur. Stráklingarnir sem æstu sig í lokin verða að læra það að þó illa sé brotið á manni þá á bara að hunsa það og spila, liðin skildu sátt sem betur fer.

Af öðrum þjóðfélagsmálum þá finnst mér alltaf jafn magnað þegar að sagt er að 66% heillar þjóðar styðji eitthvað, þegar að úrtakið er 800 manns og við miðum við 100% svarhlutfall (sjaldgæft) þá þýðir það að 528 manns mynda meirihluta hjá 15 milljóna þjóð. Það fylgir ekki einu sinni þessari frétt Moggans hvernig úrtakið var valið, samsetning þess í búsetu, aldri og kyni svo bara helstu atriði séu talin til.

Svo ég haldi áfram að berja á fjölmiðlum, og áfram Mogganum (ég les lítið af innlendum miðlum, Mogginn er það óheppinn núna að ég kíkti á hann í dag) þá fannst mér afar áhugaverð þessi frétt, þar sem að fyrirsögnin segir að samverkamenn Bin Ladens hafi verið handteknir, en sjálf fréttin segir að þeir séu GRUNAÐIR um að vera samverkamenn. Sakleysi uns sekt er sönnuð gildir ekki í æsifréttafyrirsögnum að sjálfsögðu.

Mér finnst íslenskir fjölmiðlar gera mest lítið annað en að þýða (oft illa) fréttatilkynningar frá erlendum fréttastofum, sem margar hverjar lepja það upp eftir stjórnvöldum sem þeim er sagt, en rannsaka ekki málin nánar. Það þarf margt að laga hér á landi, og fjölmiðlar eru þar ofarlega á lista. Nú eða að fólk fari að hætta að trúa í blindni því sem kemur frá fréttastofunum, svo lengi sem við höfum í huga að fréttir eru oftast sagðar frá sjónarhóli einhvers eins aðila, þá förum við ekki að taka þeim sem heilögum sannleik.

Áhugavert lesefni:

Molasykur Stjórnmál

Stóra bróðurs fasismi

Í dag er ekki góður dagur, heimskir stjórnmálamenn vilja taka öðruvísi á glæp sem að er framinn með aðstoð tölvu en glæp sem að er framin án aðstoðar tölvu, jafnvel þó að brotið sé hið sama. Þannig að ef að þú rænir einstakling vopnaður hnífi, þá færðu líklega lægri dóm en ef þú rænir hann með því að nota VISA-kortið hans á Amazon eða brjótast inn á bankareikning hans á netinu. Bjarni spöglerar aðeins í þessu í dagbókinni sinni meðal annars.

Á sama tíma er Sólveig Pétursdóttir að íhuga það að skerða frelsi almennings í landinu til þess að eiga auðveldar með að taka á starfsemi hryðjuverkamanna. Eins og við vitum öll þá er hérna grasserandi hryðjuverkastarfsemi, hver getur gleymt því þegar að fáni Ísraels var brenndur 1996 af DJ Eldari og félögum, og þegar að eggjum var kastað í bandaríska sendiráðið. Mér er því mun rórra að vita að dómsmálaráðherra ætlar nú að skerða frelsi okkar til þess að hryðjuverkamönnum verði ekki óhætt hér á landi.

Það er ávallt eftir svona válega atburði að við fáum út úr skápunum fasistana sem að vilja ekki unna okkur persónufrelsi, eins og sést í Bandaríkjunum og jafnvel hér á landi. Þeir vilja að netþjónustuaðilar eigi afrit af öllu sem fer í gegnum þá, á þá póstþjónustan ekki að fara að opna öll bréf sem að hún sendir og ljósrita efni þeirra og troða í skjalaskápa? Þessir fasistar nýta sér tilfinningarótið sem er í hugum almennings og lofa þeim að skert frelsi hans muni gagnast í baráttunni gegn hryðjuverkum. Svona athæfi er í dómsmálum kallað að nýta sér á óviðeigandi hátt tilfinningalega nauð, og er til þyngingar refsinga. Þetta er náttúrulega ekkert annað en bull, þeir sem vilja fela slóð sína geta það auðveldlega. Þegar þessi réttindi hafa verið tekin af okkur með lögum þá verður það mörgum sinnum erfiðara að fá þau aftur. Nú bíð ég bara eftir því að hverjum og einum verði úthlutaður eftirlitsaðili sem að fylgir þeim eftir dag og nótt, og gætir þess að þessi almenni borgari aðhafist ekki neitt sem að gæti talist ef til vill mögulega ósiðsamlegt eða andfélagslegt.

