Útskrifaður

Já, formlega útskrifaður í dag loksins.

Myndatakan fór fram í roki og rigningarúða fyrir utan skólann og talsvert um að stúlkur hafi farið halloka í baráttunni við veðrið og tapað dýrum hárgreiðslum fyrir athöfnina.

Athöfnin var mjög bærileg, ávörpin ekki mjög mörg og ekkert ofsa löng (flest). Skil reyndar ekki af hverju það þarf að vera svona svakaleg lýsing á okkur sem sátum á sviðinu, það hefði alveg mátt skipta niður í 20 watta (eða hvaða stærðir þeir nota þarna í leikhúsinu) eða álíka til að aðeins lýsa okkur upp, þurfti nú ekki að vera alveg svona sterkt. Lifði hitann af sem betur fer.

Því næst var kaffi heima með nánustu ættingjum. Ég beitti valdi mínu sem maður dagsins og hafði kveikt á sjónvarpinu svo maður sæi fótboltann. Portúgalirnir sýndu að það vantar smá element í þá sem að Þjóðverjar hafa, að klára leiki og að spýta í lófana þegar á móti blæs.

Þeir eru tæpir núna á að komast upp úr riðlinum. Úrslitin komu öllum sem spila í EM 2004 leiknum á óvart, fólk fékk í mesta lagi eitt stig fyrir að hafa aðra markatöluna rétta.

Í kvöld fórum við svo til Steinunnar þar sem hún og Arnar héldu saman útskriftarpartý. Áhugaverður hópur sem þarna var og samræður komu ekki nálægt skólamálum. Vorum þarna til rúmlega tvö í nótt þegar við héldum heim nokkuð lúin.

Góður dagur þrátt fyrir veður.

Comments are closed.