Monthly Archives: November 2003

Uncategorized

Góðir dagar með Rauðhatti

Já, þá er ég bara ekkert búinn að keyra upp Windows á vélinni minni í allan dag!

Ég nota iðulega Mozilla fyrir vefráp og tölvupóst og það er að sjálfsögðu til á Linux. Ég hef verið að nota OpenOffice (nota reyndar svona skrifstofubúnað nánast ekki neitt) og það er auðvitað líka til á Linux.

Svo sótti ég mér stuðning fyrir NTFS-skráakerfi og mp3-hljóðskrár og get því skoðað innihaldið á Windows-drifunum og spilað alla tónlistina sem ég á tölvutæka, sakna reyndar iTunes aðeins!

Er svo í sambandi við alla sem eru á MSN í gegnum Psi spjallforritið sem er með Messenger stuðningi meðal annars.

Þetta er líklega 3ja tilraun mín til að nota Linux sem vinnuumhverfi og í hvert sinn kemst ég lengra en áður. Slatti af forritum sem ég á og nota á Windows reyndar þannig að maður er ekki alveg sloppinn en þetta er samt verulega sætt.

Uncategorized

Forritað í emacs

Sko til, þá er maður að gera verkefni í emacs í XWindows-gluggaumhverfi á Linux.

Oft reynt að gera Linux að aðalstýrikerfinu en það er alltaf í öðru sæti sem vinnuumhverfi, vef- og póstþjónarnir mínir hafa hins vegar keyrt Linux í fjölda ára.

Uncategorized

Jessica Lynch

Loks er maður kominn í málstofur í háskólanáminu þar sem gert er meira af því að finna heimildir og lesa þær en að kjagast í gegnum sama textann ár eftir ár. Þessi hluti annarinnar hefur verið ánægjulegur. Bóklegu fögin eru “same old”, eitthvað sem þarf að klára.

Við gagnaöflun rekst maður oft á ritgerðir sem eru á .ps formi (PostScript). Þá er nú flott fyrir okkur sem erum aðallega á Windows að fá ókeypis skoðara eins og ROPS til að geta lesið þær. Stóri bróðir þess er svo GhostScript en ég hef aðrar hugmyndir fyrir það… tengdar lógóum.

FCM Bacau var um tíma undir verndarvæng WFO þar sem við vorum að reyna að koma þeim í gang á netinu. Þeir eru nú í fréttunum fyrir að hafa verið orðnir of fáir inn á vellinum til að geta lokið leiknum af. 3 reknir út af, 2 meiddir, 6 manns gegn 11 er mjög tæpt og reyndar ólöglegt samkvæmt knattspyrnulögunum.

Jessica Lynch greyið reynir að gera sem minnst úr því sem kom fyrir hana í Írak. Pentagon hins vegar sá þarna alveg brilljant tækifæri til að koma með áróður og gerði hana að hetju og nú er búið að búa til sjónvarpsmynd um hana sem er víst slatti langt frá sannleikanum en alveg samkvæmt því sem Pentagon laug um hana.

Held ég skrifi bara Dabba og Dóra og spyrji þá hvaða sannanir Pentagon hafi sýnt þeim til að tryggja stuðning okkar, það er greinilega engu trúandi að vestan síðan að Rumsfeld dúkkaði aftur upp.

Jú sko, búinn að senda þeim afar kurteist bréf þess efnis. Áhugavert að vita hvort þeir lesi sjálfir póstinn sinn?

Uncategorized

Kjarakaup, dugnaður og bland í poka

Ha! Sko, 2600 krónur færðu okkur 72 mjúkar klósettrúllur, rúllan á 36 krónur. Nemendur Háteigsskóla fara sér vonandi ekki að voða erlendis með þetta fé.

Núna eru dugnaðardagar í gangi, gengið í þau verkefni sem eftir eru og reynt að klára vel fyrir dauðlínur (hmmm… deadline bókstafsþýðist greinilega illa).

Bush toppar sig alveg, gagnrýnir Íran (sem er með meiri lýðræðisríkjum 3ja heimsins þó þeir séu ekki barnanna bestir) fyrir að vera ekki með lýðræði á meðan að Sádar eru góðir gæjar (vandfundnara meira einræðisríki),
Simpson-þættirnir hafa gefið ýmsum mönnum hugmyndir, einn hefur búið til tómbakk (tómatur + tóbak) plöntu og svo er annar sem gerði tilraunir með bjór og Skittles.

Stærsti ísjakinn hefur nú klofnað í tvennt. Hann drap víst 75% allra mörgæsa í einhverri nýlendu þeirra með því að loka á aðgang þeirra að sjó hér um árið.

Uncategorized

Guli miðinn

Hmmmm…. ekki verri staður en hver annar til að minna mig á að hafa handbært fé á morgun fyrir söfnun.

Uncategorized

Geisp

Úff.. búið að vera nokkuð slitrótt undanfarna 40 tíma eða svo, náði að leggja mig í klukkutíma í morgun, svo var hamast við að ná að skila klukkan 11 og það náðist. Í gærkveldi skilaði ég 10%, í morgun 20% og þá er þetta námskeið búið að mestu. Bara eftir að fá að vita hvernig gekk (er þegar komin með 10 fyrir 20% verkefni).

Hrafnkell var mikil hjálparhella undir lokin og líklega einn sá færasti hér á landi til að lesa yfir þessi fræði.

Lagði mig svo eftir skilin og svo var það vinnan. Held ég skríði snemma upp í rúm, það eru 60% eftir í verkefnum í öðru fagi!

