B-mynd, James B-mynd

Lokaverkefnið er á góðum skrið þökk sé gífurlegri vinnuhörku hópfélaga minna. Annað kvöldið í röð tek ég mér frí og hef það náðugt á meðan að þeir strita.

Kvöldið var kósýkvöld. Þetta er fyrsta hátíðin okkar sem við ákváðum að hafa á heimilinu, jólum og áramótum var varið í foreldrahúsum sem endranær. Núna vildum við prufa að vera út af fyrir okkur og það tókst bara prýðilega. Appelsínulamb og bakaðar kartöflur, ostaterta, páskaegg og smá snarl voru á matseðli kvöldsins á meðan að við horfðum á eina prýðisræmu og aðra verri.

Prýðisræman nefnist About a Boy og var vel þess virði að horfa á. Verri ræman heitir Die Another Day og er úr ofur-B-mynda flokknum góðkunna um James Bond. Við sáum ekki fram á að endast í rúma tvo tíma yfir greyinu þannig að við fórum snemma að spóla yfir á fyndnu atriðin og bar þar íshöllin á Jökulsárlóni einna hæst. Það er ekki tilviljun að það eru mörg ár síðan að ég gerði mér ferð í kvikmyndahús til að sjá Bond bregða á leik, þetta er skelfilega klént.

Tengill dagsins er á umfjöllun um mynd sem ég held svei mér þá að sæki talsvert í Annie og skyldar myndir.

Comments are closed.