Eldmessa frá Firringarlandi

Björn Bjarnason er að ég held örugglega eini þingframbjóðandinn sem fékk að halda sessi sínum sem reglulegur pistlahöfundur á Morgunblaðinu. Ellert B. Schram fór í framboð fyrir Samfylkinguna og var að sjálfsögðu beðinn um að láta af greinaskrifum.

Lesning á pistlum Björns er oft þungbær, mér finnst erfitt að sjá það að maður sem var ráðherra og er í dag þingmaður og borgarfulltrúi skuli hafa þvílíkan þankagang. Það er eins og maðurinn sé sex ára og sjái stríð fyrir sér sem tindátaleik. Í dag greinir hann frá “nýrri” hernaðarstefnu sem er komin frá Washington D.C. og nefnist “pre-emptive”, sumsé að ráðast á óvininn áður en hann ræðst á þig. Björn á í vanda með að finna íslenskt heiti yfir þetta en það er auðvelt að leysa. Þetta heitir einfaldlega innrás. Ekki ýkja flókið.

Það er svo annað mál að mér finnst það ekki vera verjandi að vera bæði borgarfulltrúi og þingmaður. Þeir eru því miður nokkuð margir þingmennirnir úr öllum flokkum sem eru borgar- eða bæjarfulltrúar eða sveitastjórnarmenn.

Bandarísk stjórnvöld eru hins vegar þessa dagana að stunda mikinn blekkingarleik og snúa öllum skilgreiningum á haus, þeir varpa sprengjum en samt er stríðið ekki hafið, þeir gera innrás til að vernda þjóð sem býr hinum megin á hnettinum, þeir myrða óbreytta borgara til að frelsa þá undan oki, þeir auka öryggi eigin landsmanna með því að fylgjast með því hvað þeir lesa á bókasöfnum og á internetinu og lesa einnig tölvupóst þeirra. Það er kannski ekki við öðru að búast frá ríkisstjórn sem hlaut færri atkvæði en andstæðingarnir á landsvísu en hagnaðist af aldagömlu og úreltu kerfi þar sem fjöldi atkvæða skiptir ekki máli heldur skipting þeirra. Annað hvort færðu alla fulltrúa eins ríkis eða engan. Land lýðræðisins gefur nefnilega lítið fyrir lýðræðið.

Morgunblaðið vitnar líka í The Times en þar er sagt frá því með miklum hneykslunartón að andstæðingar stríðsins sýni andstæðingum sínum ekki tilhlýðilega virðingu. Þeir skilja eftir fötur af kúaskít fyrir framan heimili stríðsglaðra þingmanna! Það sjá allir að það er argasta móðgun og gífurlega meiðandi fyrir virðingu þessara vammlausu þingmanna!

Það eru undarleg geðlyfin sem The Times útbýtir á morgnana til starfsmanna sinna fyrst að kúaskítur í fötu er alvarleg aðför að blóðþyrstum þingmönnum en stríð í Írak og fall óbreyttra borgara er eðlilegur hlutur.

Morgunblaðið vitnar auðvitað ekki í þau stórblöð Bretlands sem eru á móti stríðinu, það samræmist ekki ímyndinni sem á að gefa af sameinuðu Bretlandi. Morgunblaðið bætir svo um betur og segir að mörg rök séu fyrir því að forseti Íslands heimsæki ekki önnur ríki á “tímum sem þessum”. Við eigum víst að slíta sambandi okkar við öll önnur ríki þar til að búið er að tæta Írak aftur um 100 ár. Ég sé reyndar ekki ein einustu rök en ég er líka ekki að bryðja þessar pillur sem Morgunblaðsmenn hljóta að vera á.

Halldór Ásgrímsson segir svo að stríðsyfirlýsing Íslands gegn Írak í líki stuðningsyfirlýsingar við Bandaríkin sé smámál þar sem það skuldbindi ekki Alþingi til neins. Það er víst á hverjum degi sem Íslendingar lýsa yfir stríði gegn öðrum þjóðum.

Firring firring firring firring firring. Talað verður um Viðreisnarstjórnina áfram en þessi ríkisstjórn fer í sögubækurnar sem Firringarstjórnin. Af nógu er að taka og eru stríðsbröltið bara enn ein firringin sem ráðamenn vaða um í.

Rakst á þetta í dag:

The rule is, that all that was, is, and will be until the end of time is included in the Five Books of Moses…and not merely in a general sense, but including the details of every species and of each person individually, and the most minute details of everything that happened to him from the day of his birth until his death; likewise of every kind of animal and beast and living thing that exists, and of vegetation, and of all that grows or is inert! (src)

Einhver rabbíi fann sumsé út að í Mósebókunum er að finna allt sem hefur gerst og mun gerast og alla sem munu lifa og hafa lifað. Það sé bara dulmál í þeim sem þetta forrit frá Jewish Software getur ráðið. Hvað finnst mér? Best að hafa það ekki eftir.

Velkomin annars í lögregluríkið! Paranojan að éta skattpeninginn minn. Glæsilegt strákar! Bestu löggur í heimi!

Þetta er Jói sem segir bless frá landi firringarinnar.

Comments are closed.