Sjáum hvað George Bush segir um málið:
“My administration will not talk about how we gather intelligence, if we gather intelligence and what the intelligence says,” Bush told the media at Monday’s press briefing. “That’s for the protection of the American people.”

Stóri bróðir, þú ert 17 árum of seinn, en mér sýnist þú nú vera kominn.

Annað fasískt athæfi sem ég rakst á í dag var það að póstur sem að ég sendi í gegnum SMTP þjóninn sem að er á vélinni minni, var endursendur af póstþjóni Háskóla Íslands. Sá póstþjónn er nefnilega eins og nokkrir aðrir að fara eftir einhverjum fasískum reglum sem að einhverjir kerfisstjórar komu með og þær banna að taka við pósti sem er sendur beint af tölvum sem að eru ekki sítengdar við netið, sumsé ekki með fastar IP-tölur (þetta á við flestar einkatölvur). Þar sem að ég nota póst á tölvunni minni sem að ég sendi í nafni nokkurra léna í minni eigu þá verð ég að vera með minn eigin SMTP þjón keyrandi, þar sem Símnets SMTP þjónninn tekur bara við pósti sem er merktur frá @simnet.is (sem er líka frekar fasískt).

Þessar blessuðu reglur voru víst samdar til þess að minnka hættuna á ruslpósti, mér sýnist það ekki vera að virka og er alveg sammála því sem að efsti aðilinn á þessari síðu skrifar þessum hópi sem stendur að þessu, það að gera greinarmun á því hvort að vél sé sítengd eður ei er bara bölvaður fasismi, einkum í dag þegar flestir eru komnir með nettengdar tölvur heim til sín.

Til þess aðeins að létta lundina fórum við Sigurrós í Laugarásbíó og sáum Rat Race, sem að er mjög smellinn farsi, fullt af atriðum sem fá mann til að verkja í magann af hlátri.

Áhugavert lesefni:

Molasykur

Kaka

Það er ekki að spyrja að því, ég tuða yfir því að Bandaríkin séu mögulega að fara að gera illt verra með herafla sínum, og þá er næsta verkefni mitt í vinnunni beint fyrir bandaríska herinn! Þar sem verkefnið er tengt birgðabókhaldi húsgagna þá held ég að ég þurfi ekki að hafa slæma samvisku yfir því að vinna það :p

Sigurrós bakaði hunangsköku í kvöld, smurði súkkulaði efst á og setti svo svona súkkulaðihagl ofan á (þetta heitir hagel á hollensku þannig að hagl nægir mér á íslensku). Eins gott að ég er að fara á morgun að kaupa kort í World Class 🙂

Áhugavert lesefni:

Molasykur

Týndir diskar

Dagurinn fór í að vinna efni á joi.betra.is, aðallega í að klára að skanna inn geisladiskasafnið mitt. Komst að því mér til mikillar skelfingar að 11 diskar eru ekki á staðnum, vonast til þess að einhverjir þeirra séu niður í vinnu. 272 diskar sem ég á þessa stundina, 283 með þessum 11 sem að eiga að vera eign mín en eru fjarstaddir.

Sá nýjasta myndbandið með Michael Jackson (You Rock My World), hann lítur svo illa út að ég beið alltaf eftir því að andlitið dytti af honum og lappirnar um leið. Reyni svo að tala sem minnst illa um aðra þannig að ég minnist ekkert á lagið, fatastílinn, hreyfingarnar né myndbandið sjálft (Sigurrós lýsti honum vel: ljót postulínsdúkka).