Ekki veit ég hvort að eldhnötturinn okkar leit út eins og þessi. Við vorum lengra í burtu.

Uncategorized

Blestyashchiye

Enn hefur enginn séð aumur á okkur og útskýrt með fullri vissu hvað þetta var í gær. Hrafnkell sá þetta líka. Mig grunar lofstein eða geimbrak en Hrafnkell sagði að þetta hefðu verið tveir hlutir sem voru stopp í loftinu? Ég er nú ekkert að fara að elta einhver geimskip en vildi gjarnan fá staðfestingu á hvað þetta var.

Skýrsluvinna í fullum gangi, skil á morgun. Fingur krosslagðir.

Ég er með smá súpu af tenglum annars, við getum lesið um Ástralina sem virðast á góðri leið með kosningavélar (ólíkt Bandaríkjamönnum sem eru að skíta verulega á sig).

Svo eru það dúkkurnar með “attitjúdið”, þar með talin hommadúkkan Elton.

Einnig má lesa pistil um rússneskt popp, stelpuböndin þar heita hinum þjálu nöfnum Blestyashchiye (Birta?) og Slivki (Rjómi) og allir poppararnir virðast vita vonlausir. Samt halda Rússarnir tryggð við þá. Sel ekki álitið dýrara en ég afritaði það en það er víst að til er nóg af vita vonlausri popptónlist.

Aðdáendur Guðjóns Þórðarsonar geta svo hlýtt á hann ræða málin eftir hvern leik Barnsley, hér talar hann um síðasta leik.

P.S. Aldurinn er að ná mér, textastærð hefur verið stækkuð á síðunni.

Uncategorized

Eldstrókur á himni?

Hmmm.. Sigurrós tók eftir undarlegum hlut sem flaug yfir Reykjavík þar sem við sátum við matborðið. Þetta sýnist nú ekki stórt á þessari mynd en þetta virtist fjarska langt í burtu og talsverður eldhali. Ég veit ekki hvort þetta var lofsteinn eða flugferlíki með langan eldhala eða geimdrasl að koma til jarðar. Veit einhver þetta? Fór nokkuð hratt yfir í beinni línu.

Stóra verkefnið komið í gang, “proof of concept” vél keyrir og þá er það bara að snurfusa skýrsluna. Ég verð alltaf jafn barnslega glaður þegar að svona hlutir ganga upp.

Nú utan úr hinum stóra heimi er svo auðvitað áhugavert að lesa játningu George W. Bush:

“I think the American people are patient during an election year, because they tend to be able to differentiate between, you know, politics and reality.” (src)

Sko… meira að segja Bush er farinn að viðurkenna að pólitík og raunveruleikinn eiga ekkert skylt saman. Það frýs þó í helvíti áður en íslenskir pólitíkusar játa það.

Þjálfari íraska landsliðsins í knattspyrnu vandar svo ekki bandaríska hernámsliðinu kveðjurnar enda fótboltavellir nú orðnir að bílastæðum skriðdreka. Fótbolti sem vinsælasta íþróttagrein heims (í áhorfendum talið amk, held að iðkendur í einhverjum öðrum greinum séu fjölmennari) hefur nefnilega alveg ótrúleg áhrif og getur verið uppbyggjandi. Annars er það svo að Morgunblaðið kallar nú hernámsliðið í Írak “setulið”. Ætli þeir viti meira en við? Talandi um það, Davíð og Halldór hafa ekkert þurft að svara fyrir hvaða óyggjandi sannanir þeir sáu sem leiddu til þess að Ísland gerðist aðili að stríði í fyrsta sinn.

Frá Súdan kemur svo óhugguleg frétt, 11 manns hafa látist af völdum engisprettna… nánar tiltekið lyktarinnar af milljónum þeirra. Þær fara víst svona illa með astma-sjúklingana. Ég með minn lélega háls er guðslifandi feginn að vera ekki á staðnum.

Uncategorized

Að finna upp hjólið

Þegar ég var að útskýra fyrir Sigurrós hvað verkefnið okkar Birnu í Sérhæfðum gagnasafnskerfum gengi út á og að enginn virtist hafa gert svipað sagði hún að við værum að finna upp hjólið.

Það er að miklu leyti rétt hjá henni, verst að HÍ segir að HR sé ekki rannsóknaháskóli þannig að þetta telst víst ekki með? Það eða HÍ hefur ekki hugmynd um hvað er í gangi í HR.

Uncategorized

Hrekkjavaka

í gær fórum við í hrekkjavökupartí til Unnar og Bjarna. Sigurrós fór sem óþekk álfastelpa og ég fór sem andskotinn sjálfur. Reyndar datt mér líka í hug að fara sem sagnfræðingur í tilefni af nýfengri gráðu Unnar en átti því miður ekki ljósbrúnar flannelsbuxur, græn-bláa-brúna peysu með v-hálsmáli né pípu. Hárið hefði legið sleikt greitt til hliðar. Þess í stað fór það allt upp í loft í þessari múnderingu.

Það virðist hafa tekist nokkuð vel þó að fáir leikmunir væru notaðir hjá mér. Ég reyndi líka að halda mér aðeins í karakter og hræddi Loru Langsokk með tvíeggja tilvitnun. Ég hef nú fylgst með ævintýrum hennar í Suður-Ameríku og það var gaman að hitta hana, hún hlær líka verulega krúttlega og var afar hamingjusöm.

Við fórum annars snemma heim enda miklir verkefnatímar í gangi hjá mér.

Sáum annars Matrix 2 í gær. Ææææji, jæja sum atriðin voru vel tölvuteiknuð.