Monthly Archives: March 2002

Uncategorized

Símaskráin góðan dag

Fékk vírus í dag sendan, sem er ekkert nýtt, nema að þessi kom frá simaskra@simi.is. Hversu margir ætli hafi fengið hann þennan?

Annars var þetta fínn dagur í vinnunni, mér finnst langskemmtilegast þegar ég er að þróa hluti frekar en að framleiða.

Áhugavert:

 • Digital cameras save artwork
 • Land-to-air missiles to be deployed at World Cup stadium
 • Uncategorized

  Klippi klipp

  Kláraði þessi 90% sem eftir var að klippa, 100 .rm skrár bíða þess núna að verkefnið okkar fari af stað og þær fljóti með.

  Sunnudagar eru oft í slappari kantinum. Verð að fara að skipuleggja þá bara fram í tímann svo þeir fari að nýtast eitthvað.

  Áhugavert:

 • Whatever happened to the Korean heroes of 1966?
 • Uncategorized

  Sunnudagur?

  Veit ekki hvað málið er en mér finnst eins og það sé sunnudagur í dag. Þar sem að allt segir mér hins vegar að það sé laugardagur þá er ég að græða einn auka dag á morgun…

  Við Sigurrós fengum okkur piparsteik í kvöld, þetta heppnaðist svo vel síðast að við erum að hugsa um að fara að gera þetta í hvert sinn sem okkur gæti langað í pizzu. Þetta er ódýrari og betri matur sem auðvelt er að útbúa. Samtals kostaðu hálft kíló af fillet, 4 bökunarkartöflur og tveir Daim-ístoppar (í eftirrétt) 1600 kr. í Nóatúni (flott kjötborð, dýr verslun).

  Sá áðan nýtt myndband frá George Michael á MTV, snilldar cyber-pönk myndband við lagið Freeek!, gaman að sjá svona töff og húmorísk myndbönd af og til.

  Áhugavert:

 • ‘Penguin kickabout’ ridiculed in Brazilian media
 • Uncategorized

  BRA 6-1 ISL

  Já ekki voru það glæsileg úrslitin sem maður fann á vefnum í dag. Varalið Íslands flengt af varaliði Brasilíu. Sá svo á Eurosport í kvöld öll mörkin, þulurinn fræddi okkur um að mestu fagnaðarlætin hefðu verið þegar Íslendingar potuðu sínu marki inn. Ég leyfi mér að efast um að aðalliðið okkar hefði tapað svona illa fyrir aðalliði þeirra. Við erum orðnir nokkuð þéttir þó að Atli sýni af og til ótrúlega takta í vali á leikskipulagi og leikmönnum.

  Held að þarna hafi bara komið í ljós að þó að við getum teflt fram góðu byrjunarliði þá er breiddin voðalega lítil, sem er bara eðlilegt ef við lítum á íbúafjöldann.

  Uncategorized

  Jói klippikrumla

  Er búinn að sitja við það aðeins í kvöld að klippa niður mínútulanga hljóðbúta fyrir næsta skilaverkefni í Gluggaforritun. Við erum sumsé að fara að smella upp gagnagrunni yfir Vinsældarlista Rásar 2 1984-1987, og gera MFC-forrit sem viðheldur honum, sem og vef sem að birtir upplýsingarnar úr grunninum. Til að skreyta þetta aðeins vefmegin er ég búinn að redda mér gommu af lögum sem er að finna á þessum listum, og ætla að leyfa þeim sem skoða að heyra fyrstu mínútu hvers lags (nöfnin segja manni stundum ekki mikið).

  Björgvin er óánægður með að útlitið sem hann gerði hafi verið stolið. Þetta verður maður að lifa við á netinu, hver sem er getur stolið frá manni, en magnið er hins vegar svo mikið að það er spurning hvenær maður er frumlegur. Ég held að útlitið sem að ég setti á World Football sé frumlegt, menn hafa hins vegar miskunnarlaust reynt að stela bandvíddinni minni. Eins og ég sagði í bréfinu til Björgvins, þá er árangurinn sem hægt væri að ná ef að farið væri í hart, ekki virði tímans, vesensins né peninganna sem að þyrfti að leggja fram.

