Já. Próf í morgun í strjálli stærðfræði, gekk þokkalega en skildi ekki eina spurningu, maður les fræðin á ensku og svo á maður að svara á íslensku með allt öðrum orðaforða!
Kaldir vindar blása um vinnumarkaðinn þessa dagana. Það virðist þó ekki vera sama Jón eða ríkisbubbi Jón. Forráðamenn fyrirtækja reka starfsmenn og þeir fá 3 mánuða uppsagnarfrest en þegar forráðamennirnir hætta fá þeir tugi eða hundruð milljóna til að bæta fyrir óþægindin. Svona. Fólk. Flengja.
Til þess að létta aðeins á brúninni tókum við gamanmyndina Men in Black II, hún stóðst væntingarnar sem gerðar voru til hennar sem létt afþreying.
Úr heimi vísindanna er gaman að lesa um kynlífsráðgjafa skordýra, spendýra og ótal annara tegunda. Hún Dr. Tatiana er með dýralífsþátt þar sem tekið er á óheppilegum atriðum eins og grænleitum typpum hjá fílum og önnur vandræðalega málefni.
Meira af kynlífi dýra, hingað til hafa vísindamenn grínast með það að karlkyns köngulær reyni að ríða öllu sem þeir sjá, hvort sem það er lífs eða liðins. Nýlegar rannsóknir hafa hins vegar afsannað þessa kenningu. Karlarnir virðast vera mjög vandfýsnir og vilja helst stelpur með djarfar línur.
Öllu verra er að heyra um skaðleg áhrif A-vítamíns sé það tekið í of miklu mæli. Það virðist auka líkur á beinbrotum talsvert.
Ef við færum okkur um set í heimi vísindanna þá finnum við þessa frásögn af huldueindum sem þjóta í gegnum jörðina á ofsahraða og bora sig án vandkvæða í gegnum jörðina þvera. Varasamt að lenda í vegi fyrir þeim.
Af tölvumálum er það helst að frétta að á meðan að bandaríski herinn þjáist af bandvíddarskorti sökum tíðra PowerPoint sendinga og lifandi strauma frá hernaðartækjum þá er enn eitt forritið til að auðvelda skráaflutninga milli notenda í vinnslu, hæpið að það komist í tölvur hermannanna.
Endum á friðsamlegum nótum með ljóðum gegn stríði.