Monthly Archives: May 2002

Uncategorized

Jarðarför og LAN #5

Í gærkvöldi héldum við VIT menn okkar fimmta LAN. Ég mætti í það um sjö að kveldi til nývaknaður eftir langþráðan svefn. Sigurrós vakti mig með gjöf, eitt stykki lítil dúkka í líki Powerpuff-stúlkunnar Bubbles, sem er einmitt í miklu uppáhaldi hjá okkur.

Í dag fóru Sigurrós og Ragna svo í jarðarför Odds frænda hennar. Því miður komst ég ekki með þar sem að ég er enn að ná mér eftir verkefnið og þarf að auki að leggja meiri vinnu í það. Við erum að fara að verja það á mánudagsmorgun og því þarf ég í dag að setja inn góð og mikil gögn og undirbúa annað í sambandi við vörnina.

Odd hitti ég aðeins nokkrum sinnum en hann var bókstaflega hvers manns hugljúfi, það var mjög leiðinlegt að geta ekki kvatt hann ásamt hinum 600.

Uncategorized

Andlát – Sigríður

Alltaf vill lífið minna á sig. Í gærmorgun mætti ég klukkan 8 í skólann og fyrir utan að ég skrapp í kvöldmat heim og fékk mér klukkutímadúr þá, þá var ég sleitulaust til 12:30 á hádegi í dag. 28 tíma törn.

Þegar ég kem svo heim uppgefinn sest ég niður og ætla að fletta í Mogganum áður en ég fæ mér loksins langþráðan svefn. Þegar ég er að fletta framhjá minningargreinunum rek ég allt í einu augun í nafn sem ég kannast við og myndin staðfestir það. Þarna var að finna minningargreinar um Sigríði Reynisdóttur.

Þetta kom mér mjög á óvart, og það að minnst er á mig óbeinum orðum í fyrstu minningargreininni lætur smá hroll hríslast um mig. Ég var sumsé þjálfari MK fyrir Gettu Betur árið 1996. Í liðið voru valin þau Sigríður, Björn og Stefán. Hvað árangur liðsins varðar þá er það nokkuð ljóst að ég var ekki að átta mig nógu vel á muninum á því að vera þjálfari liðs eða þátttakandi, nokkuð sem margir góðir leikmenn í ýmsum greinum hafa rekið sig á.

Þau voru öll nokkuð svipaðar týpur, og kom vel saman. Við lestur minningargreinanna komst ég að því að Sigríður og Björn höfðu svo byrjað saman eftir þetta, þau voru það lík þau tvö að það kemur mér ekkert á óvart.

Lífið er stutt og ófyrirsjáanlegt, fögnuður minn yfir að skila loksins lokaverkefninu vék fyrir alvarleika lífsins, gæðastúlka missir lífið og eftir situr unnustinn og aðrir og skilja ekki ástæðuna.

Ég votta Birni og öðrum vinum og vandamönnum Sigríðar mínar innilegustu samúðaróskir.

Uncategorized

Maraþon

Þá er það bara maraþonið fyrir skil!

Grunnkröfur allar uppfylltar og hellingur af aukakröfum. Við verðum hér eftir nótt að laga pínumál hér og þar, og svo ætla ég að smella út eins og einu Admin-svæði fyrir vefhlutann okkar. 12 tímar í skil… þetta verður áhugaverð nótt!

Uncategorized

Fyrsta lögmál hópforritunar

Aldrei að taka út kóða sem þú skrifaðir ekki og veist ekki hvað gerir.

(Einn aðilinn ákvað að snyrta kóðann okkar til og henda því sem ekki var í notkun að hans mati, 16 vinnutímar í súginn).

Uncategorized

Betraból bíður

Glæsilegt ástandið núna. Betraból situr tómt og bíður, konan er heima veik en þó á leið í próf í fyrramálið og ég sit sem fastast í skólanum í verkefnavinnu.

Þetta er farið að ganga sæmilega, MFC tekur gríðarlegan tíma í alls konar snatt. Var reyndar að frétta það að við njótum þess vafasama heiðurs að vera síðasti árgangurinn sem að lærir MFC, yfirvöld hafa séð að sér, enda notar enginn heilvita maður þetta. Aðeins of seint fyrir minn smekk.

Uncategorized

Betraból ehf.

Þar sem ég sat djúpt sokkin í enn einu feninu frá Microsoft, að þessu sinni MFC, fékk ég allt í einu símtal þar sem mín ástkæra frú laumaði því inn að við ættum nú að fara að sækja lyklana að nýja heimilinu okkar, þeir sætu nú voðalega einmana á fasteignasölunni og biðu nýrra eigenda með óþreyju.

Hún náði svo í mig og við skruppum að skoða galtóma íbúðina sem bíður núna herliðsins sem að á að mála hana, pússa parketið, setja sturtuþil í kringum baðið, setja handrið fyrir stigann, mála svalirnar og margt margt fleira.

Fyrir hönd íbúðareigenda býð ég sjálfur okkur tvö velkomin í þann hóp.

Ég mun ekkert sjá íbúðina aftur fyrr en um helgina, því að 18 tíma vaktir eru lágmarkið fram að skilum hérna í skólanum. Bless.

