Monthly Archives: January 2003

Uncategorized

Umferðarmálin

Mikið ofboðslega eru margir vondir ökumenn til á Íslandi. Þetta er algjör frumskógur þarna eins og aðalhákarlarnir vita. Þeir keyra um á tveggja tonna, 5 milljóna (og meira) bryndrekum sem stúta öllum fólksbílum sem lenda í vegi fyrir þeim. Bryndrekamennirnir fá auðvitað ekki skrámu á meðan að pöpullinn sem hefur ekki efni á neinu stærra en tindollu missir líf eða limi við viðureignina og skiptir þá ekki máli hver var í rétti.

Okkur var boðið í mat til ömmu í kvöld, pabbi skaffaði matinn en amma sá um matseldina. Úrvalsmatur á ferð. Eins og oftast þá sjáum við Sigurrós nær aldrei fréttir nema þegar að við erum í heimsókn einhver staðar.

Þarna mátti sjá á skjánum þegar verið var að taka skóflustungu að tvöföldun Reykjanesbrautar og mér heyrðist samgönguráðherra fara með örstutta líkræðu, svo ábúðarfullur og hikandi var hann að stauta einhverju bulli út úr sér.

Að sjálfsögðu var Reykjanesbrautinni lokað við þetta tækifæri! Merkilegheitin í brynvarða liðinu að drepa það og ekki minnkaði drambið þegar að bryndrekafylkingin með 10 milljón króna jeppana í broddi fylkingar (þessir 5 milljóna voru líklega aftast… ekki nógu fínir í þessum hópi) keyrði á báðum akreinum einhverja kílómetra svona til að fá fílinginn fyrir því hvernig væri að keyra á tvöfaldri akrein á Reykjanesbrautinni. Engum sögum fór af þeim ökumönnum sem urðu að breyta ferðum sínum sökum drambslátanna né segir hversu margir lögregluþjónar sáu um að stöðva umferð almúgans á meðan á þessu stóð.

Af einhverjum ástæðum þá ergir það mig alltaf ofsalega þegar opinberir starfsmenn (lögregluþjónar) eru settir í störf sem að snúast í rauninni um það að láta suma einstaklinga (bryndrekahersinguna) finnast þeir vera mikilvægari og flottari en þeir eru. “Fína fólkið” fær snittur, umferðinni er haldið í skefjum og “fína fólkið” fær að labba yfir Reykjanesbrautina, keyra á móti umferð þar eða að heilum bæjarhlutum er lokað á meðan að “fína fólkið” fundar eða heldur ræðu. Þetta lið getur bara gert þetta í sínum draumum og fyrir sína peninga heima hjá sér! Ég sé á eftir öllum mínum skattpeningum sem fara í svona prjál og fínerí.

Aftur að ökumannshlutanum, ég hef orðið var við það að ekki allir fylgja mér þegar ég fer úr einu í annað, þó að mér finnist tengslin á milli umræðuefnanna eðlileg þá sjá allir ekki hvað ég hugsa (sem betur fer! :p ). Í kvöld var ég að keyra á Miklubrautinni þegar ég heyrði í sjúkrabíl og sé blikkandi ljós í fjarska fyrir aftan mig. Ég gerði því eins og mér var kennt, færði mig yfir á hægri akrein og hægði ferðina. Bíllinn sem var fyrir framan mig á vinstri akreininni gerir hins vegar ekki slíkt hið sama heldur hægði bara ferðina og sama gilti um marga aðra á vinstri akreininni. Sjúkrabíllinn þurfti því að stunda svig á 100 kílómetra hraða sem er ekki það sniðugasta, einkum í myrkri og rigningu.

Grundvallarreglan er þessi þegar að bílar með forgangsljós eru fyrir aftan þig:

  • ef að þú ert á tvöfaldri braut þá ferðu á hægri akreinina, ef þú ert á hægri akreininni þá gefurðu þeim sem eru á vinstri akrein tækifæri til þess að komast á þá hægri
  • ef þú ert á einfaldri braut þá ferðu út í hægri kant og stoppar á meðan að forgangsbíllinn fer hjá
  • Íslendingum er annars ekki tamt að gefa neina sénsa í umferðinni, þeir halda fast í frumskógarlögmálið eins og sést á fylgi Sjálfstæðisflokksins, míns fyrrum stjórnmálavettvangs.

