Author Archives: Jóhannes Birgir

Jólaföndur

Í eldhúsinu liggja nú einar tuttugu eða svo Orangina flöskur í bleyti í vaskinum. Það ku víst vera besta aðferðin til að ná af þeim límmiðunum, en þeir eiga ekki vel við næsta hlutverk flasknanna, að verða jólaskraut í vinnunni.

Ég ætla að minnsta kosti að gera tilraun til föndurs, held ég að handavinnukennarar mínir fengju slag, enda aldrei fengið meira en 6 í handavinnu og smíði á minni lífsleið.

Samsung spilarinn er kominn aftur inn í myndina eftir ítarlega rannsókn í dag og í gær á því hvar best sé að fá hann og hvernig eigi að fínstilla hann. Í umræðu í vinnunni í dag var ótrúlega einfalt að færast frá umræðu um DVD yfir í umræðu um hvernig risafyrirtæki eru að taka þegna í nefið með aðstoð þeirra ríkisstjórna sem þegnarnir kjósa til þess að vernda þá… þetta liggur allt í augum uppi en fátt er aðhafst… ennþá.

Áhugavert lesefni:

  • Harrius Potter
  • Flutningar

    Byrjaði á því að undirbúa flutninginn af aðalvefþjóninum á varavefþjón, sem að mun vonandi gera sitt besta á meðan að hinn fer í læknisrannsókn.

    Áhugavert lesefni:

  • Bandaríkjamenn enn sakaðir um glappaskot í árásum á Afganistan
  • Harry Potter

    Fór í fyrsta sinn í Smáralind í morgun, förinni hafði fyrst verið heitið á hádegissýningu á Harry Potter, en börn niður í tveggja ára gömul eru ekki bestu kandídatarnir til þess að sitja kyrr í tvo og hálfan tíma, þannig að við keyptum okkur bara miða á 9-sýningu og héldum svo í Skeifuna og þaðan í Smáralind. Skoðuðum okkur talsvert um þar, mín fyrsta ferð þangað. Þetta lítur ágætlega út, meira rými en í Kringlunni, sama gilti um til dæmis Hagkaup sem var nokkuð rúmgott, ólíkt kaosinu í öðrum verslunum þeirra.

    Sáum DVD-spilarann sem við höfum beðið eftir í Euronics, hann spilar ekki bara hinar ýmsustu týpur geisladiska heldur líka gömlu myndbandsspólurnar. Verðið reyndar aðeins of hátt fyrir okkur núna, ríflega 69 þúsund krónur. Kíkjum á hann eftir ár eða svo kannski.

    Héldum svo í Miðhús og heilsuðum upp á afmælisbarn fimmtudagsins, mömmu, og sátum þar í kaffi.

    Pabbi átti reyndar einnig afmæli á fimmtudaginn, en það var ekki svona hálf-stórafmæli eins og hjá mömmu.

    Góðum degi lauk með frábærri bíóferð, Harry Potter myndin var ekki með veikan blett, frábærlega að henni staðið að öllu leyti. Núna bíður maður bara fimmtu bókarinnar spenntur 🙂

    Það var dregið í riðla í HM 2002 í dag, magnaður riðill hjá Englandi, Svíþjóð, Nígeríu og Argentínu.

    Áhugavert lesefni:

  • Learning to hack
  • Allt þá þrennt er…

    Svo vona ég í bili. Fór snemma í morgun aftur vestur, sæmilegasta veður mestalla leið en um leið og ég fór í gegnum hliðið (checkpoint) varð skyggnið ekkert, enda er herstöðin ofan á hól í algjöru berangri. Sá ekki kennileitin sem ég hef ratað eftir til þess að fara í vöruhúsið (sem ferð minni var núna heitið á) þannig að eftir að hafa villst um í engu skyggni náði ég að fá leiðbeiningar hjá Keflavíkurverktökum sem þarna eru með mikla starfsemi. Þessari síðustu kennslustund lauk svo um hádegi og ferðin austur (því ekki fer maður norður til höfuðborgarsvæðisins.. er það?) gekk vel.

    Í kvöld er svo mikil ládeyða í mér að ég hef ekki hugmynd um hvað ég á af mér að gera.