Áhugavert lesefni:

Molasykur

Súkkulaði

Letidagur, enda úti veður vott og vindasamt. Kæmist ekki upp með svona höfuðstafi í íslenskutímum, eins gott að maður er orðinn stúdent í því fagi fyrir löngu hvort sem er.

Tókum myndina Chocolat í kvöld, ágætis skemmtun með góðum svona “feel-good” faktor, ánægjuleg kvöldstund. Langt síðan að ég fékk mér súkkulaði raunar, ef að við undanskiljum súkkulaðispæni sem var í köku sem að Sigurrós bakaði um daginn. Súkkulaðið var mjög girnilegt, ráðlegg ekki fólki sem að er að huga aðeins að vigtinni að taka þessa mynd alveg strax.

Áhugavert lesefni:

Molasykur Tækni

Matarlistin

Hóf störf við matarlist um leið og ég kom heim, Sigurrós var að prufa nokkurs konar smápizzustjörnubakstur fyrir einn af þeim þremur saumaklúbbum sem hún er í, og því tók ég það að mér að undirbúa kvöldmatinn okkar. Ég viðurkenni að hann var ekki flókinn, en ég er góður í þessu 🙂

Maður tekur einn pizzubotn (reyndar keypt sem Bónus pizza en það er sama sem ekkert álegg), smyr hann duglega með tómatsósu, tekur eitt skinkubréf (í þetta sinn reykt skinka) og dreifir sneiðunum jafnt yfir botninn. Því næst er ananasdós opnuð, safa hellt úr, hringirnir skornir í dósinni (eitt handtak sker í gegnum alla hringina) og bútunum loks raðað á pizzuna. Þá er eftir aðeins eitt hráefni í viðbót, rifnum mozzarella osti er dreift duglega yfir pizzuna, mjög vel gefst að setja extra mikið í miðjuna svo að maður fái þennan pizzuauglýsinga-effekt þegar að pizzusneiðarnar eru skornar og teknar frá. Því næst er þessu stungið inní bakaraofn við á að giska 200°C eða svo, þangað til að osturinn er farinn að gullinbrúnast yst og botninn orðinn svolítið stökkur.

Þar sem okkur finnst báðum skinka og ananas vera besta álegg sem hægt er að fá á pizzu þá var þetta vel heppnað. Einfalt og gott, og mun ódýrara og hollara en margar aðkeyptar pizzur (pönnufitan á Pizza Hut er banvæn).

Orðinn þreyttur á þessum 4000 vírustilkynningum þannig að ég breytti villutilkynningunum, núna fara þær í gagnagrunn í stað þess að fara sem póstur á mig. Svo gref ég bara IP-tölurnar úr grunninum og sendi tilkynningar á rétta aðila.

Í kvöld fór ég svo að spöglera betur í því hvernig ég ætla að hafa vefumsjónarkerfið sem ég ætla að láta þeim sem að fá vefsetur á betra.is í té. Eins og allir vita er verkefni ekki komið almennilega af stað fyrr en það fær eitthvað nafn, mig langaði í eitthvað íslenskt án séríslenskra stafa þó, þannig að ég fór á Orðabók Háskólans, og setti inn orðið “vef” í leitarvél þeirra. Fékk nokkrar niðurstöður, þar á meðal orðið vefarakofi.

Þar sem að þetta umsjónarkerfi á að vera fyrir fólk sem ég þekki vil ég hafa það svolítið heimilislegt, því fannst mér alveg upplagt að fá innblástur frá þessu orði og því varð nafnið Vefkofi. Þetta mun verða heiti þessa blessaða PHP krílis sem ég ætla að koma á laggirnar. Orðið kofi vísar hérna til æskunnar, þegar að maður byggði kofa og lék sér í (pabbi var stórtækur kofasmiður, og við bræðurnir áttum tvo stóra kofa, sá seinni var 2 hæða með bílskúr að auki). Kofar eru því í mínum huga vinalegir staðir, og vonandi verður Vefkofinn minn vinalegur við þá sem munu nota hann.