Uncategorized

Skólaskól

Þetta er dagbókin mín og því skrifa ég samviskusamlega á hverjum degi. Dagurinn í dag var óspennandi, unnið í verkefninu og hef núna setið og pikkað samviskusamlega inn gögn í gagnagrunninn okkar, einkum námskeið og bækur úr guðfræðinni í HÍ. Margt skondið sem ég sá þar.

Tæpir 5 dagar í skil.

Ekkert áhugavert í dag…

Uncategorized

Að formæla og fleira

Hvernig stendur á því að formælendur á þingi eru að mæra þau þingmál sem þeir eru formælendur fyrir? Sögnin að formæla hefur öfuga merkingu. Mig minnir að fyrir ekki svo löngu hafi menn verið frummælendur, og þá var eðlilegt að þeir mærðu eigin mál. Hvaða málfarsaular eru að pota svona orðskrípum inn í íslenskt stofnanamál sem má nú ekki við fleiri ambögum!

Leverkusen voru svo nálægt því að ná þýska meistaratitlinum, en Dortmund hafði það á endasprettinum. Ef að Leverkusen koma ekki gjörsamlega tjúllaðir til leiks í Meistaradeildinni og vinna Real Madrid þá flokkast þetta tímabil sem algjört flopp þó þeir hafi orðið í öðru sæti.

Arsenal unnu svo Chelsea þannig að ekki var þetta nógu gott í boltanum í dag.

Hins vegar bjargaði það öllu að mínir menn í Lyon unnu hreinan úrslitaleik í síðustu umferðinni, 3-1 sigur gegn Lens tryggði þeim meistaratitilinn með 2 stiga mun, Lens urðu því í öðru sæti. Glæsilegt!

Fengum kívímarengstertu hérna í skólanum, Kjartan keypti hana af systur sinni á kökubasar og bauð okkur upp á. Við hliðin á okkur var svo annar hópur sem að var að baka vöfflur og var með rjóma og tilheyrandi. Það er sko veldi á okkur hérna í lokaverkefninu!

Lokaafrek dagsins var svo að koma Jóa á MSN, svo maður heyri nú oftar í honum. Svona er Ísland í dag… maður talar mest við vini sína núna í tölvupósti og á MSN af því að við erum allir á fullu í að koma undir okkur fótunum. Hann og Gyða voru að leigja sér íbúð og hann er í tveim og hálfri vinnu, ég er í 80% vinnu með 50% skóla og þó nokkur % í hinu og þessu og núna 120% í lokaverkefninu plús það að vera að kaupa mér íbúð. Þetta er bara dæmigert ástand fyrir vini mína og jafnaldra, allir önnum kafnir við að fóta sig í lífsbaráttunni.

Við Sigurrós ætlum nú að reyna að bjóða fólki í Betraból (eins og ég kalla tilvonandi íbúðina okkar þegar svoleiðis liggur á mér) sem oftast, enda fátt skemmtilegra en að hitta vini sína augliti til auglitis.

Uncategorized

27 manns, 20 milljarðar

Held að það sé alveg málið að fækka þingmönnum og jafnframt að svipta ráðherra þingmennsku. Núna var frumvarp upp á 20 milljarða króna samþykkt með 27 atkvæðum af 63 mögulegum, heil 42% þingmanna greiddu því þessari miklu skuldbindingu atkvæði sitt. 13 greiddu á móti, 12 sátu hjá og 11 létu ekki einu sinni sjá sig. Glæsileg samkunda þetta, sverð, skjöldur og sómi okkar ástkæra lands. Jæja.

Sem handhafar framkvæmdavaldsins eiga ráðherrar auðvitað ekki að vera jafnframt meðlimir löggjafavaldsins, það segir sig bara sjálft ef að menn vilja fara eftir þrískiptingunni sem okkar kerfi byggist víst á!

Frekari formælingar um íslenskt stjórnskipulag verða nú sagðar í hljóði.

Áhugavert:

 • Kvenfólk!
 • Kettir!
 • Uncategorized

  Toppeinkunn!

  Hitti Elísabetu í dag, alltaf jafn gaman að hitta skemmtilegt fólk, of langt leið síðan síðast.

  Fékk áðan einkunn úr Stýrikerfi 1, hvorki meira né minna en 9. Hæsta einkunn hingað til í þessum skóla, enda verið oft óduglegur við lesturinn. Það besta er að ég var duglegur við að fara út fyrir efnið í prófinu, og ryðja öllu sem mér datt í hug út úr mér, ef að ég var ekki alveg 100% á spurningunni. Virðist hafa virkað.

  Nú er GallúBið sem að Geiri tók við mig (með aðstoð spurninganna sinna og smá asp-hjálpar frá mér) komið á vefinn, og gvuð hvað drengnum tekst að misþyrma myndunum sem ég sendi honum. Þar sem að ég hef ekki látið sjá mig á svokölluðum skemmtistöðum í áraraðir þá átti pilturinn auðvitað engar myndir af mér, þannig að ég gróf upp einhverjar og sendi honum. Drengurinn lætur þær svo fettast og brettast þannig að það er engu líkara en að ég sé 3 metrar á breidd (þegar ég er bara 1.5!). Honum tileinka ég því þessa skopmynd.

  Þá held ég áfram í verkefninu, prófanir eiga að fara fram á morgun og þetta lítur ágætlega út vefmegin að minnsta kosti. 7 dagar í skil!

  Áhugavert:

 • En ég borgaði fyrir…
 • Sjúku Bandaríkin, sem áður