Umferðarmálin

Mikið ofboðslega eru margir vondir ökumenn til á Íslandi. Þetta er algjör frumskógur þarna eins og aðalhákarlarnir vita. Þeir keyra um á tveggja tonna, 5 milljóna (og meira) bryndrekum sem stúta öllum fólksbílum sem lenda í vegi fyrir þeim. Bryndrekamennirnir fá auðvitað ekki skrámu á meðan að pöpullinn sem hefur ekki efni á neinu stærra en tindollu missir líf eða limi við viðureignina og skiptir þá ekki máli hver var í rétti.

Okkur var boðið í mat til ömmu í kvöld, pabbi skaffaði matinn en amma sá um matseldina. Úrvalsmatur á ferð. Eins og oftast þá sjáum við Sigurrós nær aldrei fréttir nema þegar að við erum í heimsókn einhver staðar.

Þarna mátti sjá á skjánum þegar verið var að taka skóflustungu að tvöföldun Reykjanesbrautar og mér heyrðist samgönguráðherra fara með örstutta líkræðu, svo ábúðarfullur og hikandi var hann að stauta einhverju bulli út úr sér.

Að sjálfsögðu var Reykjanesbrautinni lokað við þetta tækifæri! Merkilegheitin í brynvarða liðinu að drepa það og ekki minnkaði drambið þegar að bryndrekafylkingin með 10 milljón króna jeppana í broddi fylkingar (þessir 5 milljóna voru líklega aftast… ekki nógu fínir í þessum hópi) keyrði á báðum akreinum einhverja kílómetra svona til að fá fílinginn fyrir því hvernig væri að keyra á tvöfaldri akrein á Reykjanesbrautinni. Engum sögum fór af þeim ökumönnum sem urðu að breyta ferðum sínum sökum drambslátanna né segir hversu margir lögregluþjónar sáu um að stöðva umferð almúgans á meðan á þessu stóð.

Af einhverjum ástæðum þá ergir það mig alltaf ofsalega þegar opinberir starfsmenn (lögregluþjónar) eru settir í störf sem að snúast í rauninni um það að láta suma einstaklinga (bryndrekahersinguna) finnast þeir vera mikilvægari og flottari en þeir eru. “Fína fólkið” fær snittur, umferðinni er haldið í skefjum og “fína fólkið” fær að labba yfir Reykjanesbrautina, keyra á móti umferð þar eða að heilum bæjarhlutum er lokað á meðan að “fína fólkið” fundar eða heldur ræðu. Þetta lið getur bara gert þetta í sínum draumum og fyrir sína peninga heima hjá sér! Ég sé á eftir öllum mínum skattpeningum sem fara í svona prjál og fínerí.

Aftur að ökumannshlutanum, ég hef orðið var við það að ekki allir fylgja mér þegar ég fer úr einu í annað, þó að mér finnist tengslin á milli umræðuefnanna eðlileg þá sjá allir ekki hvað ég hugsa (sem betur fer! :p ). Í kvöld var ég að keyra á Miklubrautinni þegar ég heyrði í sjúkrabíl og sé blikkandi ljós í fjarska fyrir aftan mig. Ég gerði því eins og mér var kennt, færði mig yfir á hægri akrein og hægði ferðina. Bíllinn sem var fyrir framan mig á vinstri akreininni gerir hins vegar ekki slíkt hið sama heldur hægði bara ferðina og sama gilti um marga aðra á vinstri akreininni. Sjúkrabíllinn þurfti því að stunda svig á 100 kílómetra hraða sem er ekki það sniðugasta, einkum í myrkri og rigningu.

Grundvallarreglan er þessi þegar að bílar með forgangsljós eru fyrir aftan þig:

  • ef að þú ert á tvöfaldri braut þá ferðu á hægri akreinina, ef þú ert á hægri akreininni þá gefurðu þeim sem eru á vinstri akrein tækifæri til þess að komast á þá hægri
  • ef þú ert á einfaldri braut þá ferðu út í hægri kant og stoppar á meðan að forgangsbíllinn fer hjá
  • Íslendingum er annars ekki tamt að gefa neina sénsa í umferðinni, þeir halda fast í frumskógarlögmálið eins og sést á fylgi Sjálfstæðisflokksins, míns fyrrum stjórnmálavettvangs.

    Spurning hvort maður leggi í enn eitt verkefnið, henda upp smá Flash-vef sem sýnir Íslendingum hvernig siðaðar þjóðir hegða sér í umferðinni.

    Að þessum útblástri afloknum þá get ég minnst á það að ég hef verið afskaplega duglegur við lærdóminn í dag. Mikill lúxus að hafa skrifstofu sem er eingöngu ætluð til lærdóms á þessari önn, við Steinunn höfum reiknað í allan dag. Mín besta byrjun á önn hvað lærdóm varðar held ég í fjöldamörg ár.

    Comments are closed.