Hryðjuverkamenn allra landa

Í dag er ár síðan að fjórum flugvélum var rænt í Bandaríkjunum og allir vita framhaldið. Heildartala látinna hefur sífellt lækkað, úr tugþúsundum og núna í rétt 3 þúsund við síðustu talningu.

Litli bróðir gróf upp Flash-skrá sem að minnist atburðanna. Myndirnar sem eru birtar þarna kannast maður sumar við og aðrar ekki, en við að sjá þjáningar fólks fær maður kökk í hálsinn. Ein spurning fer að koma upp einhver staðar um miðju… “why?”. Í lokin birtist svo ástæðan getum við sagt, þar er byrjað að spýja út þessu hefðbundna tali, allra verði hefnt með blóði og Ameríka og frelsið sjálft krefjist hefndar.

Sem Íslendingur held ég að ég hafi efni á að setja mig á pínulítinn hest, og hrista hausinn yfir þessu. Ef maður spýr eitri þá mun maður fá bolla af því til baka, eins og sagt er í enskunni “what goes around comes around”. Bandaríkjamenn hafa verið allra þjóða duglegastir við að spýja eitri, um tíma öttu þeir kappi við Sovétríkin í þessu en síðan þá eru þeir ókrýndir meistarar hörmunga.

Ég finn til með fórnarlömbunum í fyrra, en skil ástæðurnar.

Hvar eru minningarathafnirnar um fórnarlömb valdaránanna sem að Bandaríkin hafa staðið fyrir? Bandaríkin munu verða sett í sagnfræðilegt samhengi með hryðjuverkaþjóðum, vandfundin sú þjóð sem að hefur skipt sér meira af heimsmálunum og oftast til hins verra.

Árásin á Írak sem að nú er plönuð á að koma frá harðstjóra og koma á fót lýðræði. Valdaránið í Síle sem að CIA kom á fót kom harðstjóra til valda og kom í veg fyrir lýðræðið, Bandaríkjamönnum fundust Sílebúar hafa kosið vondan forseta. Aðgerðir Bandaríkjanna eru alltaf með eitt markmið, að koma sínum bandamönnum fyrir og losa sig við þá sem ekki eru með þeim. Bush yngri sagði það reyndar sem “either you are with us or against us” og talaði þá við heimsbyggðina alla.

Orðunum lýðræði og frelsi er hent inn þegar að það hentar, annars er þeim sleppt enda á skjön við raunverulegan tilgang þeirrar aðgerðar.

Það er ekki hægt að verja hryðjuverkin 11. september í Bandaríkjunum, alveg eins og það er ekki hægt að verja afskipti Bandaríkjanna af sjálfstæðum þjóðum. Listinn er langur yfir þá sem að bandarískir ríkishryðjuverkamenn (sem heitir víst hermaður og leyniþjónustumaður) hafa drepið, mun lengri en sá sem að varð til í New York og Pentagon í fyrra. Þá eru ótalin stríðin sem að Bandaríkjamenn hafa komið á fót til að líða sjálfum betur.

Heimurinn er á góðri leið í myrkar miðaldir (eins og ég nefni af og til), á Íslandi hefur málfrelsi og tjáningarfrelsi verið skert þegar það hentaði ríkisstjórninni, í Bandaríkjunum má nú handtaka hvern sem er án dómsúrskurðar og nú má víst hlera hvað sem er. Einkalíf og frelsi eru ekki lengur ríkisvörð réttindi í landi hinna frjálsu.

Ég græt öll fórnarlömb, skrifstofufólk í New York og Pentagon, brúðkaupsgesti í Afganistan, öldungaráð í Afganistan, börn í Palestínu, unglinga í Ísrael, stjórnmálamenn í Síle, munka í Tíbet, bændur í Víetnam, lögreglumenn í Granada, farþega í flugvélum og áfram mætti telja fórnarlömb hryðjuverka, framin af öfgatrúarmönnum, Bandaríkjamönnum, Frökkum, Kínverjum, Ísraelum, Bretum, Sovétmönnum og fleirum.

Það er enginn skortur á fávitum sem vilja drepa, gállinn er sá að margir þeirra eru við stjórnvöl voldugustu ríkja heims.

Comments are closed.