Minnið er hriplekt hjá mér, gleymdi að minnast á það að ég fór í klippingu á miðvikudaginn, í fyrsta sinn í 2 ár held ég sem að ég fer á hárgreiðslustofu, hingað til hefur Sigurrós beitt vél á hausinn á mér. Nú erum við bæði að safna hári, hjá mér þýðir það raunar að ég sé að safna að ég er með meira en broddaklippingu.
Heimildamyndin um Michael Jackson var mjög áhugaverð. Ég hef skotið nokkrum skotum á hann í gegnum tíðina, var aldrei meðal aðdáenda hans en hann hefur átt nokkur sæmileg lög á löngum ferlinum. Það sem manni sýndist var að þetta er afskaplega ljúfur lítill strákur. Vond meðferð í æsku læsti hann greinilega inni sem 10 ára eða svo, þegar hann býður börnum í heimsókn er það til að vera stóri bróðir sem gefur öllum mjólk og smákökur og les fyrir þau. Ég stórefast um að hann sé barnaníðingur, öll börnin virtust mjög hænd að honum og hann var greinilega einn besti vinur þeirra. Hans eigin börn virðast dugleg og vel upp alin, Jackson á væntanlega sinn hluta í því uppeldi þó að fóstrurnar beri þungan af uppeldinu.
Michael Jackson hækkaði því í áliti, virðist voða ljúfur drengur sem er ekki alveg í sama hugarheimi og við hin og er því brennimerktur af þeim sem að velta sér upp úr sora alla daga. Ef ég væri svona moldríkur myndi ég kannski bara sjálfur byggja mitt draumaland þar sem allt væri eins og ég vildi og geðveikin í heiminum kæmist ekki inn! Er hann barnaperri? Það er vel mögulegt en virðist ólíklegra en maður taldi áður.
Las um þetta fyrir nokkrum árum þegar að Japanir áttu meiri pening en þeir gátu eytt, þá var mjög vinsælt að fara á svona veitingastaði þar sem naktar konur eru matarborð viðskiptavina. Spurning hvort þetta virki í London til langframa, einkum þegar að færri synda í peningum en áður.
Kyrrseta er stórhættuleg eins og allir vita, það fjölgar sífellt tilfellum þar sem menn fá blóðtappa sökum langrar setu fyrir framan tölvu. Þetta er banvænt, það er ekkert grín að maður ætti að standa upp af og til og hreyfa sig aðeins, það er brátt áfram lífsnauðsynlegt!
Í fréttum var greint frá því að atvinnuástandið væri ekki eins slæmt og menn segja, eða svo segir Vinnumiðlun. Í Bandaríkjunum er ástandið heldur verra, þeir sem auglýsa eftir starfsmönnum fá holskeflu umsókna til sín og komast hreinlega ekki yfir þær. Ástandið virðist frekar slæmt í Massachusetts fyrir starfsmenn úr tæknigeiranum og þrýst er á aðgerðir af hálfu ríkisins.