    Spurning hvort maður leggi í enn eitt verkefnið, henda upp smá Flash-vef sem sýnir Íslendingum hvernig siðaðar þjóðir hegða sér í umferðinni.

    Að þessum útblástri afloknum þá get ég minnst á það að ég hef verið afskaplega duglegur við lærdóminn í dag. Mikill lúxus að hafa skrifstofu sem er eingöngu ætluð til lærdóms á þessari önn, við Steinunn höfum reiknað í allan dag. Mín besta byrjun á önn hvað lærdóm varðar held ég í fjöldamörg ár.

    Uncategorized

    Steik, rauðvín og með því

    Höfðum það náðugt í kvöld, nautasteik, rauðvín og bakaðar kartöflur.

    Á eftir var svo horft á þrjá Enterprise-þætti og eftirréttur í gervi íspinna lagður að velli. Prinsessan í einum þáttanna er víst þekktur matgæðingur sem og fyrirsæta.

    Í framhaldi af umræðunni um þroska barna til að fara á kvikmyndir þá hafa nýlegar niðurstöður vísindamanna í Kanada leitt það í ljós að börn undir 10 ára aldri skilja ekki kaldhæðni. Þetta getur þýtt að höfundar barnaefnis þurfi aðeins að endurskoða vinnubrögðin. Held að sumt barnaefni sé einmitt að stíla upp á kaldhæðni og þykir því afskaplega leiðinlegt hjá börnum. Ekki lái ég börnunum þess að skilja ekki kaldhæði, finnst að hana ætti að varast að nota, niðurrif er aldrei til góðs í mannlegum samskiptum. Játa upp á mig þó einhver ummæli í þessum kanti, hefur farið mjög fækkandi undanfarin ár.

    Sá einn þátt af Viltu vinna milljón þar sem vinningar runnu til ýmissa samtaka. Þar kom einmitt fram nafnið Helo Pinheiro. Hún er kvenmaður í Brasilíu sem lagasmiður og textasmiður féllu í stafi fyrir og sömdu lagið “The Girl from Ipanema” um. Það lag fór mikla sigurför um heiminn á sínum tíma. Núna mun umræddur kvenmaður (55 ára) og dóttir hennar (24 ára) koma fram í brasilísku útgáfunni af Playboy, hún er víst flott ennþá, stúlkan frá Ipanema.

    Fengum næturgest í nótt, tengdó var voða þæg og góð á beddanum sem hún gaf okkur fyrir akkúrat svona tækifæri.

    Uncategorized

    Bólur, sparnaður og fátækt

    Stórleikkonan Cameron Diaz (sem er í miklu uppáhaldi hjá mér) er víst með mjög slæma húð og hélt sig því heima við frumsýningu Gangs of New York í London. Hún hefur víst talað opinberlega um þetta til að fá ungar stúlkur til að fatta það að kvikmyndastjörnur eru svona ofsafallegar vegna alls förðunarfólksins, þær eigi ekki að líta á kvikmyndastjörnur sem fyrirmyndir hvað útlit varðar (hvað hegðun varðar þá eru margar ekki góðar fyrirmyndir heldur). Annar plús í kladdann hennar þar.

    Snilldarráð hjá lögreglunni í LA, til að spara peninga ætla þeir að hunsa þjófavarnarkerfi sem fara í gang.

    Það væri ekki vitlaus hugmynd að gefa út svona bækling hér á landi sem benti fátækum á hvar má komast í nauðsynlega þjónustu. Þörfin því miður að stigmagnast á hverjum degi.

    Survivor 5 lauk um daginn með sigri besta leikmannsins, ágætis grein um leikjafræði í Survivor er að finna hér fyrir næstu þátttakendur.

    Uncategorized

    Stíllinn dettur niður

    Fátt markvert í dag. Fór með Elínu á American Style. Alls ekki nógu góður hamborgarinn sem ég fékk og Elín var ekki ánægð með sinn heldur, kaldir hamborgarar og að auki óspennandi á bragðið. American Style er nú kominn í svarta kladdann ásamt Aktu Taktu sem að hafa ekki afgreitt mannsæmandi hamborgara undanfarin ár.