  Áhugavert:

 • Sir Charles speaks — as usual
 • Uncategorized

  Íslenskt vefsamfélag

  Bjarni var að varpa fram hugmynd að aukafítus sem að ætti að leyfa íslenskum vefleiðurum að sjá það hverjir eru að tengja á þá. Hugsunin er sú að einhver skrifar greinarkorn, og svo tengir einhver annar yfir á það greinarkorn í svari, en sá sem skrifaði upphaflegu greinina hefur ekki hugmynd um andsvarið sem hann fékk.

  Þessi nýjung sem er að gerjast í maganum á Bjarna ætti því að auka flæði milli manna, þannig að skeytin geta flogið hraðar og oftar á milli (hvort það er til góðs eða ills fer eftir þeim sem senda skeytin).

  Þetta er fínasta hugmynd, en spurningin er sú hvort að Egill (NagPortal) og Bjarni (RSS) ættu ekki að taka höndum saman, eða að minnsta kosti ráðfæra sig við hvorn annan. Ég held nefnilega að XML-hugmyndin sem ég potaði í magann á Agli muni spara þeim báðum erfiði þar sem þeir eru báðir (kauplaust og af eigin hvöt) að spöglera í að bæta þjónustur sínar.

  Það er ekki spurning að framtak þeirra beggja gerir íslenskt vefsamfélag mun virkara en það hefði ella verið. Þeir sem að eru að nöldra í þeim ættu að hafa það í huga, þetta er ókeypis þjónusta sem að kostar þá sem veita hana vinnu. Virðið það og allir lifa farsælir til æviloka. Vonandi.

  Uncategorized

  Ofsatrú

  Hef verið að glugga í það sem að menn hér á landi hafa skrifað um þáttinn sem var í gær um alþjóðavæðinguna. Ofsatrúarmennirnir hafa greinilega tekið upp trúarrit sín og berja nú með öllu afli í allt sem að segir að gallar geti hugsanlega fylgt þeirra skoðun.

  Ofsatrú er alltaf af hinu illu, hvort að trúin byggist á fornum trúarritum, nýjustu hagfræðiritgerðum, ljótum siðum sem hvergi er að finna á blaði eða öðru skiptir engu máli. Sá sem trúir í blindni á einhverja eina skoðun er fátækur maður, og ófarsæll. Engin ein skoðun er hin algilda skoðun, lífið byggist ekki á því að finna hina réttu skoðun og fylgja henni út í gegn án þess að horfa í kringum sig.

  Ofsatrú á markaðinn er nú að kalla yfir okkur myrkar aldir, alveg eins og ofsatrú á smásögubók kallaði myrka öld yfir okkur fyrir árhundruðum síðan. Dagur upplýsingar þarf að koma aftur, vonandi fyrr en síðar.

  Áhugavert:

 • Íslensk netgoðsögn?
 • George Soros
 • Lénsveldið Hyundai
 • Uncategorized

  Alþjóðavæðingin

  Mjög góður fréttaskýringaþátturinn á RÚV áðan, þar sem margverðlaunaði fréttamaðurinn John Pilger fjallaði um hnattvæðinguna, og hvernig hún virkaði í raun (sem er talsvert ólíkt því sem að okkur er selt af framámönnum hennar).

  Mig langaði að verða blaðamaður á yngri árum, og gera svona alvöru fréttaskýringar. Alvöru fréttir kafa undir yfirborðið, alvöru fréttir eru ekki upplesning á formlega orðuðum fréttatilkynningum sem ekkert segja né margt af því sem okkur er borið á borð.

  Mig grunar að sögubækurnar muni fara svipuðum orðum um seinni hluta 20. aldar og (vonandi ekki meira en) fyrri hluta 21. aldar og finna má í okkar sögubókum um miðaldirnar, lénsaldirnar og mátt hins sterka (ríka). Við erum ekki á réttri leið ennþá, og undanfarið ár hefur það orðið áberandi.

