Þá erum við komin í tölu þeirra sem hafa séð aðra myndina í myndabálknum um Hringadróttinssögu. Mun betri en fyrsta myndin, sögupersónur fengu meiri dýpt, þetta var ekki endalausir eltingaleikir og læti (nema að hluta til). Lítur ágætlega út fyrir lokamyndina.
Verð þó að segja að mér fannst þessi börn ekki eiga heima á myndinni, frá 5 ára og upp í 10 ára grislingar sem óku sér um í sætunum á upphækununum og hvískruðu. Er maður orðinn svo gamall og ráðsettur að maður vilji láta framfylgja bönnum á myndir?
Talandi um bönn, er búið að leggja kvikmyndaeftirlitið niður? Ekki ein einasta mynd er nú merkt sem “bönnuð börnum” og skiptir þá engu máli hvaða viðbjóður (fyrir börn) þar er á ferð. Auðvitað taka foreldrar lokaákvörðunina en það mætti nú aðstoða þá við að meta hvað er ekki við hæfi barna þeirra. Ég færi aldrei með unga krakka á þessar myndir, þau verða nógu hrædd af því að sjá ógeðslega drauga í jólastundinni okkar!
Það þarf nefnilega ekki að standast próf til að verða foreldri… ég held að það væri samt ekki vitlaus hugmynd að taka upp skyldunámskeið fyrir verðandi nýja foreldra þar sem þeim eru kennd helstu handbrögð við umönnun ungbarna og messað yfir þeim að barni fylgir ábyrgð. Eru börn kannski ómerkilegri en mótorhjól, bílar og vinnuvélar?
Var að rekast á þessa merkilegu frásögn af eiturlyfjaæði sem rann á konu eina í Bretlandi. Hún hélt að stór græn fluga hefði flogið upp í munninn á sér og hóf því (hún eða kærastinn…. aðeins þau vita það) að rífa úr sér tennur með venjulegum töngum. Greinilega ekki með svona þrefaldar rætur eins og ég fyrst að tennurnar fljúga út!
Varð ekki svefnsamt í gærkveldi og greip því eina af þeim bókum sem ég fékk í jólagjöf (mikil bókajól hjá mér). Þetta var draugasagan The Time of the Ghost eftir Díönu Wynne Jones. Kláraði hana á tæpum þremur tímum, prýðisgóð lesning með áhugaverðu plotti.