    Lögreglumenn á Ítalíu hafa viðurkennt sekt sína, þeir fölsuðu sönnunargögn til að fá afsökun til að ráðast á hóp mótmælenda. Hérna heima virðist sem að lögreglan þurfi ekki einu sinni að grípa til þeirra ráða, hún þarf enga afsökun fyrir neinu sem hún gerir, svo sýnist manni eftir atburði ársins 2002.

    Mig minnir að það hafi verið skrifað um svipað húllumhæ þegar fyrsti rúllustiginn kom til Íslands, í Kjörgarð á sínum tíma.

    Það eru enn allmargir jarðarbúar sem hafa ekki enn séð rúllustiga og stór hluti þeirra mun aldrei sjá þá, mikil er misskiptingin og rúllustigar langt frá því að vera lífsnauðsynjar.

    Uncategorized

    Skóli, örbylgjur, fiskar og Unicode

    Margt gert í dag, fór í fyrsta tíma annarinnar í morgun. Það verður svo mikið að gera hjá mér á þessari önn vegna skóla (lokaverkefni plús bókleg fög), vinnu, ýmissa persónulegra verkefna og svo verður konan að fá eitthvað líka, að ég verð að vera afskaplega agaður og skipulagður í öllu því sem ég geri.

    Fórum í dag og fengum okkur nýjan örbylgjuofn, okkar lést sviplega en þar sem hann var saddur lífdaga (15 ára eða svo) þá tókum við því með jafnaðargeði. Tæpar 8.000 krónur fyrir eitt stykki í Heimilistækjum er nokkuð vel sloppið! Af þessu tilefni var gamla tölvuborðið mitt dubbað upp og gert að vinnuborði í eldhúsinu og bætir aðstöðuna verulega.

    Sigurrós finnst fiskabúr mjög skemmtileg en sökum vesens við þrifnað hefur slíkt ekki verið keypt á heimilið hjá okkur, held að við reynum ekki heldur að hafa fisk í baðkerinu hjá okkur… örugglega svipað vesen við þrifin!

    Af tæknimálum er það að frétta að loksins loksins tókst mér að koma PostgreSQL (gagnagrunnur) og phpPgAdmin á lappirnar á vefþjóninum. Gerði smá Unicode tilraunir og það blessaðist allt. Framtíðin alltaf að verða betri og betri fyrir magnaðasta gagnagrunnsverkefni heims!

    Góðar fréttir frá Noregi, Bjarni skrifar meira um þessi tíðindi.

    Smellti færslu gærdagsins á Huga til að fá viðbrögð þar.

    Sumir bloggarar pota sér á fleiri staði en aðrir.

    Uncategorized

    Kvikmyndaskoðun

    Eftir að hafa séð litlu börnin í bíó í gær og tekið eftir því að aldursstimplar eru horfnir af auglýsingum kvikmynda fórum við Sigurrós á stúfana til að grafa upp staðreyndir málsins.

    Þetta er allt hið flóknasta mál, þessi lög um kvikmyndir virðast vera í fullu gildi og Kvikmyndaskoðun er að leggja dóm sinn á þær kvikmyndir sem eru í bíóum þessa dagana en ekki stafkrókur birtist um það í auglýsingum blaðanna né á netinu. The Two Towers fær stimpilinn “Bönnuð innan 12” (sem mér finnst mjög eðlilegt) en enginn auglýsir það.

    Hér virðist um hrein og klár lögbrot að ræða, sjá greinar 7 og 8.

  • 7. gr. Aðilum skv. 1. mgr. 4. gr. er skylt að sjá til þess að öll eintök hinnar skoðuðu kvikmyndar séu merkt af Kvikmyndaskoðun. Dreifingaraðilar og sýnendur kvikmynda skulu láta niðurstöður Kvikmyndaskoðunar fylgja öllum auglýsingum og kynningu á kvikmyndum með þeim hætti sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
    Kvikmyndaskoðun skal a.m.k. tvisvar á ári gefa út heildaryfirlit yfir skoðaðar kvikmyndir þar sem fram kemur mat á sýningarhæfni þeirra.

  • 8. gr. Ef kvikmynd, sem sýna á í kvikmyndahúsi, er bönnuð börnum innan tiltekins aldurs ber forstöðumaður kvikmyndahússins ábyrgð á að banninu sé framfylgt. Bannið gildir einnig þó að barn sé í fylgd þess sem heimild hefur til að sjá viðkomandi kvikmynd.
    Óheimilt er að lána, leigja eða selja börnum eintak kvikmyndar ef hún er bönnuð börnum á viðkomandi aldri. Hver sá sem rekur myndbandaleigu ber ábyrgð á að banninu sé framfylgt að því er tekur til kvikmyndaefnis sem þar er á boðstólum.

