Monthly Archives: December 2002

Uncategorized

Nú verða sagðar fréttir

Jólastúss í dag, gjafakaup, matarinnkaup og sendiferðir.

Þá er ég búinn að ná að lesa pínulítið um hvað er að gerast í heiminum. Nú hefjast fréttir, þessi liður er víst sá vinsælasti á síðunni hjá mér, svo segja tveir af þremur lesendum! 🙂

Lazio er enn næstefst í Serie A og enn hafa leikmenn ekki fengið laun síðan í sumar. Það er þó ekki aðaláhyggjuefnið hjá naglanum Diego Simeone. Hann hefur mestar áhyggjur yfir því að leikmenn Lazio hafi fagnað mörkunum í vetur með því að taka dansspor úr Ketchup-laginu. Honum finnst það ekki nógu karlmannlegt greyinu.

Texas er eitt mesta lýtið í mannréttindasögu Bandaríkjanna. Nú til dags mega kennarar ekki einu sinni nefna kynmök sínum réttu nöfnum í kynfræðslutímum. Mikið er nú gott fyrir heiminn að sonur Texas sé forseti Bandaríkjanna. Því hafa fjöldamörg samtök um allan heim kynnst, hjálparsamtök eru skikkuð til þess að hætta að bjóða upp á fóstureyðingar eða missa alla fjárhagsaðstoð ella. Það eru ekki bara fóstureyðingar, bannað er að veita fræðslu um getnaðarvarnir, skírlífi er það sem að þessir forpokuðu afturhaldsseggir vilja í sínu Texas-ríki og andskotinn hafi það, nú skal heimurinn líka gjöra svo vel að lifa skírlífi fyrir giftingu! Þessa menn þarf að taka úr umferð, ekki láta þá vera voldugustu menn heims.

Ástandið í Texas og hluta Bandaríkjanna er næstum jafn slæmt og í Pakistan þar sem að maður hefur verið dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að trúa því að annar maður hafi verið spámaður. Íslömsk lög segja að Múhammeð hafi verið síðasti spámaðurinn og dauðasök liggur við því að halda þykjast vera spámaður eða fylgja honum.

Ekki er þetta betra í Íran þar sem að búið er að handtaka rakara fyrir að klippa stúlkur eins og drengi svo þær gætu klætt sig sem stráka á almannafæri.

Meira frá Texas, þar er dómskerfið þannig að kviðdómur ákveður bæði sekt og refsingu. Saksóknarar hafa nú frestað öllum málum þar sem að kviðdómendur gætu verið of meyrir í kringum jólahátíðina. Best finnst saksóknurum að hafa réttarhöld um miðjan apríl þegar að kviðdómendur eru pirraðir vegna skattskila. Æðislegt réttlætið þarna!

Nú eru komnar vísindalegar niðurstöður fyrir því að bölvunin sem átti að vera á gröf Tútankamons hafi bara verið bull frá breskum blaðamönnum. Varla stórfrétt þar á ferð en þó nokkrar bækur og kvikmyndir hafa þó verið gerðar þar sem að einmitt er gengið út frá því að bölvunin hafi verið raunveruleg.

Lifandi fuglar og orkídeur í töskunni og sprækir apar í buxunum, bara enn einn dagurinn í tollinum.

Nú er örstutt í fyrsta klónaða barnið. Kanadískir félagar í Raelians-trúarhreyfingunni hafa gefið út tilkynningu þess efnis að það ætti að fæðast á jóladag. Fjögur “systkyni” þess munu svo fæðast á næsta ári.

Bjórdrykkjumenn í Þýskalandi eru núna líklega að hamstra bjór þar sem það lítur út fyrir bjórskort þar snemma á næsta ári. Það er vegna hertra reglna um óendurnýttar umbúðir en Þjóðverjar hafa ekki verið nógu duglegir við endurvinnsluna. Gott á þá segi ég bara, ef þú gefur skít í umhverfið færðu skít til baka!

Mér hafa borist fregnir af því að íbúar Stokkseyrar séu allra manna duglegastir að skreyta fyrir jólin og toppa víst marga Bandaríkjamenn. Þó hefur ekki borið á jólasveinaránum þar, í Toronto er húseigandi núna að safna saman niðursuðuvörum til að geta leyst jólasveininn sinn úr haldi manna sem vilja að niðursuðuvörunum sé dreift til fátækra fyrir jólin. Skreytingin er víst ekki sú sama þar sem hreindýrin eru víst hálf ráðlaus án jólasveinsins. Ekki langar mig til að sjá þessa skreytingu, jólasveinalausa eður ei!

Belgar halda víst fastast um budduna fyrir jólainnkaupin. Ég held að það sé ekki endilega slæmt mál, jólagjafir ættu að vera smálegar og persónulegar, ekki eitthvað dýrt glys eða nýr bíll.

