Vá. Með hellu í eyrunum og enn með vínanda í blóði.
Djammið var magnað, eftir smá upphitun hjá Gunnu mættum við í Smárann sem var búið að gjörbreyta. Teppalagður veislusalur og parket á dansgólfi, allt umvafið miklum bláum tjöldum þannig að ekki sást í rimlana, mörkin og körfuboltaspjöldin. Sviðið var stórt og flott og sitt hvorum megin við það voru risaskjáir þar sem myndbönd voru leikin þegar við átti.
SImmi og Jói voru kynnar og voru alveg þokkalegir, einstaka brandarar voru fínir og einstaka pínlegir. Pínlegheitin komu þegar verið var að veita Knútinn (nokkurs konar Óskarsverðlaun) og nemendur komu upp að kynna. Ég efast ekki um að sketcharnir sem þeir voru með áður en þeir komu sér að sjálfum verðlaununum hafi litið ágætlega út á pappír en framkvæmdin varð ekki alveg nógu góð.
Bongó-trommur og fimleikastelpa sem og 2 sett af eróbikk dömum voru svo meðal skemmtiatriða, mjög flott atriðin.
Páll Óskar plötusnúðaðist, Kalli Bjarna tók nokkur lög og svo voru Í svörtum fötum á fullu. Ég dansaði umtalsvert en um 2-leytið var ég gjörsamlega búinn, bæði þolið lélegt og svo lappirnar líka, var ekki með innlegin sem hefðu kannski getað lengt danstímann. Á dansgólfinu mátti meðal annars sjá Ágúst sem ég heilsaði, hann þekkir mig víst sem JBJ (grunað að það sé alfarið Unni að kenna sem kallar mig víst aldrei neitt annað).
Það var mjög sáttur maður sem hringdi í konuna sína og var sóttur um hálf-þrjúleytið.
Sofnaði rúmlega þrjú en var kominn á lappir aftur klukkan sjö! Vaknaði rétt fyrir sjö og fékk mér vatnssopa en bara var ekki í stuði til að sofna þannig að ég vakti til hálf-eitt, fór meðal annars labbandi út í bakarí og keypti þar brauðmeti og Trópí Tríó og kom svo heim og vakti konuna.
Hálf-eitt var ég svo orðinn verulega þreyttur og lagði mig í fjóra tíma.
Eftir þurrð undanfarinna vikna er ég loksins farinn að skrifa þokkalegar færslur aftur, get ekki lofað því að það endist lengi þar sem lokatörnin er nú í skólanum, líkur á stuttum og lélegum færslum aukast umtalsvert við það.
Til að hafa þetta ekki lengra ætla ég að sleppa því að fjalla ítarlegar um eftirfarandi tengla sem eru vel þess virði að skoða.
P.S. Gleymdi alveg að minnast á það að ég fékk í gær frá Amazon.de diskana með Max Raabe og Palaster Orchester. Argandi snilld þar sem þeir taka lög eins og Sexbomb, Super Trooper og fleiri og setja í svona millistríðsárabúning (30’s). Búið að vera á repeat síðan ég vaknaði. Áhugasamir geta heyrt 12 mínútna brot hér.