Monthly Archives: July 2004

Uncategorized

Gleymda taskan

Dagurinn í dag var fínn. Við tókum því rólega í svona rétt þokkalegu veðri hérna í bænum, stelpurnar kíktu í Smáralind og við pöntuðum okkur pizzu í brunch.

Eftir að pakkað var ofan í töskur var stefnan sett á Selfoss, með viðkomu í Hveragerði, þar sem tengdó var með flotta fiskisúpu ofan í mannskapinn. Á eftir fylgdi svo dýrindis terta sem vakti sérstaklega mikla lukku hjá Jolöndu.

Leiðin lá nú í Sælukot, við komu uppgötvaðist að taskan mín hafði gleymst og því settumst við Jeroen aftur í bílinn og héldum af stað í bæinn. Tengdó hringdi svo og sagði okkur að fara bara á Selfoss, hún þyrfti í Smárahverfið tli að sækja Odd og gæti skotist svo með töskuna til okkar seinna um kvöldið. Því afhentum við henni lyklavöldin á Selfossi og héldum svo aftur í Sælukot.

Þar settumst við og spiluðum eða lásum í dágóðan tíma. Ragna kom svo með Odd með sér og töskuna góðu og var það afskaplega vel þegið enda öll fötin mín og svo eitt leyndarmál í henni.

Uncategorized

Rigning í Reykjavík

Blautur dagur í dag, rigningardegi var varið í Laugardalslauginni og svo heima við áður en farið var út að borða á Rossopomodoro í tilefni af tvöföldu 25 ára afmæli Sigurrósar og Stefu.

Þaðan héldum við á Gauk á Stöng en þangað höfðu þær stefnt fjölda fólks. Mæting var góð, sérstaklega miðað við árstíma, við sem eigum afmæli á sumrin fáum alltaf frekar slaka mætingu vegna sumarleyfa og fjarvista.

Stemmningin var fín, við gripum þó nokkur í “pool” (ekki er það billjarður… aðrar reglur í því? er það ekki?) og fólk úr mismunandi vinahópum náði að halda uppi samræðum.

Írafár lét svo loks sjá sig rúmlega hálf-tvö, ef þau hefðu verið 100 desíbelum lægri hefði ég kannski enst á dansgólfinu hjá þeim.

Uncategorized

Vellirnir

Dagskráin í dag var þéttskipuð eins og venjulega.

Þingvellir og Nesjavellir tóku á móti okkur í geggjaðri sól og blíðu. Þingvellir fengu mörg útlendingastig, höfðu aldrei séð neitt álíka þessu, fannst kyrrðin og fegurðin alveg svakaleg.

Fylgdum hitaveitustokknum eftir á leiðinni í bæinn.

Grilluðum og svo var tekinn landsleikur í Catan sem ég vann fyrir hönd Íslands og staðan því 1-0 Íslandi í vil.

Uncategorized

Flókagötu skilað

Viðburðaríkur dagur, smá ferð í Mosfellsbæinn vegna smá misskilnings, svo voru það Miðhús, Grafarvogskirkja, Kambsvegur, Ásmundarsafn þar sem við fengum að heyra Ragnheiði Gröndal syngja nokkur lög (upphitun fyrir brúðkaupsveislu þar næstu helgi), Subway, hvalaskoðun, Flókagötuþrif og kínverskur kvöldmatur.

Eftir það skaust ég í klippingu og svo fórum við Sigurrós og afhentum nýja eigandanum lyklana að Flókagötu.

Við höldum því aðeins eitt heimili þessa dagana sem er mikill léttir.

Uncategorized

Loksins!

Þá getur maður loksins tengt sig við netið úr Arnarsmáranum. Það tók viku að flytja síma og ADSL á milli, þeir sem þekkja okkur vita að dagur án netsins er erfiður fyrir okkur, hvað þá vika.

Morguninn hjá mér fór í netreddingar á meðan að Sigurrós fór með J&J í Árbæjarlaug, þar sáu þau sér til mikillar furðu að allir voru naktir og þau fengu ekki saman sinn eigin klefa, eins og tíðkast víst í Hollandi.

Eftir hádegið fengu þau svo smá hraðferð um Þjóðarbókhlöðuna, við kynntum þau fyrir Hlöllabátum (sem við höfum sjálf ekkert stundað), kíktum aðeins í kringum okkur í bænum, skoðuðum Íslandskortið í Ráðhúsinu, kíktum í Smáralind og fórum í smá söguferð um æskustöðvar mínar í Kópavoginum, skutumst á Bessastaði og skoðuðum okkur þar um og margt fleira.

Uncategorized

Dagur 2 sem “tour guide”

Í gær fórum við með þau um Reykjavík, fórum upp í Hallgrímskirkjuturn, túruðum um og keyptum svo kjöt og grilluðum. Þeim fannst auðvitað ofsalega spes að vera að fara að sofa í glampandi sól að verða tólf að miðnætti.

Í dag var það svo Árbæjarsafnið og svo Hveragerði, Þrastarlundur og Kerið, Stokkseyri, Eyrarbakki og svo Selfoss. Þar grilluðu Ragna og Haukur ýmiss konar góðgæti og við sátum fram eftir kvöldi að spjalli ásamt Guðbjörgu og Magnúsi.

Bráðfínt fólk þau Jeroen og Jolanda!

Uncategorized

Hollendingarnir koma

Eftir stutta vinnutörn í morgun var förinni heitið til Keflavíkur þar sem við pikkuðum upp þau Jeroen og Jolöndu, vini Sigurrósar.

Ætlunin er að sýna þeim sem mest af fallegri náttúru, undarlegheitum Íslendinga og skemmta þeim sem best næstu tvær vikur.

Uncategorized

Endasleppt

Já, það fór svo að skotgrafahernaðurinn varð sigurvegari á EM 2004.

Ekki veit ég hvað Scolari var að pæla með því að leyfa Grikkjum að slást bara við einn sóknarmann og hafa Deco svo hlaupandi um með vondar sendingar, tapandi boltum og sífellt á rassinum. En hann kom þeim í úrslitin þannig að ekki get ég sagt voðalega margt.

Öskubuskuævintýrið varð því að veruleika en heldur finnst mér hún vera ófríð og leiðinleg (knattspyrnan þeirra), Grikkir spila upp á 1-0 sigur og það tókst.

Nú vona ég innilega að ég verði ekki sannspár, en ég óttast það samt.

Uncategorized

Lokasprettur

Það er naumast að við eigum af dóti… slappaði þó af í kvöld eftir að hafa vígt sturtuna í Arnarsmára.

Kláraði að lesa Days Without Number eftir Robert Goddard. Ótrúlega snúin flétta, vel skrifað, skemmtileg sagnfræði, kannaðist við nafnið Zeno sem kom fram varðandi forn kort sem var skondin tilviljun.

Uncategorized

Flutningar!

Ekkert slegið af, flutningar standa enn yfir, mætti þó til vinnu í dag á meðan að hreingerningarsveitin fór yfir Flókagötuna.