Monthly Archives: August 2004

Uncategorized

Grillað og grillað, lesið og horft

Í gærkveldi duttum við inn í grill hjá mömmu og Tedda. Við þáðum þar fínasta kjöt.

Í gærkveldi kláraði ég svo að lesa The Last Hero, myndskreytt stuttsaga frá snillingnum Terry Pratchett. Verulega eiguleg bók, tókum hana að láni frá bókasafninu. Það er nú all miklu flottara en í gamla daga þegar ég tók vikulega gríðarstóran bókaskammt á gamla staðnum.

Í dag var hitametið í Reykjavík slegið, ég tók ekki mikið eftir því þar sem ég sat í loftkældri og gluggalausri skrifstofunni. Kíkti reyndar út um hádegið og það var eins og gufubað í andyri bókhlöðunnar, enda bara glerferlíki. Feginn að vera ekki að vinna í glerhöllunum í Borgartúni.

Ragna var hjá okkur í kvöldmat, grillað að sjálfsögðu. Borðað úti á svölum (í skugga) í fyrsta sinn.

Í kvöld horfðum við svo á Les Rivières pourpres (Crimson Rivers). Spes mynd, þokkalegasta áhorf bara.

Jæja, 321 Studios farin á hausinn eftir langa og harða baráttu.

St. Charles-based 321 Studios made software that allowed consumers to make backup copies of DVDs and video games. (src)

Það er sumsé bannað nú í Ameríku að gera afrit af sínum eigin diskum. Taka þessa lögfræðinga og framkvæmdastjóra og gelda þá, þessi læsing á efni er komin í algjöra vitleysu. Maður átti nú hægara um vik með myndbandsspólur en með meiri tækni þá er hægt að læsa meira og meira. Sveiattan.

Uncategorized

Brjálaðar beljur

Mikið rétt, ég vísa á teiknimynd um skotóðu beljurnar!

Það er alltaf jafn uggvænlegt þegar fréttastofur vilja fela sannleikann, sjá grein frá Lawrence Lessig sem nefnist Copyrighting the President.

Tíðindi úr boltanum í dag, hetjan Paolo di Canio genginn til liðs við mína menn í Lazio. Þar eru víst aðallega unglingar eftir og þjálfarinn víst ekki mikið eldri. Hátt hefur fallið verið.

Uglurnar unnu svo leik og eru ekki neðstar!

Uncategorized

Grilluð pera

Það er nú synd að vera neikvæður á svona heitviðrisdögum þannig að ég læt bara einn tengil nægja.

Bættum við í grillflóruna okkar í dag, prufað var að grilla peru ásamt hinum hefðbundnu liðum, epli og bananar. Auðvitað kjöt líka.

Sáum stórfínan þátt á RÚV, Animal Olympics.

Uncategorized

Fótbolti, kynlífsklúbbur og látinn ástvinur á fingri

Byrjum á líklega undarlegasta skartgrip sem maður hefur heyrt um, Elín sendi mér tengil á frétt um konu sem lét búa til demantshringa fyrir sig og dætur sínar úr ösku eiginmannsins.

Af fótboltanum er það að frétta að Kanadamenn voru að reyna að setja met í fótbolta og Blatter telur sig vera með hinn eina rétta sannleik.

Nú ekki má gleyma að minnast á kynlífsklúbbinn! Hann er víst ríflega 300 ára gamall og má lesa um hér.

Uncategorized

Skitið á sig

Merkilegt nokk en færsla dagsins er tileinkuð færslu annarar manneskju!

Ég er nefnilega að velta því fyrir mér hversu stolt þessi stúlka hafi verið þegar einhver grey krakki gerði í buxurnar fyrir utan hjá henni.

Ég held ég myndi ekki vísa neinum frá sem þyrfti að nota klósettið nema um væri að ræða verulega vafasaman karakter sem færi líklega beint í lyfjaskápinn.

Í Skotlandi minnir mig að séu enn í gildi lög sem gera það refsivert að vísa fólki frá sem bankar upp á og er í brýnni klósettþörf.

Það er svona, í nútímanum fer sífellt minna fyrir samkennd borgaranna í samfélaginu, einkum meðal þeirra sem telja sig hægrimenn en vilja í raun lögmál frumskógarins

Samfélagið á einmitt að koma í veg fyrir að lögmál frumskógarins sé hið eina rétta, þetta lið er því að segja sig úr því samfélagi sem gerði því kleift að hljóta sína menntun, vinnu og allt umhverfi þeirra.

Sjálfum finnst mér að það eigi bara að flytja þangað sem frumskógarlögmálið er við lýði.

Uncategorized

Háð og skop

Frá höfundum South Park er á leiðinni Team America sem er leikbrúðuháð, lauslega byggt á Thunderbirds þáttunum og firringu yfirvalda.

Sjálfvirk þýðingartól eru stórhættuleg, og Multibabel sýnir fram á það með einfaldri tilraun. Sláðu bara inn smá texta á ensku og sjáðu hvernig hann þýðist yfir á nokkur tungumál og aftur ensku á milli. Lokaútgáfan virðist aldrei vera læsileg, hvað þá skiljanleg.

Uncategorized

Rotaður

Sofnaði í gærkveldi rétt rúmlega 9. Nýtt met á árinu held ég.

Uppáhalds knattspyrnumennirnir mínir keppast nú við að hætta með landsliðum sínum, Pavel Nedved, Paul Scholes, Bixente Lizarazu og Lilian Thuram. Held að Tékkar fari verst út úr þessu, Nedved er það frábær enn.

Uncategorized

Fiskar sem má og má ekki borða

Jahá! Það er vefur á netinu sem tilgreinir hvaða fisktegundir við ættum að forðast að kaupa vegna útrýmingarhættu, og hvaða fisktegundir er í lagi að kaupa.

Ég fór einmitt í Nóatún í dag til að versla í matinn en tilbúnu fiskréttirnir reyndust frekar óspennandi, glætan að ég setji pening í eitthvað sem heitir hvítlauks- eitthvað.

Uncategorized

Barkley snýr aftur!

Nei ekki í NBA.

Karlinn hefur verið minn uppáhaldskarakter í körfuboltanum í rúman áratug núna. Ég grét með honum þegar Phoenix Suns töpuðu á lokasekúndunum í einvíginu við Chicago Bulls forðum daga. Skemmtilegasta úrslitakeppni sem ég hef nokkru sinni séð, ef horft er fram hjá lokakörfunni.

Ég átti bol með honum sem var orðinn nokkuð við aldur og komin smá göt hér og þar og farinn að trosna. Því stóð til að henda honum en ég maldaði í móinn og náði að koma í veg fyrir það.

Sigurrós fann lausn á þessu, tók mynd af bolnum, hreinsaði til í tölvunni og fór svo með og lét prenta myndina af karlinum á nýjan bol sem beið mín óvænt þegar haldið var til rekkju í kvöld. Snilldarkona. Í staðinn fékk hún loks að henda grey bolnum sem ég hafði tekið ástfóstri við.

Uncategorized

Sextugur!

Theódór varð sextugur í dag og bauð af því tilefni til veislu heima.

Um 40 manns var boðið og mættu. Maturinn var fínn og félagsskapurinn góður. Held að karlinn hafi átt góða stund.