Monthly Archives: June 2003

Uncategorized

Sérpöntun

Já… í vinnunni gerði ég sérpöntun á stórum SCSI-diskum og mér til mikillar furðu birtust þeir klukkutíma seinna með DHL. Ótrúlegur hraði.

Áhugaverð tíðindi af tölvuleikjum og ritskoðun vestan um haf.

Uncategorized

Sælukot – Selfoss – Reykjavík (og Mýrin)

Eftir morgunmat var röðin komin að Mýrinni, eftir Arnald Indriðason, í lestrarpakkanum. Fyrsta bókin sem ég les eftir þennan konung íslenskra sakamálasagna og hún reyndist vera fantagóð. Gaf Ian Rankin hvergi eftir né öðrum sakamálahöfundum sem ég hef lesið.

Eftir að hafa kvatt Örn og Regínu gengum við frá eftir okkur og héldum heim á leið með viðkomu á Selfossi þar sem við þáðum veitingar á nýja pallinum hjá tengdó.

Sigurrós segir svo sína ferðasögu í dag. Þetta var hin ágætasta hvíld og gaman að geta lesið almennilega svona af og til.

Uncategorized

Samúel, The Worthing Saga og gestir

Aftur hoppuðum við snemma á fætur, reyndar á nákvæmlega sama tíma og í gær. Líkamsklukkan að virka í sveitinni?

Las Samúel í dag. Tja… hvað skal segja. Enn ein íslensk angistarbókin um firringu geðveiks manns og skot á núverandi skipan samfélagsins. Íslenskar angistarbókmenntir eru ekki í miklu uppáhaldi hjá mér, því miður virðist angist það sem flestir höfundar íslensks skáldskapar hafa fram að færa?

Eftir þessa lesningu var röðin komin að The Worthing Saga eftir Orson Scott Card, þann sama og skrifaði Ender’s Game og það allt. Ender’s Game hreif mig ekki mjög enda víst meira miðuð á unglinga. The Worthing Saga hreif mig ekki ýkja heldur. Það er eitthvað við það þegar menn fórna börnum og fjölskyldum fyrir undarleg markmið eða hugsjónir sem er ekki að finna hljómgrunn hjá mér. Abrahams-complexar.

Örn og Regína litu við í kvöld með nýjasta Trivial Pursuit, jarðarber og fleira góðgæti. Við opnuðum aðra rauðvín og gæddum okkur á góðgætinu okkar og þeirra.

Búið er að stytta Trivial Pursuit umtalsvert eins og kom í ljós í mínu fyrsta kasti. Ég fékk 6 og lenti strax á köku, fékk ofurlétta spurningu og fékk kökuna. Hoppaði svo á milli og át þrjár kökur í viðbót áður en ég klikkaði á spurningu. Ég dauðskammaðist mín fyrir að taka svona fjórar kökur í minni fyrstu umferð, hvað voru Trivial Pursuit menn að hugsa með að stytta svona spilið! Það gekk svo reyndar mun rólegar hjá mér eftir þetta og tók dágóðan tíma að að vinna fullnaðarsigur.

Að þessu loknu var tekið í spil og Kani varð fyrir valinu. Þar endaði Regína sem sigurvegari með okkur Örn hnífjafna í öðru sæti og Sigurrós varð neðst. Við fórum seint í rúmið, klukkan þrjú.

Uncategorized

Vísindi Discworld, Little People og The Eternity Code

Vöknuðum eldsnemma í sveitaloftinu og trítluðum framúr fyrir 9, ekki mjög algengt um helgar.

Eftir lestur um morguninn héldum við á Hellu á Kristján X til að fá okkur hamborgara. Við lentum inn í miðjum hóp miðaldra og eldri franskra túrista sem sátu þar að kaffidrykkju eftir matinn. Kristján X er víst bara heil keðja á Hellu, þeir eru með tvö veitingahús við sömu götuna, annað við þjóðveginn (þar sem við vorum) og hitt lengra inn í þorpinu.

Appelsínið kostaði 250 krónur og það reyndist dýr flaskan sú. 250ml flaska og verðið því á við áfengisflösku. Hamborgarinn reyndist algjör hnullungur, svipaður því sem að sést í öllum þessum auglýsingum en reynist aldrei satt. Hann var svo þykkur að hann var orðinn nokkuð svartleitur að utan en að innan var hann medium rare. Sigurrós leist ekkert voða vel á það en mér fannst hann fínn, þetta er svona testesterón/karla-hamborgari og vel boðlegur sem slíkur.

