Vantar bara svarta köttinn

Jújú. Það er föstudagurinn þrettándi í dag og í þrjá tíma var þetta versti dagur ársins. Beta-skoðun leiddi í ljós alvarlega hönnunargalla og svo þurfti ég að labba heim í grenjandi rigningu með fartölvuna á bakinu (bakpokinn stóð sig með prýði sem betur fer!).

Bæði hefði verið hægt að laga með smá ítrun og betri skipulagningu, hönnunargallarnir mun verri þó en tímabundna bílleysið. 🙂

Þá er bara að bretta upp ermarnar um helgina þannig að hægt sé að skila einhverju sem virkar á þriðjudaginn.

Dýrt er orðið. J.K. Rowling gaf 93-orða samantekt um nýjust bókina um Harry Potter á uppboð til styrktar Book Aid International. Þar er orðunum slengt saman handahófskennt þannig að ekki næst að lesa hver söguþráðurinn verður. Þessi samantekt náði hins vegar fimmfaldri þeirri upphæð sem hafði verið spáð, hvert orð kostaði 43.000 kr. þegar að uppboðinu lauk, samtals rétt um 4 milljónir króna!

Talandi um uppboð á handritum. Handrit Ian Flemings (skapari James Bond) að barnasögunni vinsælu Chitty Chitty Bang Bang seldist ögn dýrar en samantektin hér að ofan.

Ronaldo var að fá verðlaun sem leikmaður ársins, nokkuð gott miðað við að hafa spilað eins fáa leiki og hann hefur gert á árinu! Hann er af fátæku fólki kominn og sem góður drengur hefur hann því keypt íbúðir í Ríó de Janeiro þar sem að fjölskylda hans býr. Nágrönnum finnst fjölskyldan hins vegar vera of alþýðleg og hefur kvartað undan því að þau líti ekki nógu hástéttarlega út. Það er til endalaust af fólki sem að ergir sig á útliti annara, ætti að taka svoleiðis fólk og henda því allslausu á götuna í mánuð og athuga svo hvort að það raði hlutunum í rétta forgangsröð eftir þá reynslu. Að minnsta kosti virðast þátttakendur í Survivor fá mikla lífsfyllingu við það að vera sneydd ríkidæmi sínu.

Comments are closed.