  • (feitletranir mínar)

    Þetta er líka áréttað í 8. grein reglugerðar frá sama ári. Einhver staðar virðast allir aðilar hafa blindast?

    Hlutverk Kvikmyndaskoðunar er leiðbeinandi, að gefa myndum stimpla sem segja til um hversu gömul börn ættu að vera til að fá að sjá þær. Hlutverk hennar er ekki að banna fullorðnu fólki að sjá kvikmyndir, börn eru ekki litlar fullorðnar manneskjur, þau eru börn sem eru að taka út þroska. Maður setur ekki smábarn við stýrið á bíl, alveg eins og maður setur það ekki niður til að horfa á Night of the Living Dead.

    Lagatillaga var svo sett fram árið 2002 um að afnema þessa stofnun, einkaaðilar ættu sjálfir að meta myndirnar. Þeir eru einmitt svo ábyrgðarfullir þessa dagana, brjótandi lögin og ekki að veita foreldrum neinar upplýsingar (eins og Heimdellingar láta sig dreyma um). Reyndar skil ég ekki hvaða máli það skiptir að einkaaðilar meti myndirnar, þeir ættu mjög erfitt með að vera hlutlausir því að ef að þeir koma ekki með réttu dómana fara kvikmyndahúsin bara til annara aðila! Ég er ekki að segja að Kvikmyndaskoðun sé óskeikul, aðeins að hún er ekki eins háð kvikmyndahúsunum og því líklegri til að vera hlutllæg í dómum sínum. Hvað skorður á tjáningarfrelsi varðar (sem er nefnt í lagafrumvarpinu) þá hefur Kvikmyndaskoðun ekki bannað neina mynd undanfarin ár eftir því sem ég get best séð, aðeins sett á þá aldursstimpla. Hvar er brotið þar?

    Áhugavert:

  • Nákvæmari lýsingu er ekki hægt að gefa á amerísku siðferði.
  • Britney Spears að leika Sherlock Holmes!
  • Uncategorized

    Tveggja turna tal

    Þá erum við komin í tölu þeirra sem hafa séð aðra myndina í myndabálknum um Hringadróttinssögu. Mun betri en fyrsta myndin, sögupersónur fengu meiri dýpt, þetta var ekki endalausir eltingaleikir og læti (nema að hluta til). Lítur ágætlega út fyrir lokamyndina.

    Verð þó að segja að mér fannst þessi börn ekki eiga heima á myndinni, frá 5 ára og upp í 10 ára grislingar sem óku sér um í sætunum á upphækununum og hvískruðu. Er maður orðinn svo gamall og ráðsettur að maður vilji láta framfylgja bönnum á myndir?

    Talandi um bönn, er búið að leggja kvikmyndaeftirlitið niður? Ekki ein einasta mynd er nú merkt sem “bönnuð börnum” og skiptir þá engu máli hvaða viðbjóður (fyrir börn) þar er á ferð. Auðvitað taka foreldrar lokaákvörðunina en það mætti nú aðstoða þá við að meta hvað er ekki við hæfi barna þeirra. Ég færi aldrei með unga krakka á þessar myndir, þau verða nógu hrædd af því að sjá ógeðslega drauga í jólastundinni okkar!

    Það þarf nefnilega ekki að standast próf til að verða foreldri… ég held að það væri samt ekki vitlaus hugmynd að taka upp skyldunámskeið fyrir verðandi nýja foreldra þar sem þeim eru kennd helstu handbrögð við umönnun ungbarna og messað yfir þeim að barni fylgir ábyrgð. Eru börn kannski ómerkilegri en mótorhjól, bílar og vinnuvélar?

    Var að rekast á þessa merkilegu frásögn af eiturlyfjaæði sem rann á konu eina í Bretlandi. Hún hélt að stór græn fluga hefði flogið upp í munninn á sér og hóf því (hún eða kærastinn…. aðeins þau vita það) að rífa úr sér tennur með venjulegum töngum. Greinilega ekki með svona þrefaldar rætur eins og ég fyrst að tennurnar fljúga út!