Aftur fórum við í Sælukot og þangað komu Amma Bagga (Sigurrósar) og Ingi með varadæluna. Við Ingi kíktum á dæluna og hann grunaði lofttappa. Eftir smástund vorum við búnir að leysa málið og dælan dældi nú loksins ísköldu vatninu.

Eftir að hafa boðið þeim upp á kaffi og kvatt þau héldum við áfram með bókalesturinn. Ég kláraði The Science of Discworld sem er verulega fróðleg bók um jörðina séða frá Discworld. Tveir vísindamenn skrifa þar annan hvern kafla (Terry Pratchett skrifar styttri kafla sem gerast í Discworld) þar sem þeir útskýra ýmis fyrirbæri eins og mótun heimsins, jarðar og margt margt fleira. Bókin er fróðleg og góð en nokkuð augljóst að vísindamennirnir eru með ákveðnar skoðanir og verulega á móti öðrum þannig að gagnrýninn huga þarf við lesturinn.

Næsta bók á listanum var Little People eftir Tom Holt. Hún kláraðist rétt eftir kvöldmat (grillað svínakjöt og rauðvín með) og reyndist ein af hans betri bókum í þessum pakka (hann skrifar líka sögulegar skáldsögur sem eru hans langbestu verk).

Síðasta lesning dagsins var þriðja bókin um Artemis Fowl, The Eternity Code. Bókin reyndist fín lesning, fyrsta bókin er síst og svei mér þá ef önnur bókin er bara ekki sú besta.

Uncategorized

Reykjavík – Selfoss – Sælukot

Náði í hjólið mitt í viðgerð í dag, einhver skál sem hélt utan um legurnar var farin að springa og það þurfti víst bara að skipta um hana.

Eftir vinnu skruppum við Sigurrós á bókasafnið í Sólheimum, þar er búið að breyta talsvert skipulaginu en ég fann mér tvær kiljur og Sigurrós sópaði heilli hillu af nýjum kiljum frá nýja uppáhaldshöfundinum í pokann sinn.

Því næst var farið heim þar sem við pökkuðum niður því sem þurfti því að förinni var heitið á Selfoss og þaðan í Sælukot.

Þegar þangað var komið reyndist vatnsdælan vera okkur óþæg og því bárum við vatn frá læknum til að nota. Tengdó og Haukur drifu sig til okkar til að kíkja á dæmið en fundu ekki út úr því, dælan gekk og gekk en dældi ekki.

Uncategorized

Reykjavík – Keflavík – Reykjavík – Selfoss – Reykjavík

Það er urrandi fjör í vinnunni, dagurinn líður svo hratt að maður er rétt nýmættur þegar maður fer heim. Skaust til Keflavíkur í morgun við annan mann og vorum við þar til hádegis, eftir hádegi var það svo aftur á Selfoss. Samferða mér þangað voru vinir mínir í Beastie Boys, gömul safnspóla sem ég bjó til með þeim fyrir um níu árum held ég. Laglaus maðurinn ég söng hástöfum með enda einn í bíl og fáir saklausir í hættu.

Dapurleg tíðindi, stuðningsmenn nýkrýndra Afríkumeistara ráku fánastangir upp í rafmagnslínur og drápust eða stórslöðust. Sigurvíman er ekkert minna hættuleg en aðrar stundum.

Uncategorized

Lífstíðarsvipting

Skrapp í útibúið á Selfossi í dag og kætti þar viðstadda með spánýrri tölvu og TFT-flatskjá sem ég smellti upp hjá þeim í stað eldri (mun mun eldri) vélar.

Á heimleiðinni dúkkaði upp einhver drapplitaður station bíll í rassinum á mér og hélt sig þar sveigjandi til og frá að kíkja allt þangað til að við komum að Kömbunum. Þá fór ég yfir á vinstri akrein þar sem tvöfaldast til að fara framúr hægfara bíl, haldiði ekki að drapplitaði félaginn hafi þá gert sér lítið fyrir og farið framúr mér.. yfir tvöfalda línu í brekku í beygju í Kömbunum! Ég flautaði auðvitað á fávitann og langaði svo innilega til að spýtta sjálfur í og elta heilaskaddaða manninn uppi og taka af honum bíllykla og ökuskírteini. Þetta gerði ég þó ekki enda hefði það getað valdið slysum.

Fyrir svona ótrúlegan fávitagang ættu menn að missa skírteinið til æviloka, ekkert flóknara en það. Þetta er eins og að ganga um með hlaðna byssu niðrí bæ og sveifla henni um, þú getur drepið einhvern á augabragði með svona asnaskap. Svona menn á að svipta á staðnum og þeir eiga ekki að sjást á götum úti nema sem farþegar eða þá á reiðhjóli eða fótgangandi.

