Sovét-Björn Bjarnason og enn ein glorían

Eins og flestir vita þá var Úkraínumanni með íslenska fjölskyldu vísað úr landi á grundvelli nýlegrar lagabreytingar á lögum 96 frá 2002 þar sem 24 ára aldurstakmarki var bætt við ásamt fleiri klausum.

13. gr. Dvalarleyfi fyrir aðstandendur.
Nánustu aðstandendur íslensks ríkisborgara eða annars norræns ríkisborgara sem búsettur er hér á landi eða útlendings sem dvelst eða fær að dveljast löglega í landinu samkvæmt dvalarleyfi sem ekki er háð takmörkunum eða búsetuleyfi geta samkvæmt umsókn fengið dvalarleyfi, enda liggi ekki fyrir atvik sem greinir í c-lið 1. mgr. 11. gr. auk þess sem framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði skal vera tryggt, sbr. a-lið 1. mgr. 11. gr.
[Nánustu aðstandendur í skilningi 1. mgr. eru maki, sambúðarmaki og samvistarmaki eldri en 24 ára, niðjar yngri en 18 ára og á framfæri viðkomandi og ættmenni hans eða maka að feðgatali eldri en 66 ára og á þeirra framfæri.]
[Nú er rökstuddur grunur um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis, og ekki er sýnt fram á annað með óyggjandi hætti, og veitir hann þá ekki rétt til dvalarleyfis. Sama gildir ef rökstuddur grunur er um að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar með vilja beggja hjóna.]
Dvalarleyfi aðstandanda útlendings skal að jafnaði gefið út til sama tíma og leyfi þess síðarnefnda, þó þannig að það gildi ekki lengur en leyfi hans.

Hérna höfum við sumsé lög sem snúa við almennri réttarreglu og krefjast þess að aðili SANNI SÝKNU sína í stað þess að það þurfi að SANNA SEKT hans. Ég get því eiginlega gengið að næsta útlendingi hér á landi og sagt að ég trúi ekki að hann hafi gifst íslenskum maka sökum ástar eða annarra “lögmætra” ástæðna og þarf hann þá að sanna það fyrir yfirvöldum að hann elski maka sinn!

Að auki er að finna í lögunum (sem eru að stórum hluta til afrit af dönskum lögum sem flokkur útlendingahatara kom í gegn) aldurstakmarkið 24 ár, sem virðist vera eina haldreipið sem stjórnvöld geta gripið í varðandi brottvísunina.

24 árin virðast vera gripin úr lausu lofti og eru ekki í samræmi við aðrar aldurstakmarkanir, þær einu sem ég man eftir eru 18 ár vegna fjárræðis og kosningaréttar, 20 ár vegna áfengiskaupa og 35 ár vegna forsetaframboðs (hvað er dæmið með það annars?). Hérna er því tala af handahófi valin og sett í lög.

Sovét-Björn hefur látið í veðri vaka að grunur leiki á aðild mannsins að hegningarlagabroti, en aftur þá er EKKI BÚIÐ AÐ SANNA SEKT HANS sem þó skal gera samkvæmt lögum.

Hvaða þingmenn standa svo á bakvið þessi afstyrmislög sem eru okkur til skammar? Þið getið séð listann yfir þá hér. Þetta verður þeim til háðungar það sem eftir er, rétt eins og fleiri embættisafrek þeirra.

Sovét-Björn Bjarnason hefur hlotið forskeytið Sovét- héðan í frá, ekki eingöngu vegna gífurlegs áhuga hans á að hamra sífellt á grimmd þess ríkis sem er löngu liðið undir lok og baráttu hans við að tengja það öllum sínum pólitísku andstæðingum. Ó nei.

Hann hefur nefnilega fyllilega unnið fyrir því með því jafnframt að taka upp svipaða stjórnarhætti og þar voru stundaðir, nú ganga um götur landsins sérsveit sem athugar hvort að fólk hafi gifst vegna réttra ástæðna. Sovét-Björn iðar í skinninu að koma upp hér leyniþjónustu og barátta hans fyrir íslenskum her er landsþekkt.

Sovét-Björn segir að Íslendingar séu að láta eins og vanvitar, heimurinn sé orðinn svo hættulegur að leyniþjónustan, herinn og allt hitt sé orðið bráðnauðsynlegt. Hérna dregur hann fram útspil sem nefnist “hræðslukortið” og er aðalmálið í Ameríku nú í dag.

Á grundvelli hræðslu við örlítinn hóp hryðjuverkamanna vilja Sovét-Björn og Sovét-Bush og allir þeirra vinir minnka mannréttindi okkar allra, minnka öryggiskennd og gera okkur auðsveip yfirvöldum sem vilja ekki einu sinni birta skýrslur yfir verk sín frammi fyrir réttum aðilum, okkur.

Að kjörnir fulltrúar komist upp með að fela skýrslur um embættisverk sín og rannsóknir á þeim er enn einn toppurinn á skítahaugnum sem þessir menn eru í óðaönn að stækka.

Ég hef akkúrat engan áhuga á að verða fórnarlamb hans og vona svo sannarlega að fleiri Íslendingar fari að pæla í því hvers konar ribbaldar sitja að völdum.

Comments are closed.