“En við erum svo lítil”

Eitthvað er leiðari sunnudagsmoggans í gær aumingjalegur. Fyrst áttar höfundur (væntanlega ritstjóri Morgunblaðsins) sig alls ekkert á því hvernig það geti verið að palestínsk börn séu vannærð þar sem að þarna er tiltölulega friðsamlegt miðað við óróasvæði og hjálparstarfsmenn á hverju strái.

Höfundurinn hefur greinilega ekki lesið copy/paste greinar Moggans frá AP og Reuters þar sem hver hjálparstofnunin á fætur annarri kvartar undan ísraelska hernum sem að gerir sitt ítrasta til að tefja líknarstarf. Íslendingi var nýlega vikið burtu af hernumdu svæðunum þar sem hann sinnti hjálparstarfi, ekki las höfundurinn neitt um það greinilega. Höfundur er greinilega ekki heldur kunnugur því að iðulega er í gangi útgöngubann dögum saman, ekkert rafmagn að finna á mörgum stöðum og því haldast matvæli ekki fersk og ekki er hægt að kaupa ný vegna útgöngubannsins. Fréttir eins og þessi sýna grimmdina.

Fyrir utan það Palestínumenn eru stofufangar á eigin heimilum án aðgengis að mat og öðrum nauðsynjum, þá stendur nú varla uppi skóli á svæðinu. Þar myndu börnin ef til vill fá heitan hádegismat og þess háttar, en það er útilokað mál þessa og næstu mánuði. Nær allar opinberar byggingar í Palestínu eru nú rústir einar.

Því næst fárast höfundur yfir því að einhverjir hér heima séu það barnalegir að halda að við, kotbændurnar á Íslandi, höfum einhver áhrif á gang mála þarna.Ætli svona smásálarhátt sé ekki að finna á þessari síðu alla daga, ekki les ég þetta reglulega en rak augun í þetta í gær og finnst lítið til höfundar koma.

Við erum lítil þjóð og eigum því ekkert að vera að ybba okkur, er greinilega skoðun höfundar. Man hann ekki eftir því þegar að Ísland varð fyrst ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna, og að eftir það flykktust önnur ríki til þess að viðurkenna það líka. Algengt mynstur í hópum fólks er að enginn vilji taka á sig ábyrgð þegar að eitthvað ber að höndum, allir bíða eftir að einhver annar geri eitthvað, en um leið og einhver einn byrjar, fara oft aðrir af stað. Einhver þarf að taka frumkvæðið, og þá skiptir ekki máli hvort að það er dvergur eða risi.

Comments are closed.