    Á veginum aftur

    Skrapp aftur á herstöðina með viðbætur og til að kenna nokkrum aðilum á kerfið okkar. Fínt veður á leiðinni vestur (hvernig fær fólk út að þetta sé að fara “suður”?) en á leiðinni til baka var mjög hvasst, nokkuð sem að hristir svona létta og háa Yarisa pínulítið of mikið.

    Gjörsamlega að deyja úr þreytu, búin að vera ágætis törn undanfarið.

    NAS og sending

    NAS er lénið sem við vorum að logga okkur inná í dag uppá Keflavíkurvelli í dag, vorum með lappa sem við þurftum að tengja við lénið og sem vænta mátti var slatti af öryggisatriðum. Þegar að loksins grey vélin var tengd við lénið tók það hana 3 mínútur eða svo að lesa allar öryggisreglurnar sem að eru á léninu, hvað hún mætti og mætti ekki gera. Uppsetningin á kerfinu gekk vel annars.

    Í kvöld var svo pakkinn sem Amazon.co.uk sendu af stað á laugardaginn að koma í hús, 4 dagar sem þetta tók, ekki slæmt það. Frá Bandaríkjunum á maður ekki að panta nema maður panti jólagjafirnar í júní… skelfileg þessi bandaríska aðferð að senda póst til útlanda einmitt þangað… og þá skiptir ekki máli hvert útlandið er, um leið og pakkinn er farinn út fyrir Bandaríkin eru þeir lausir við hann. Þannig geta pakkarnir manns farið til Grikklands, þaðan sem þeir verða svo að þræða Evrópu áður en þeir komast til Danmörku og þaðan til Íslands. Einn galli raunar, það vantaði eina litla kilju sem ég pantaði, nú er bara að komast að því hvort að Amazon hafi gleymt að setja hana í (hún er þó á kvittuninni) eða hvort að tollararnir hafi gleymt að setja hana aftur í við skoðun.

    Fínn dagur í vinnunni

    Gaman þegar að svona gerist, engin vandamál fyrir utan að ein vélin fékk vægt hjartaáfall (réttara sagt netkortið hennar) og er því í smá dái þangað til að ég skipti um netkort.

    Skoðaði phpDig betur í dag og verð að segja að þetta lítur virkilega vel út. Prufaði að indexa nokkra vefi, bæði mína eigin og annarra og þetta ætla ég sko að setja upp. Mér líst svo vel á þetta að ég ætla að gera mitt besta til að hjálpa til í þessu verkefni, svo skemmir ekki að þetta er Frakki sem er með þetta, en Frakkland er í mínum góðu bókum (þeir reyndar eru alveg ómögulegir í að skrifa orðin eins og þau eru sögð…).

    phpDig

    Er búinn að velta því fyrir mér hvernig væri best að koma upp leitarvél á vefsetur, núverandi kerfi hjá mér er frekar frumstætt. Fann þessa frábæru leitarvél sem heitir phpDig og líst mjög vel á.

    Dagurinn og kvöldið fóru annars í vinnu… stóra verkefnið er á leiðinni í uppsetningu von bráðar.

    Allir vinna

    Lazio komnir í betri mál en áður með 1-0 sigri á Juventus. Bara þrjú stig í topplið Chievo. Svo unnu Uglurnar Stockport 5-0 og Lyon unnu Auxerre 3-0. Það koma svona einstaka helgar sem að allt gengur upp í boltanum, verst reyndar að lesa það að Björgvin hafi stjórnað Leeds til árangurs í CM, ég hef stjórnað mörgum liðum en Leeds snerti ég ekki!

    Áhugavert lesefni:

  • New tree found in Vietnam
  • Sekt uns sakleysi er sannað

    Kanarnir slökkva bara á internetinu í Sómalíu vegna gruns um tengsl við hryðjuverk. Öll þjóðin líður fyrir það, bankafærslur, sími og netaðgangur hefur verið rofinn.

    Stjórnmálamenn eru oft þeir sem ekki ættu að hafa völdin, enda oft svoleiðis að þeir sem sækjast eftir völdum eru síst hæfastir til þess að fara með þau.