    Varð ekki svefnsamt í gærkveldi og greip því eina af þeim bókum sem ég fékk í jólagjöf (mikil bókajól hjá mér). Þetta var draugasagan The Time of the Ghost eftir Díönu Wynne Jones. Kláraði hana á tæpum þremur tímum, prýðisgóð lesning með áhugaverðu plotti.

    Uncategorized

    Hringadróttinn eitt, aftur

    Vaknaði 7 í morgun til að klára að lesa yfir fyrir prófið sem ég fór í klukkan 9. Gekk þokkalega en blessaðar EJB-baunirnar eru alltaf að rugla í mér.

    Fyrsta myndin í Hringadróttinssögu féll mér ekki alveg í geð þegar við fórum á hana. Fékk hana núna lánaða hjá Reyni Erni og við horfðum á hana (extended version). Kannski hef ég bara mildast svona eða að þessi lenging atriða hafi bætt söguna svona mikið, slefar alveg upp í þrjár stjörnur núna í stað tveggja síðast.

    Uncategorized

    Fleiri fréttir

    Dagurinn í dag farið í lestur fyrir endurtektarprófið sem er í fyrramálið. Því fátt annað að frétta en…

    Bush yngri hefur sett í gang viðamikla gagnaleynd í Bandaríkjunum. Í stað þess að skjöl séu gerð opinber er nú allt kapp lagt á að neita aðgangi að þeim, þetta er mikil breyting frá stjórnartíma Clintons og var vel að merkja löngu ákveðið áður en hryðjuverkin urðu. Fyndið þegar sumir benda til Bandaríkjanna sem lýðræðisríkis, það telst víst lýðræði að hljóta kosningu sem forseti þrátt fyrir að fá færri atkvæði en andstæðingurinn (Gore fékk fleiri atkvæði á landsvísu en Bush en fornt kosningakerfið þýddi annað), það telst víst líka lýðræði að neita almenningi um aðgang að opinberum skjölum. Lifi lýðræðið!

    Það fer ekki heldur mikið fyrir lýðræðinu í Ísrael þegar að palestínskum þingmönnum á ísraelska þinginu er meinað að bjóða sig aftur fram vegna yfirlýsinga þeirra, bæði frjálslyndir gyðingar og palestínskir Ísraelsmenn eru afar uggandi yfir þessu eins og vænta má. Lifi lýðræðið!

    Sjaldgæfur mannréttindasigur unnin í Kína, kínversk lögregluyfirvöld hafa beðist afsökunar á því að hafa brotist inn á heimili og gert þar upptæk klámmyndbönd, mikill hasar sem hefur staðið yfir eins og lesa má hjá Reuters. Ætli íslensk lögregluyfirvöld muni biðjast afsökunar við Ástþór Magnússon? Helvíti hart þegar að Kínverjar eru lýðræðislegri en við.

    Jón Steinsson hjá Deiglunni virðist ótrúlega vel að sér hvað varðar fyrirætlanir bandarískra yfirvalda í Írak. Hann virðist hafa það beint frá æðstu mönnum hvað verði sprengt upp og hvað ekki og að Bandaríkjamenn ætli sér að halda landinu uppi í mörg ár. Þær fréttir sem ég hef lesið austan og vestan hafs virðast ekki jafn nákvæmar, allt er ennþá óljóst. Hann virðist fylgjandi stríðinu þannig að ég vona að hann sjái ekki meira af sprengjuárásum sem verða saklausum borgurum að fjörtjóni, hann hefur það eftir góðum heimildum að svo verði nefnilega ekki. Reyndar er svolítið seint í rassinn gripið þar, fjöldi Íraka hefur látið lífið í sprengjuárásum Bandaríkjamanna undanfarna mánuði en ekki nógu margir til þess að það komi í helstu fjölmiðlum.

    Kínverski gjörningamaðurinn, sem virðist hafa borðað látið barn, svaraði gagnrýnendum á þann veg að list gæfi ekki svör heldur vekti upp spurningar. Hann tók það jafnframt fram að hvergi í Biblíunni væri mannát bannað, hann segist vera dyggur mótmælandi (sjá Martein Lúther).

    Meira af líkamsleifum, starfsmenn í þvottahúsi í Svíþjóð fundu kvenmannslöpp í óhreina tauinu frá sjúkrahúsi. Rannsókn stendur yfir.

