Sandkassaleikur

Gleymdi að minnast á það í gær að Daði bróðir tók Toyotuna í smá fegrun í gær, þreif bílinn, skipti um perur og fleira smálegt.

Gleymdi líka að nefna það í gær að ég fór í sandkassaleik í vinnunni. Ákvað að taka til á borðinu til að fá betra vinnupláss og gróf upp skjöl frá síðustu 18 mánuðum, ekki oft tekið til hjá mér. Nú vill svo til að ég sit við glugga.

Það vill líka svo til að undanfarna mánuði hafa verið miklar framkvæmdir við ströndina, uppfyllingar verið gerðar allt frá athafnasvæði Viðeyjarferju og næstum upp að Elliðaósi (hvað það nú heitir) og í það hafa stór sandfjöll verið notuð. Að auki hefur verið dýpkað við athafnasvæði Samskipa sem er rétt fyrir neðan okkur og þar hafa ófá tonninn af sandi fokið upp. Því er oft svört slikja á skrifborðinu mínu, ofboðslega fíngerð sandkorn sem smjúga inn um gluggann og þekja allt.

Við þrifin í dag þá safnaðist þetta saman í litla hrúgu sem ég held að hefði verið hægt að nota í eins og eina litla sandköku. Er ekki hægt að fá miskabætur frá þessum sandgreifum, þeirra framkvæmdir þýða sandstorm innandyra hjá mér og svo held ég að tölvurnar séu ekki voðalega jákvæðar fyrir því að fá agnarsmá sandkornin inn í viðkvæman vélbúnaðinn. Eitt sandkorn sem kemst inn í harðan disk getur gert svipaðan skaða og glerbrot sem er stungið ofan í geislaspilara á ferð.


Ég kíki einu sinni í mánuði á fréttavef Morgunblaðsins, í gær var dagur janúarmánaðar og þar sá ég þessa frétt þar sem Powell segir : “Neitun Íraka við því að afvopnast ógnar enn friði og öryggi á alþjóðavettvangi”. Á sama tíma berast fréttir af enn einum voðaverkum Ísraela á heimilum palestínskra borgara þar sem íbúðarhverfin sitja eftir með gapandi sár og fjölskyldur á vergangi og/eða syrgjandi sína nánustu. Þetta er daglegt brauð. Að auki hafa Ísraelsmenn hunsað ALLAR ályktanir sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sent frá sér vegna þessarar óaldar sem þarna er í gangi.

Það er greinilega ekki sama Jón og séra Jón, eða í þessu tilfelli Abdullah og Abraham. Gereyðingarmáttur Ísraela er nýttur daglega og þeir brjóta allt sem hægt er að brjóta í alþjóðasamfélaginu en samt heyrist ekki píp um það að þeir ógni friði og öryggi á alþjóðavettvangi.

Abraham er æðri Abdullah.


Fékk í dag sem aðra daga slatta af ruslpósti en náði þó að stöðva mig í tæka tíð áður en ég eyddi út einum pósti sem sagði að ég hefði unnið eitthvað. Ég hafði nefnilega unnið eitthvað! Piltarnir hjá Zend (þeir búa til PHP vélina sem að fjöldamargir vefir keyra á) drógu mig og fjóra aðra út og gáfu okkur Zend Studio, flott (en þungt) þróunarumhverfi fyrir PHP.


Þetta er búinn að vera öflugu dagur á vafrinu (engin vinna í dag sökum skóla).

Þeim sem sakna móðurmjólkarinnar er bent á að fara til Changsha í Kína en veitingahús þar er með rétti með brjóstamjólk í boði.

Fann alveg magnaða smásögu, læknisfræðileg sci-fi með miklu tölvuívafi, varla hægt að stíla meira inn á mig!

Sá að það er verið að gefa út Adult Edition af fimmtu Harry Potter bókinni. Eini munurinn er víst kápan þó að Adult Edition gæti gefið meira í skyn.

Eins og flestir vita fór Internetið illa út úr helginni sökum öryggisholu sem þeir hjá Microsoft voru með í SQL-gagnagrunninum hjá sér og fleiru. Þeir gáfu reyndar út plástur fyrir þessu fyrir 6 mánuðum en mönnum er oft illa við að setja inn nýja plástra þar sem að þeir laga kannski einn hlut en skemma 4 aðra í staðinn. Því voru margir veikir fyrir þessum tölvuormi, meira að segja Microsoft sjálfir en netið þeirra hrundi sökum álagsins sem ormurinn olli innanhús hjá þeim.

Þá er Pravda komin í vefgáttina mína. Gott að fá fréttir að sem víðast!

Fyrsta fréttin frá Prövdu er um sæorma sem kannast ekkert við sólarljós né hafa þörf fyrir það, þeir nýta sér hitann úr iðrum jarðar og þykir þetta mikil uppgötvun varðandi líkur á lífi á öðrum hnöttum.

Lýkur þar með færslu dagsins.

Comments are closed.