Flóðgátt

Dagurinn byrjaði á heimsókn til tannlæknisins þar sem að sett var fylling í stað þeirrar sem ég týndi fyrir nokkrum vikum. Ég virðist einkar laginn við að týna fyllingum, kjafturinn stoppar kannski of sjaldan? Hann horfði vonaraugum á þessa þrjá endajaxla sem eftir eru og lýsti yfir vilja sínum til að fara að kippa þeim út. Spurning hvort jólagjafirnar hans séu í dýrari kantinum þetta árið?

LÍN lækkaði námslánin hjá mér, ég vann mér inn 150 þúsund kalli meira en ég áætlaði þannig að þeir lækka lánið um tæpar 80 þúsund krónur samtals yfir árið.

LÍN er grín. Það er ekki séns að vinnandi einstaklingar geti tekið sér námsleyfi í þessi þrjú ár sem að flestar Bachelor-gráður krefjast ef þeir ætla að treysta á LÍN til framfærslu. Það nær enginn að safna saman digrum sjóðum þegar verðlagið er eins og það er og skattarnir háir og margfaldir. Bankalán eru svo auðvitað beinasta leið til gjaldþrots, okurvextir innheimtir hér á landi sem eru óþekktir annar staðar í heiminum nema hjá Mafíumönnum í bíómyndum.

Sá að menntamálaráðherra íhugar lagasetningu (lögin leysa allt, gamalt mottó stjórnmálamanna) vegna aðgengis barna að tölvuleikjum. Vonandi að þetta fari ekki í neitt rugl, tölvuleikir ættu allir að vera löglegir en þeim á að fylgja aldursstimpill og foreldrar ættu að fara eftir honum. 6 ára börn að spila drápsleiki finnst mér meira en á tæpasta vaði og sýna bara skilningsleysi foreldra.

Svo virðist að þegar fleiri en tveir tjá sig um eitthvað málefni á netinu að þá finnist öðrum að “allt sé á suðupunkti” og “allir að tala um þetta”. Mér hefur aldrei fundist þrír vera margmenni þó að þannig orðatiltæki sé til á ensku (líklega hugsað út frá hugtakinu par og hvað það getur gert saman þegar þriðji aðili er ekki viðstaddur?).

Ég hef reyndar velt því fyrir mér að setja skilmála þess efnis á vefinn að “ljósvaka- og prentmiðlum er óheimilt að vitna í efni á þessum vef án samþykkis þess er þetta ritar”, netmiðlum væri hins vegar auðvitað frjálst að gera það. Ég hef heyrt af því að vondur grínisti hafi lesið upp færslu hjá mér fyrr á þessu ári í útvarpi, það er ekki miðill sem ég hugsaði mér að fara í enda eðli sínu hraðsoðinn og ónákvæmur. Efnistök í sjónvarpi, útvarpi og á dagblöðum einkennast af hraðsoðnum fullyrðingum sem sjaldnast standast nánari skoðun en svona alhæfingar hljóma víst betur. Ég vil sem minnst af svona fjölmiðlun vita og hef því íhugað að setja þessa skilmála á vefinn, hægt væri tæknilega að leyfa ekki að lesa efni nema að samþykkja skilmálana, þá ætti lagalega hliðin vera komin í lag hvað mig varðar.

Hversu margir ætli endist að lesa þetta mikinn texta? Mér hefur nefnilega sýnst að allt sem nær yfir fleiri en 3 línur sé “of mikill texti, ég nennti ekki lesa það” eins og sjá má í athugasemdum við greinar hér og þar á netinu. Stuttlæs kynslóð fædd?

Reykvíkingar eru orðnir þreyttir á snjóleysinu hér fyrir sunnan, meira að segja í Þýskalandi snjóar duglega. Snjórinn reyndar kemur sumum óþyrmilegar á óvart en öðrum.

Frakkar eru ekki langt á eftir Íslendingum þegar kemur að málverndunarstefna. Þeir hafa þó líkt og við skrifstofublækur sem að eru ekki alveg í tengslum við samfélagið og reyna að koma undarlegum orðum að í stað annara sem þegar hafa náð almennri útbreiðslu.

Mexíkómenn eru með nýstárlegt framtak í löggæslumálum, kúrekalöggur sem verða mælandi á enska tungu og sögulega þekkingu á hverfinu sem þeir vakta.

Comments are closed.