    Ó ef glæpamenn væru allir jafn vitlausir þá gætum við brosað að þeim öllum í stað þess að horfa upp á mikið tjón.

    Önnur góð frétt að lokum, barnungar stúlkur eru stærsti aðdáendahópur froðupoppstjarnanna Christinu Aguilera og Britney Spears (reyndar óteljandi fleiri froður en hvað um það) og þær horfa auðvitað á tónlistarþátt stílaðan inn á þær. Eftir að Aguilera kom fram í nærbuxum með NASTY rituðu aftan á brugðust margir foreldrar reiðir við og siðanefnd áminnti sjónvarpsstöðina fyrir að sýna svona efni á þessum tíma, öðru máli gegndi ef það væri seint um kvöld. Aguilera varð því að mæta nokkurn vegin fullklædd núna þegar henni var aftur boðið í þáttinn. Börn eiga að vera börn, 10 ára stúlkur ættu ekki (að mínu mati náttúrulega) að vera að varalita sig, ganga um í toppum og örstuttum pilsum. Það er nógur tími fyrir það seinna! Algjör óþarfi að stela sakleysi æskunnar fyrir nokkra dollara í vasa froðuframleiðenda.

    Uncategorized

    Nú eru sagðar fréttir (ekki koma blöðin út!)

    Góðar pælingar um heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum.

    Deiglan útnefnir Árna Sigfússon sem pólitíkus ársins, Árni er örugglega mjög vænn og góður maður en virðist hafa eitthvað ákveðið “touch-of-death” sem að fer illa með fjármál þeirra stofnana, fyrirtækja og sveitarfélaga sem hann kemur nálægt.

    Hef verið að heyra að myndin frábæra Cinema Paradiso sé aftur á leiðinni til landsins, 15 árum eftir frumsýninguna. Þetta ku vera lengri útgáfa, munar einum 40 mínútum. Vakti athygli mína að myndin er stranglega bönnuð börnum í Ameríkunni þar sem að það er smá erótík í henni. Það er eins og alltaf… brjóst bönnuð, morð velkomin. Ameríka er með hæstu tíðni barneigna meðal unglinga af vestrænu ríkjunum, það er vegna þess að það er bannað að ræða um kynferðismál, þeir óttast að börnin verði þá duglegri ef þau vita meira!

    Maður frá Montana hefur kært aðstandendur Jackass sjónvarpsþáttana fyrir að eyðileggja nafnið fyrir sér. Bob Craft missti bróður sinn og annan vin í bílslysi 1997 þar sem þeir óku fullir, hann breytti nafni sínu í Jack Ass (asni) til að vekja athygli á því hversu heimskulegt það er að keyra fullur. Hann heldur líka úti vef þar sem hann reynir að koma þeim skilaboðum á framfæri, svona baráttumenn fyrir góðum málstað vantar oft.

    Konum sem vilja styrkja brjóstin á sér ættu að fara að panta miða til Tælands, þar sem tælenska heilbrigðisráðuneytið ætlar að vera með sérstaka leiðbenendur til að kenna brjóstastyrkjandi dansa svo að skorurnar líti betur út.

    Það er áhugaverðara kynlífið sums staðar en annar staðar. Kolkrabbi af ákveðinni baneitraðri tegund (blue-ringed) við strendur Ástralíu hefur ekki hugmynd um hvort að hinn kolkrabbinn sé karl eða kvenkyns fyrr en hann hefur stungið einum armi sínum á þar til gerðan stað til maka, ef að tvö karldýr lenda saman skilja þau í mesta bróðerni eftir tilraunina en ef karldýr hittir á kvendýr heldur það sig við það í rúman klukkutíma til að tryggja að getnaður hafi tekist. Ég sé fyrir mér drukkin ungmenni á íslenskum skemmtistað þreifandi í klofinu á hvor öðru, ef að tveir gagnkynhneigðir karlar myndu þreifa á hvor öðrum myndi það væntanlega enda með miklum ósköpum, svo rík er macho-hefðin ennþá.

    Íslendingar eru ekki einir um það að leyfa öllum að kaupa sér flugelda, það er gert á fleiri stöðum eins og í Venesúela. Þar hétu stærstu flugeldarnir “tengdamömmumorðingi” og “húsaspillir” en hafa nú fengið nafnið Bin Laden. Eitthvað eru nú Ingólfur Arnarson og félagar hófsamari nöfn hérna hjá okkur.