Hvernig stendur á því að formælendur á þingi eru að mæra þau þingmál sem þeir eru formælendur fyrir? Sögnin að formæla hefur öfuga merkingu. Mig minnir að fyrir ekki svo löngu hafi menn verið frummælendur, og þá var eðlilegt að þeir mærðu eigin mál. Hvaða málfarsaular eru að pota svona orðskrípum inn í íslenskt stofnanamál sem má nú ekki við fleiri ambögum!
Leverkusen voru svo nálægt því að ná þýska meistaratitlinum, en Dortmund hafði það á endasprettinum. Ef að Leverkusen koma ekki gjörsamlega tjúllaðir til leiks í Meistaradeildinni og vinna Real Madrid þá flokkast þetta tímabil sem algjört flopp þó þeir hafi orðið í öðru sæti.
Arsenal unnu svo Chelsea þannig að ekki var þetta nógu gott í boltanum í dag.
Hins vegar bjargaði það öllu að mínir menn í Lyon unnu hreinan úrslitaleik í síðustu umferðinni, 3-1 sigur gegn Lens tryggði þeim meistaratitilinn með 2 stiga mun, Lens urðu því í öðru sæti. Glæsilegt!
Fengum kívímarengstertu hérna í skólanum, Kjartan keypti hana af systur sinni á kökubasar og bauð okkur upp á. Við hliðin á okkur var svo annar hópur sem að var að baka vöfflur og var með rjóma og tilheyrandi. Það er sko veldi á okkur hérna í lokaverkefninu!
Lokaafrek dagsins var svo að koma Jóa á MSN, svo maður heyri nú oftar í honum. Svona er Ísland í dag… maður talar mest við vini sína núna í tölvupósti og á MSN af því að við erum allir á fullu í að koma undir okkur fótunum. Hann og Gyða voru að leigja sér íbúð og hann er í tveim og hálfri vinnu, ég er í 80% vinnu með 50% skóla og þó nokkur % í hinu og þessu og núna 120% í lokaverkefninu plús það að vera að kaupa mér íbúð. Þetta er bara dæmigert ástand fyrir vini mína og jafnaldra, allir önnum kafnir við að fóta sig í lífsbaráttunni.
Við Sigurrós ætlum nú að reyna að bjóða fólki í Betraból (eins og ég kalla tilvonandi íbúðina okkar þegar svoleiðis liggur á mér) sem oftast, enda fátt skemmtilegra en að hitta vini sína augliti til auglitis.