Bók(a)færsla

Ég hef verið iðnari við bókalestur síðustu vikur en síðustu mánuði þar á undan. Skuggalegt hvað bókalesturinn hefur setið á hakanum eftir að maður fór að vinna.

Tók 6 kiljur með mér í brúðkaupsferðina til Frakklands, enda var nokkuð mikið um ferðalög þar og biðir, bæði á flugvöllum og lestarstöðvum. Ég byrjaði á smásagnasafninu My Favorite Fantasy Story. Fínasta lesning.
Því næst var komið að bókum úr SF Masterworks seríunni, báðar eftir Ursulu Le Guin, annars vegar var það The Dispossessed, sem var þokkaleg, og svo The Lathe of Heaven sem var mun áhugaverðari.

Í Frakklandi vorum við voðalega dugleg og því lítill tími til lestrar nema á ferðalögum, síðasta daginn byrjaði ég þó á bók Larry Niven, Ringworld. Þegar heim var komið voru það svo Ringworld Engineers og Ringworld Throne. Örlítið lengi í gang en fínasta lesning. Sé að það er komið framhald, Ringworld’s Children sem er víst bara til í Borgarbókasafninu. Verð að tékka á því, allt hitt lesefnið fékk ég á Bókasafni Kópavogs, sem við höfum verið að gefa bækur síðustu mánuði og eigum eftir að gera meira af held ég bara, þeir eru með meira hillupláss en Betraból hefur yfir að ráða.

Nú svo las ég núna á laugardaginn, milli þess sem ég bar mig báglega, Harry Potter og múlattaprinsinn. Sem fyrr, fínasta dægradvöl.

En þá er ekki allt upptalið! O nei nei, ég er nefnilega sokkinn í Project Gutenberg og Distributed Proofreaders og las yfir Biltmore Oswald: The Diary of a Hapless Recruit og svo í dag History of King Alfred of England og gerði athugasemdir ef þurfti (stafsetningarvillur, ásláttarvillur eða annað). Tengi svo á bækurnar þegar þær birtast opinberlega á Project Gutenberg.

Að auki kláraði ég að útbúa ljóðabók á frönsku (þýdd úr rúmensku) og fékk aðra til að lesa hana yfir. Hún mun að sjálfsögðu líka fá tengil þegar að hún birtist opinberlega.

Næst á dagskrá er að klára tvær aðrar ljóðabækur samhliða því sem ég hoppa aftur yfir í forritun fyrir heimilisfólk og fótboltann.

Ekki skil ég fólk sem lætur sér leiðast og finnur aldrei neitt til að dunda sér við.

Comments are closed.