Vil óska þeim feðgum Simma og Jóni Inga til hamingju með vef þess síðarnefnda, smíðaður af þeim fyrrnefnda.
Að öðrum málum, smáborgarahátturinn sem að hrjáir borgarráðsmenn víða um heim er kominn til Berlínar, þar hefur söluleyfi báss sem að selur bratwurst-pylsur (alls óskylt íslenskum pulsum) ekki verið endurnýjað þar sem að svæðið við Brandenborgarhliðið er nú orðið að of fínt með rándýrum veitingahúsum allt í kring. “Hér ríkja hinir ríku, burt með aðra” er mottó þessara smáborgara, hvort sem er í Berlín, Kína eða annars staðar þar sem smásálir komast í valdastöður.
Fleiri smásálarfréttir berast frá Japan, Austur-Asíubúar virðast allra þjóða duglegastar í því að vilja komast í snertingu við frægðarljóma stjarnanna, kannski helgast það af því hversu ofboðslega fjölmennar þær eru og einstaklingshyggja illa séð. Nýjasta æðið í Japana er að sofa í herberginu sem Beckham gisti í á meðan að á HM2002 stóð yfir. Hótelið mokar inn peningum hægri vinstri á þessu, einkum sökum þess að það gefur ekki upp í nákvæmlega hvaða herbergi á 10. hæð þess Beckham svaf.
Dómarar gera mistök eins og aðrir, leikmenn Stade Olympique l’Emyrne (Madagaskarmeistarar í fyrra) sýndu óánægju sína með dómarann í leik þeirra gegn nýkrýndum meisturum AS Adema með því að skora hvert sjálfsmarkið á fætur öðru! Nokkuð sem mér finnst óhugsandi og enn svakalegri er lokatalan, 149 – 0 ! Leikmenn l’Emyrne sumsé spörkuðu knettinum jafnóðum frá miðju og í eigið mark án afláts á meðan að leikmenn AS Adema horfðu furðu lostnir á og hreyfðu hvorki legg né lið.
Pútín virðist hafa einhvern snilling á bakvið sig til að tryggja ímynd hans, það nýjasta er að hann er nú gerður að kyntákni í vinsælu dægurlagi í Rússlandi. Rússar eru vanir miklum fórnum og dauði 119 manna úr gaseitrun er bara dropi í hafið. Stalín drap milljónir þannig að þetta er allt á réttri leið.