Áhugavert lesefni:

Molasykur

Parlez vouz français?

Oui. Vonast að minnsta kosti til þess að vera orðinn slarkfær í henni árið 2002. Í Frakklandi skildi ég þó nokkuð af þeim samræðum sem fóru fram í kringum mig, en margt fór fyrir ofan garð og neðan, og mér var að auki fyrirmunað að tjá mig á málinu. Í dag skráði ég mig því á frönskunámskeið hjá Námsflokkum Reykjavíkur, að auki á ég svona “Achieve French fluency now” margmiðlunarnámsefni (4 geisladiskar með fyrirlestrum, sýnidæmum, prófum og framburðarkennslu). Plús það að vera með konu sem er reiprennandi, þannig að ég er vongóður um að geta babblað að minnsta kosti eitthvað að loknu námskeiðinu.

Molasykur

Vegaför

Vorum að spöglera að fara á Apaplánetuna (endurgerðina) í bíó, en eftir að hafa borið saman bækur um þá dóma sem hún hefur fengið, ákváðum við að eyða ekki 1600 kr. eða meira í enn eina sálarlausa hýpermyndina frá Hollywood. Ætluðum að taka þá State & Main eða Chocolat á vídeó, sú fyrri var ekki inni og sú síðari ekki komin. Enduðum á að taka Road Trip, þar sem við vorum í stuði fyrir gamanmynd. Hún kom skemmtilega á óvart og fær mín meðmæli sem grínmynd sem hægt er að hlæja að.

Fótbolti Molasykur

Boltinn búinn

Þá er keppni minni í utandeildinni lokið í ár, tók ekki þátt nema í þremur leikjum, enda kom hóf ég ekki knattspyrnuiðkunina fyrr en í júlí. Ef ég kynni að skammast mín þá væri ég rauður niður að tám, þar sem að ég er í vondu formi, síðastliðið ár bætti miklu á mig, aðallega framan á magann. Þá er bara að gera alvöru úr því að koma sér í form, og það er á dagskrá um leið og ég er kominn heim úr sumarfríinu. Svo margir boltar sem ég hefði náð ef að eins og 10 kíló hefðu verið ekki til staðar (eða þá á réttum stöðum). Það er alltaf næsta tímabil 🙂

Margt skondið sem ég sá í vefgáttinni minni í dag, þar ber hæst tilraunir Microsoft til þess að blekkja saksóknarana sem að eru að lögsækja það, ekkjuna sem að fann frábæra leið til að eyða ellinni og perúskan atvinnuleysingja sem að notar mótmælaaðferðir sem að eru alls ekki að mínu skapi.

Annað sem er mér ekki að skapi er hvernig stórfyrirtæki eru allt í einu orðin lögregla og dómstóll, og að þú sért sekur uns sekt, nei afsakið, sakleysi sé sannað. Það sem meira er að ríkið færði einkafyrirtækjum þetta vald.

Svo var dregið í riðla í Meistaradeildinni, mínir menn í Lazio og Lyon lentu í nokkuð snúnum riðlum en ættu samt að hafa þetta af.

Ferðalög Molasykur

Samband

Kom heim í hádeginu í dag til að geta hringt urrandi vondur í 800 7000, nema hvað að þá voru þeir búnir að laga þetta.

Veðrið í Frakklandi lítur vel út fyrir okkur, 30°C á daginn og 15°C á morgnana (sem er mesti hiti sem hefur verið í Reykjavík í sumar held ég… á daginn).

Trúarbrögð eru svo ekki sniðug, sjáið þennan lista yfir hvaða kex og kökur (og fleira) múslimar mega og mega ekki éta. Sérstaka athygli vekur listinn yfir bönnuð E efni. Hvernig ætli listinn líti út í Afganistan?

Aaaach. Operan er eitthvað undarleg í að lesa stílsniðin mín! Hmmm.. og vill stundum ekki sýna myndir. Ekki í náðinni hjá mér, byrjaði vel en fer svo að klikka talsvert.