Uncategorized

Týnda skrifstofan

Fínn dagur í vinnunni, það fannst skrifstofa þar sem ég mun hafa aðsetur. Fannst í bókstaflegri merkingu, allir höfðu gleymt henni þar sem hún var bak við skáp og kaffivélin þar nálægt þannig að enginn hafði augun hjá sér til að taka eftir skrifstofunni.

Ég var því snöggur að koma mér upp aðstöðu og setti upp nýju flottu vélina sem ég mun nota, hún er með verulega flottum TFT-flatskjá. Já mér finnst tölvur oft verulega flottar, 17″ PowerBook frá Apple er til dæmis geggjuð. Bílaáhugamenn geta skipt þessum nafnorðum út fyrir Porsche og Ferrari Mercedes.

Það er mikið að gerast í heimi karlmennskunnar. David Beckham sem er leikmaður Manchester United (foj) er allra manna duglegastur að innleiða virðingu fyrir mjúka manninum í Bretlandi. Hann fær ótal prik í kladdann frá mér fyrir frammistöðu sína í því efni.

Ofurhjartaknúsarinn Richard Chamberlain hefur loksins viðurkennt það að hann er samkynhneigður, hann er orðinn ern karlinn en það eru margar stúlkurnar á miðjum aldri sem kiknuðu í hnjánum oftar en einu sinni vegna hans á síðustu öld.

Það eru stundum birtir ágætis pistlar á vef fyrirtækisins með ljóta lógóið og bæklaða nafnið, þessi grein um viðbrögð við niðurstöðum rannsóknar á netnotkun barna er til dæmis prýðisgóð og bendir á barlóminn sem hér viðgengst (og ofanritaður iðkar vissulega enda auðveldara að benda á það sem er að).

Að lokum er merkilegt að sjá hægrisinnaða (óháða haha!) vefritið Deigluna lýsa eftir minni samkeppni og meiri samhug á meðal íslenskra fyrirtækja! Deiglupennarnir eru flestir svo sem ágætir greyin, þeir gera sér grein fyrir því að hér var stofnað samfélag, ekki frumskógur eins og öfgamennirnir á tveim eða þrem ónefndum vefritum halda.

Uncategorized

Heillaóskir

Já, heillaóskir til Bjarna og Unnar. Ég hef heyrt því fleygt að ég gangi upp að altarinu á þessum áratug en sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Uncategorized

Rassaspark

Allur að verða hinn kátasti núna, öndun að komast í lag. Fyrsta grill sumarsins í dag, grilltæknin aðeins farin að ryðga en kemst fljótlega í lag.

Í gær gleymdi ég auðvitað að minnast á það að mamma vann sitt fyrsta alvöru golfmót, efst af 60-og eitthvað keppendum.

Í gær gleymdi ég líka að lýsa yfir viðbjóðinum sem eru sólarhringsvaktir unglækna. Hvers konar heiladauðir apakettir komu því á? Ég vil endilega hafa þá sem eru með mitt líf og annara í höndunum ferska og færa um að taka réttar ákvarðanir, ekki örþreytta og útkeyrða. Það þarf að fara með vönd inn í þetta heilbrigðiskerfi og taka til, hellingur af því sem þar er að eru smákóngasamningar sem gera allt hægvirkara og verra en það þyrfti að vera.

Í gær gleymdi ég líka að lýsa yfir “aðdáun” minni á tollyfirvöldum sem leggja háa tolla á rándýr hljóðfæri sem afreksfólk í tónlist þarf að notast við til að geta tekið þeim framförum sem það þarf. Tollverðir eru svo að nappa fólk með þetta, gera hljóðfærin upptæk og sekta að auki greyin sem vilja bara bæta sig.

Þessi grein á Deiglunni er einhver sú tilgerðarlegasta sem ég hef séð. Kaffi er vín hins vinnandi manns… eru þá þeir sem ekki vinna rónar?

Erfitt er að finna góðan samanburðarhóp sem drekkur ekki kaffi. Þeir fáu sem ekki drekka kaffi skera sig úr að mörgu öðru leyti líka

Já ætli ég skeri mig ekki úr að mörgu öðru leyti líka, ég drekk til dæmis ekki heldur bjór! Ég er því alveg svakalegur í samanburðarhóp.

Jamm.. ég er vaknaður og alveg urrandi yfir öllu ruglinu sem er í gangi og nefni þó hvergi ákveðna litla stjórnmálamenn með prik í rassinum og kver fyrir framan sig sem þeir jarma upp úr.