Það er erfitt líf að vera íþróttamaður á heimsmælikvarða. Rúmenar eru alltaf að reyna að ná sér í aukapening enda með fátækari löndum Evrópu. Þrír fimleikamenn hafa verið bannaðir í fimm ár fyrir að gera fimleikaæfingar naktir í ljósblárri mynd. Þetta er allt komið í rugl þegar að íþróttamenn eiga að vera geldar steríótýpur sem ekkert mega gera. Skil einkalífs og opinberrar þátttöku eru alltaf að minnka í hugum fasista þessa heims.

Talandi um íþróttir, tímasetning skiptir öllu þar og barnsfæðingar eru engin undantekning. Á morgun fer fram einvígi Liverpool og Everton og til að missa ekki af því lét Richard Wright (markmaður Everton) setja konu sína í gang svo að annað barn þeirra fæddist áður en leikurinn færi fram.

Það er ekkert slor afmæliskortið sem forsætisráðherra Indlands fær á jóladag þegar hann verður 78 ára. Kortið er rúmlega hálfur kílómeter á lengd!

Andstæðingar Evrópusambandsins gera auðvitað sitt besta til þess að rangtúlka ákvarðanir þess. Það nýjasta af þessum vettvangi var orðrómur sem fór í gang á Ítalíu um að búið væri að leggja friðhelgi sunnudaga af! Þetta var auðvitað bara bull, samþykktin hljómaði upp á það að aðildarlöndin réðu sjálf hvaða vikudagar væru almennir frídagar.

Lýkur þá fréttunum, einn gullmoli þó handa þeim sem entust að lesa allt ofantalið. Aldrei skal gefa okkur Sigurrós blóm! Við erum vonlaus í því eins og sjá má á jólarósinni okkar. Við frábiðjum okkur allar gjafir sem að líf bærist með.

Uncategorized

Bílamálin

Þá loksins getum við kjaftað frá nýjustu fréttum. Við höfum þagað yfir þessu undanfarið til að við gætum komið tengdó á óvart þegar hún heimsótti okkur í dag. Við höfum sumsé fest kaup á “nýjum” bíl. Eftir 9 ára samveru sagði ég loks skilið við mína traustu Mözdu (hún hefur þó átt sína slæmu daga en líka góðu) og yngdi upp um ein 6 ár. Við keyptum hann Phoenix af Daða bróður og hann fékk Mözduna uppí. Þetta er þriðji bíllinn minn (áður átti ég Lödu í eitt ár) en sá fyrsti sem að Sigurrós eignast. Þess má geta að ég hef aldrei nefnt bílana mína en það hefur Daði gert og Toyotan fær að halda nafninu sínu. Auðvitað er svo hið besta mál að hún heiti sama nafni og uppáhalds íþróttaborgin mín í Bandaríkjunum, Phoenix þaðan sem hetjurnar mínar í Suns koma.

Förinni var annars heitið í Fagrahjallann þar sem Ingunn frænka (Sigurrósar) var að útskrifast sem stúdent hálfu ári á undan áætlun sem er auðvitað glæsilegt!

Áhugavert:

  • Merkileg tíðindi varðandi verð á prenthylkjum
  • Áminning varðandi tjáningarfrelsi á vefnum
  • Uncategorized

    Tíminn flýgur

    Tíminn flýgur svo hratt þessa dagana, nú er maður byrjaður að taka þátt í jólaundirbúningnum og lét meira að segja draga mig í Kringluna til að versla þar á mig og fyrir aðra.

    Skondnu smáfréttirnar sem ég hef grafið upp verða að bíða að minnsta kosti einn dag enn, ég hef ekki haft tíma til að lesa þær yfir og pikka nokkrar góðar úr. Ætli það verði ekki löng rulla þegar ég loksins kemst í það.

    Get þó sýnt áhugasömum jólaskreytinguna mína í ár, hún er staðsett niðrí vinnu. Þess má geta að það er ákveðið concept á bakvið uppröðun flasknanna og liti þeirra. Ekki allir virðast átta sig á því.

    Áhugasamir geta fengið stærri myndir af herlegheitunum sé þess óskað!

    Uncategorized

    Phoenix

    Tengsl lyfjafyrirtækja og fótbolta eru reifuð stuttlega í þessari grein sem er skrifuð af blaðamanninum og Sheffield Wednesday-áhanganda Söruh Houlton.

    Lykilorð dagsins í dag er Phoenix.

    Uncategorized

    Skilað

    Mætti klukkan níu á mánudagsmorgun og í dag þriðjudag er ég að fara heim rétt rúmlega 18. Þessir 35 tímar liðu afar hratt við forritun og skýrslugerð. Á morgun er sýningin.

    Ég er farinn heim að sofa.

