Bláa höndin sleppir ekki

Ekki er ég fyrr búinn að pirrast enn einu sinni yfir manneyðunni sem Björn Bjarnason er en ég fæ “Framboð í Reykjavík” sent með mynd af honum á forsíðu ásamt 16 öðrum.

Ég var fyrir mörgum árum síðan mjög virkur í Tý (FUS Kópavogi) og tók þátt í starfi á vegum Sjálfstæðisflokksins víðs vegar í nefndum og öðru. Ég var á SUS-þinginu fræga í Neskaupstað 1992 (og var fundarritari, tókst þó undir lokin að véla mig úr því hlutverki), þinginu á Selfossi sem var það fjölmennasta hingað til, ýmsum flokksþingum og fleira og fleira. Ég taldi eitt sinn að ég væri með 16 embætti skráðan á mig þann daginn, hvort sem það var ritari þessa, nefndarmaður þarna, stjórnarmaður þarna eða hvað það nú var allt.

Ég sumsé tók afar virkan þátt í stjórnmálastarfi. Ég var líka ungur og ferlega vitlaus. Þessu lauk 1995-96 minnir mig þegar ég dró mig út úr þeim stjórnum og stöðum sem ég hafði þá með höndum og lagðist undir feld.

Eftir talsverða umhugsun komst ég að þeirri niðurstöðu að þau öfl sem ég hafði séð að verki í stjórnmálum (bæði innan Sjálfstæðisflokks og utan) voru þess leg að ég vildi ekki koma nálægt þess háttar. Ég sagði mig úr flokknum, held að það hafi verið 1997-98, afar langt síðan og dagsetning og ártal því ekki á hreinu.

Nú í dag fékk ég hins vegar inn um lúguna þennan framboðssnepil (sem er ómerktur.. borinn í öll hús kannski?) en með honum fylgdi jafnframt dreifirit frá Heimdalli stílað á mig með nafni þar sem ungu frambjóðendurnir voru kynntir og ýmis fögur orð látin falla.

Eftir mörg ár án þess að hafa fengið dreifirit frá Flokknum þá hefur honum tekist að grafa mig upp, Bláa höndin er vöknuð. Nú er spurning hvort ég verði ekki að athuga hvort að búið sé að skrá mig í Heimdall án vitundar minnar, kannski senda þeir þetta bara líka á þá sem eitt sinn voru innvígðir og von er á að fá inn aftur? Vonin er lítil á mínum bæ.

Ég kannast ágætlega við Guðlaug Þór, hann var fremstur í fylkingu þann tíma sem ég var í SUS og ég sat á mörgum fundum með honum og vegna hans (þegar næstu skref innan SUS voru ákveðin). Birgi Ármannssyni kynntist ég líka aðeins, til að hann væri ekki einn í nefnd á Neskaupstað settumst við tveir Týsarar til borðs með honum og lömdum saman ályktun um efnahags- eða viðskiptamál minnir mig. Aðallætin á þessu þingi voru í sjávarútvegsnefnd þar sem stór fundarsalur var stappaður og barið í borð og stór orð látin fjúka. Þangað inn nennti ég ekki.

Hina ungu frambjóðendurna þekki ég ekki, þeir eru á aldur við mig en spurning hvort þeir hafi verið á þessum þingum og hvað það var nú allt. Að minnsta kosti voru þeir ekki í sviðsljósinu (ekki frekar en ég enda vildi ég það ekki). Guðlaugur og Birgir eru annars ágætis menn.

Fyrst ég var annars kominn með þetta í hendurnar ákvað ég að blaða aðeins í þessu og lausleg könnun leiddi í ljós að af 17 frambjóðendum í prófkjörinu eru 11 úr MR. Hvaðan mýtan um vinstrihneigð þess skóla kemur veit ég ekki, blárri en Versló miðað við þetta, aðeins einn Verslingur er í framboði.

Skiptingin er annars svona:

11- MR
2 - MH
1 - Iðnskólanum Ísafirði
1 - MA
1 - Stýrimannaskólanum
1 - VÍ


Háskólanám skiptist svo:

6 - lögfræði
3 - ekki lokið háskólanámi
2 - hagfræði
2 - stjórnmálafræði
1 - hjúkrunarfræði
1 - læknisfræði
1 - viðskiptafræði
1 - eðlis-, stærð- og tölvunarfræði


Á Alþingi eru nú 18 MR-ingar, þar af 5 með lögfræðipróf (að auki nokkrir þingmenn sem hafa ýmist farið í MR eða lögfræði en ekki lokið námi). Alls eru lögfræðingar á Alþingi 9 talsins (5 Sjálfstæðismenn, 2 Samfylkingarmenn og svo Framsóknarmaður og Vinstri-Grænn).

Af MR-ingum eru 9 þeirra Sjálfstæðismenn, 5 Samfylkingarmenn, 2 Framsóknarmenn og 2 Vinstri-Grænir.

Næsti flokkur sem sendir mér bleðil fær ámóta tölfræðipistil frá mér. Ég er óflokksbundinn og verð það þar til eitthvað almennilegt kemur á sjónarsviðið.


Haldiði ekki að Reuters hafi breytt útliti vef síns í dag og verið svo latir að geta ekki haldið gömlum slóðum í gangi! Þurfti að setja inn breyta bókamerkjunum, hnuss.

Þar mátti annars lesa um skaðræðiskvendi sem að er verra en margir “wife-beaters”, skar eyrað af kallinum og setti í lófa hans þegar hann spurði hví hún kæmi svo seint heim.

Þeim sem vilja súkkulaðihúðuð kartöflustrá bendi ég á að fara til Ameríku (hvert annað).

Guðsmenn sjá enn djöfulinn í líki homma, spurningunni um málfrelsi er vandsvarað þegar að svona rugli er dreift, hallast þó að málfrelsi þó að svona idjótaháttur fljóti með.

Ég held að Íranir séu á réttu róli varðandi refsingar, það er held ég áhrifaríkara að niðurlægja menn opinberlega (og frekar sakleysislega) en að senda þá í fangelsi. Ég styð svona refsingar fyrir vandræðalýð sem að heldur sig vera töff þegar þeir eyðileggja eigur annara og hrella fólk. Rassskelling á almannafæri myndi láta marga hugsa sig tvisvar um, ein lína á sakaskrá skiptir þá engu máli.

Comments are closed.