  Áhugavert:

 • Var þetta þota?
 • Moonstruck
 • Uncategorized

  GoPro karfa

  Eftir 6 mánaða hreyfingarleysi fór ég í dag aðeins að sprikla í GoPro-Landsteina körfu. Síðast þegar ég mætti í körfu minnir mig að það hafi verið í ÍR-húsinu gamla á móti Landakoti. Það hús er víst löngu flutt þannig að nokkur ár eru síðan ég snerti síðast körfubolta. Við vorum 8, þar af tveir Jóh-arar, Kiddi Jóh er hjá Landsteinum og greip Gumma Jóh með sér. Skondið að hitta menn sem að maður hefur séð myndir af og veit svona eitthvað um, þeir voru reyndar minni en ég hélt :p

  Ég var auðvitað farinn að spýja galli eftir 10 mínútur, og eftir klukkutíma var ég farinn að finna fyrir því að blaðra væri að myndast, setti innleggin ekki nógu vel í. Hittnin var auðvitað engin fyrsta hálftímann, nokkrir “airballs” flugu en undir lokin setti ég nokkrar niður í röð, þó ekki væru þær fallegar. Notaði í fyrsta sinn í körfubolta íþróttagleraugun mín, virkuðu ágætlega en verst hvað það fer að svíða undan þeim þegar maður svitnar. Skárra þó en darraðadansinn sem fylgir því að setja linsurnar í.

  Þegar ég kom heim hóstandi eins og venjulega eftir átök þá benti Sigurrós mér á að ég væri kannski með áreynsluasma. Það útskýrir margt. Spurning um að fara að panta tíma og tékka á því.

  Ilsig, beinhimnubólga, staurblindur og með áreynsluasma. Ég var fæddur til að vera íþróttastjarna 🙂

  Uncategorized

  Eyðimerkurblómið

  Sigurrós tók um síðustu helgi mynd af framtíðarheimilinu okkar, ég skannaði hana svo inn í gær. Eins og sjá má er Sigurrós miklu betri ljósmyndari en sá sem tók hina myndina.

  Ég vissi það, Björgvin er of forfallinn til þess að hætta.

  Las í kvöld bókina Eyðimerkurblómið, sögu Waris Dirie. Áhugaverð bók um stúlku sem hefur átt óvenjulegt lífshlaup. Frásagnir hennar af umskurði kvenna í Sómalíu eru skuggalegar, á hverjum degi er áætlað að 6.000 stúlkubörn séu umskornar. Verkfærin til þessara limlestinga eru ryðguð rakvélarblöð, steinar og stundum eru tennur notaðar (snípur og skapabarmar bitnir af…). Eftir þessa slátrun á líkama þeirra tekur svo ekki betra við, þær eru saumaðar saman þannig að aðeins pínuhola verður eftir, sem að leyfir aðeins einum dropa í einu
  að falla út um, hvort sem það er tíðablóð eða þvag. Ég gæti ritað margt fleira um þetta, en geri það ekki núna. Maður hefur lengi vitað af þessum pyntingum (sem að nota bene er hvergi minnst á í neinu trúarriti að eigi að gera, heldur eru þetta siðir sem karlmenn hafa komið sér upp til þess að tryggja þess að konur þeirra séu ekki að eignast börn annara manna (að barnsburði afloknum eru þær saumaðar aftur saman.. ef þær hafa lifað allt að framan af það er)), en að lesa frásögn um þetta í fyrstu persónu varpar enn betra ljósi á þetta. Waris var víst hérna á landinu um daginn, barátta hennar gegn umskurði mun vonandi bjarga lífum og heilsu margra margra barna í Afríku, en það er langt í land.

  6.000 á dag. Í dag voru 6.000 stúlkur (margar 4 ára, margar 10 ára og allt þar á milli) limlestar, sýking hefur þegar tekið sér bólfestu. Á morgun verða kannski 1.000 þeirra látnar, á hinn kannski 500 aðrar og svo koll af kolli. Ef að helmingurinn lifir af þá er það kraftaverk, sé litið á aðfarirnar.