HM er byrjað! Sambúð opinber!

Dagurinn byrjaði á því að ég skutlaði Sigurrós í vinnuna, og fór svo og keypti snakk og gos í 10-11. Svo var haldið heim í Betraból og kveikt á Sýn, því að HM er byrjað! Opnunarathöfnin var bara sæmileg, reyndar fór um mig kaldur hrollur þegar að rottan í mannsmynd (Sepp Blatter) fór með arfaslakt erindi á enn verri ensku. Zen-Ruffinen hefur samþykkt að hætta og þeir sem lögðu fram kæru á hendur Blatter hafa dregið hana til baka, þetta er eins og úr Guðföðurnum, nema að Blatter er rotta, ekki einu sinni mafíósi. Sveittan.

Þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður leit svo Valur (nú 2 drengja faðir) við í sína fyrstu heimsókn í Betraból. Horfðum á leikinn saman og fengum pizzu í hálfleik (tímasetning pöntunar hjá mér var óaðfinnanleg). Snakk, gos og pizza verða þó ekki á dagskrá daglega næstu tvær vikurnar, þetta var bara svona mín opnunarhátíð.

Frakkland 0-1 Senegal
Andlausir Frakkar, baráttuglaðir og sprækir Senegalar. Fínn 1-0 sigur og mjög verðskuldaður.

Eftir að sjá Frakka tapa þessu verðskuldað (í gærkvöldi varð ég reyndar vitlaus, og ákvað að skipta út Burgos fyrir Barthez í draumaliðinu… smá mistök…) hélt ég af stað í mikinn leiðangur. Fyrst var farið til Terra Nova Sól til að láta Sigurrós skrifa undir “Staðfesting á sambúð” pappírinn, því næst fór ég á Hagstofuna þar sem ég skilaði staðfestingunni inn ásamt flutningstilkynningu. Við erum núna ekki bara trúlofuð heldur í opinberri sambúð. Þetta mjakast allt, gifting eftir ár líklega, og krakki eftir 2-3.

Svo fór ég í Nóatún og keypti í matinn fyrir kvöldið og morgundaginn. Öllu skilað í Betraból áður en lengra var haldið. IKEA var næst á dagskrá þar sem að mataráhöld, panna og leslampar voru keyptir. Þaðan fór ég á Kambsveginn þar sem að bíllinn var fylltur af eigum okkar, svo og svo og svo á Flókagötu þar sem ég trillaði öllu upp stigana.

Skaust svo í vinnuna og náði í kryddhilluna mína sem að hefur átt samastað þar undanfarið ár, setti í staðinn gamla trjámynd af indjána sem að ég gef mér að sé Apache indjáni (en Apache er einmitt besti vefþjónninn). Það er alltaf svo heimilislegt í horninu mínu.

Náði í Sigurrós, fórum á Kambsveginn og nýttum okkur sturtuaðstöðuna þar, sturtan okkar er ekki tilbúin ennþá. Héldum svo heim og Sigurrós tók til við eldamennskuna, á meðan að ég skaust í 11-11 (þriðja matvöruverslun dagsins).

Kvöldmaturinn var hátíðarmatur í tilefni af opinberun sambúðarinnar, piparsteik, bakaðar kartöflur og Piat Beaujoulais rauðvín. Nú erum við að fara að horfa á tvöfalt grínkvöld af Skjá einum sem var tekið upp fyrir okkur. Skjár einn næst nefnilega mjög illa hjá okkur, þetta þarf að laga, líklega eina vonin að fá breiðvarpið inn í húsið.

Fjörið heldur áfram!

Áhugavert:

  • FIFA boots out Linux and Mac users
  • Comments are closed.