    Uncategorized

    Síðustu droparnir

    Verkefnisvinna á fullu, innan við sólarhringur í skil, ekki allt komið sem til þarf. Rétt get laumast í dagbækur annara, engan tíma til að skrifa í mína neitt nema meira fánýti en venjulega.

    Var aðeins að stússast á póstþjóninum mínum sem er gömul lítil 486 beygla með frekar takmarkað diskpláss. Hann hefur nú verið “up 375 days” sem þýðir að í ár og tíu daga hefur hann ekki hikstað. Reyndar hikstaði hann síðast aðeins vegna rafmagnsleysis, að öðru leyti hefur þetta verið öruggasti þjónn sem ég hef komist í tæri við. Allir vita hvað tölvutæknin getur verið breysk (vefþjónninn lenti í því að sprengja þétta fyrir nokkru en hefur annars verið þægur) og því er gaman þegar að hún stendur sig svona vel. Ég er stoltur þjónapabbi.

    Áhugavert:

  • Ættartré keisaranna
  • Uncategorized

    *dæs*

    *DÆÆÆÆS*

    Þreyttur mjög. Mikil vinna. Lítill svefn. Verkefni á bláþræði. Verður að reddast á morgun.

    Þriðja lögmál hópvinnu, greinið frá stöðunni eins og hún er. Ekki eins og hún ætti að vera.

    Uncategorized

    *fnæs*

    *FNÆS*

    In theory ættu hlutir að virka. In reality þá er fattlevell voðalega misjafn milli manna. In reality þá eru hlutirnir ekki að virka.

    Uncategorized

    Vantar bara svarta köttinn

    Jújú. Það er föstudagurinn þrettándi í dag og í þrjá tíma var þetta versti dagur ársins. Beta-skoðun leiddi í ljós alvarlega hönnunargalla og svo þurfti ég að labba heim í grenjandi rigningu með fartölvuna á bakinu (bakpokinn stóð sig með prýði sem betur fer!).

    Bæði hefði verið hægt að laga með smá ítrun og betri skipulagningu, hönnunargallarnir mun verri þó en tímabundna bílleysið. 🙂

    Þá er bara að bretta upp ermarnar um helgina þannig að hægt sé að skila einhverju sem virkar á þriðjudaginn.

    Dýrt er orðið. J.K. Rowling gaf 93-orða samantekt um nýjust bókina um Harry Potter á uppboð til styrktar Book Aid International. Þar er orðunum slengt saman handahófskennt þannig að ekki næst að lesa hver söguþráðurinn verður. Þessi samantekt náði hins vegar fimmfaldri þeirri upphæð sem hafði verið spáð, hvert orð kostaði 43.000 kr. þegar að uppboðinu lauk, samtals rétt um 4 milljónir króna!

    Talandi um uppboð á handritum. Handrit Ian Flemings (skapari James Bond) að barnasögunni vinsælu Chitty Chitty Bang Bang seldist ögn dýrar en samantektin hér að ofan.

    Ronaldo var að fá verðlaun sem leikmaður ársins, nokkuð gott miðað við að hafa spilað eins fáa leiki og hann hefur gert á árinu! Hann er af fátæku fólki kominn og sem góður drengur hefur hann því keypt íbúðir í Ríó de Janeiro þar sem að fjölskylda hans býr. Nágrönnum finnst fjölskyldan hins vegar vera of alþýðleg og hefur kvartað undan því að þau líti ekki nógu hástéttarlega út. Það er til endalaust af fólki sem að ergir sig á útliti annara, ætti að taka svoleiðis fólk og henda því allslausu á götuna í mánuð og athuga svo hvort að það raði hlutunum í rétta forgangsröð eftir þá reynslu. Að minnsta kosti virðast þátttakendur í Survivor fá mikla lífsfyllingu við það að vera sneydd ríkidæmi sínu.

    Uncategorized

    Maríjúana

    Þessi frétt er nú með þeim ógeðslegustu sem ég hef lesið. Maður í Þýskalandi hefur sumsé verið handtekinn eftir að hafa… já… þeim lesendum sem ekki klígir við að lesa um morð og mannát ættu bara að kíkja á þetta, viðkvæmum sálum er bent á að lesa ekki meira um þetta.

    Í verkefnavinnunni (þar sem allt er brjálað að gera) hef ég verið að hlusta á diskinn Móri með íslenska rapparanum Móra. Minnir talsvert á MC Solaar, mjög djassað og flott tónlist. Textarnir vel unnir en yrkisefnið… tja. Held í vonina að þetta sé aðallega grín hjá honum, mér finnst að minnsta kosti fátt svalt við að vera eiturlyfjasali og glæpaseiði.

    Móri syngur talsvert um maríjúana, mikill stuðningsmaður þess greinilega. Í tilefni af því ætla ég að tengja á frétt um yngstu maríjúanasala sem hafa verið handteknir, tveir níu ára strákar í Bandaríkjunum.