Nú er rúmt ár síðan að Sigurrós og félagar í Kennó voru síðast með grímuball í Stúdentakjallaranum þar sem við skötuhjúin slógum í gegn sem franskt hefðarpar.
Í kvöld var haldið annað grímuball, núna á Astró þar sem þau fengu staðinn til afnota til miðnættis (þegar pöpulnum er hleypt inn). Fréttir af því hvernig það tókst til má væntanlega fá á morgun þar sem að ég fór ekki með að þessu sinni. Ég ekki alveg rétt tjúnaður til að fara á grímuball núna (síðustu skilaverkefni annarinnar stór og mikil) hvað þá á Astró, ég mjög sáttur við sjálfan mig fyrir að hafa ekki enn stigið fæti inn á þann stað (kom síðast þangað þegar þetta hét Berlín… nokkur ár síðan að það var).
Von mín um að kíkja í fótbolta á morgun með vinnufélögunum varð að engu í dag, ég var að vona að vinstri löppin gæti dugað ef ég hlypi ekki mikið en annað kom á daginn í dag. Færði allan þungann yfir á vistri löppina í dag og þá var engu líkara en að fóturinn hefði brotnað, skerandi sársauki og ég er draghaltur. Gigtin greinilega orðin svæsin og nú er bara spurning um að fara að gylla knattspyrnuskóna og setja á góðan stað, ég hef alltaf haldið í örlitla von en nú held ég að síðasti neistinn sé dáinn (nú nema ég láti klippa hana af og fái mér gervifót, þyrfti ekki að klippa nema við ökkla!).