Author Archives: Jóhannes Birgir

Póstlistar hikstuðu, Windows læstist

Póstlistar sem eru hjá betra.is duttu niður í sólarhring eftir að rafmagn fór af og póstlistaforritið keyrði ekki sjálfkrafa upp aftur. Þetta hefur verið lagað.

Annars fór heimilistölvan mín endurbætta illa út úr þessu rafmagnsflökti… nú hangir hún í 20 mínútur eftir að MUP.SYS skráin er lesin inn áður en hún hleypir manni inn í Windows… um daginn þurfti ég að hringja út til Microsoft til að endurnýja windows-leyfið mitt af því að ég skipti nokkrum diskum á milli kapla í tölvunni… þar áður þurfti ég að setja Windows upp aftur þar sem ég uppfærði móðurborð og örgjörva, sem leiðir til bláskjás í Windows en Linuxinn hins vegar var voða svalur á því og sagði að það væri ekkert mál.

Hvaða Microsoft-snillingi datt í hug að gera stýrikerfið svona ofboðslega tengt vélbúnaðinum, að það keyrir ekki einu sinni upp ef skipt er um móðurborð…

Ragna Björk Jóhannesdóttir

Heitir barnið eftir ömmum sínum. Í daglegu tali Ragna Björk, notum tvínefnið. Sigurrós er með myndir og fleira í sinni færslu .

Nýr póstþjónn

Nú um miðnættið, eftir að hafa brunað í apótek til að kaupa þar Minifom fyrir gubbandi dóttur okkar, skipti ég loks á milli póstþjóna.

Notendur þurfa að gera eina breytingu í póstforriti sínu, sjá leiðbeiningar hér að neðan.

Enn fremur fá sumir þeirra ný lykilorð þar sem ég man ekki þau gömlu og er ekki með þau skrifuð niður (eins og vera ber). Í fyrramálið, laugardagsmorgun, sendi ég út SMS til allra póstnotenda betra.is með nánari upplýsingum.

Kerfið gæti hikstað aðeins fyrstu dagana, en enginn póstur ætti að týnast og gamli póstþjónninn er enn í gangi með þau gögn sem þar er að finna. Ég vakta kerfið og athuga hvernig það reynist.

Breyting vegna nýs póstþjóns
Breyta þarf innskráningarnafni, fyrir aftan það bætist nú við @betra.is. Til að breyta þessu í Thunderbird er eftirfarandi gert:

Póststillingar 1
1. Hægri smellt á efstu línuna í hliðarglugganum (þarna gæti staðið Local Folders eða netfangið þitt) og valið að fara í Properties.

Póststillingar
2. Farið í Server settings, og þar bætt við @betra.is í reitinn eins og sést. Aðvörun sem birtist skiptir ekki máli. Smellið á OK hnappinn.


3. Nú getið þið náð í póstinn ykkar, smellið á þann takka, nú birtist gluggi sem vill fá lykilorðið ykkar. Skrifið inn það sem þið fenguð í SMS og hakið við Use password manager svo þið þurfið ekki að slá það inn í hvert sinn.


4. Ef að heitið birtist undarlega í hliðarvalmyndinni (til dæmis tvisvar @betra.is) þá lagið þið það með því að hægri smella aftur á, velja Properties, og breyta þessari línu sem hér sést, takið út aftari @betra.is textann.

 

ATHUGIÐ!
Þeir sem athuga póst fyrir fleiri en eitt @betra.is netfang þurfa að gera þetta fyrir hvert netfang, ferlið er nákvæmlega það sama, nema hvað hægri smellt er á viðeigandi netfang.

Stúlka Jóhannesdóttir

10. mars 2007 klukkan 15:31 fæddist okkur dóttir.

Skilja má eftir kveðjur á síðu móðurinnar, þessa dagana einbeitum við okkur að því að aðlagast þessu nýja fjölskyldumynstri og koma skikk á venjur dótturinnar.

Sagan í kringum fæðinguna kemur síðar á vefinn ásamt fleiri myndum og hvað eina!

Uppfærsla á póstþjóni

Nú um helgina er ég að uppfæra póstþjóninn sem þjónar betra.is og skyldum lénum.

Búast má við smá hiksti, ef pósturinn þinn er geymdur hér og er enn í fýlu á sunnudagskvöldið, þá veistu hvern á að hafa samband við. 

Sýkn nema játað sé

Væging dóms yfir barnaníðingi um daginn vakti skiljanlega athygli og reiði almennings. Lögfróðir menn æstu sig þó allra minnst enda var þarna verið að “jafna refsinguna” við aðra dóma yfir barnaníðingum.

Lögfróðum mönnum finnst fátt sjálfsagðara en að lagabókstafurinn sé hunsaður þegar dómar eru kvaddir upp, í fyrndinni var kveðinn upp léttur dómur fyrir þungar sakir en dómarar nútímans eru ekki menn eða konur til þess að gefa ný fordæmi sem sýni að þessi háttsemi sé litin alvarlegri augum nú en hún var af dómurum fyrri tíðar sem fannst níðingsskapur jafnast á við litlar sakir.

Menn gripu andköf þegar Morgunblaðið birti myndir þessara sporgöngumanna sem milduðu þegar vægan dóm í hlægilegan dóm. Jón Steinar var ekki meðal þeirra en áður en hann varð dómari þreyttist hann aldrei á að fara með möntruna um að sömu glæpum ætti að fylgja sama refsing, sem hljómar eðlilega.

Þar gleymist hins vegar að taka með í reikninginn níðingsvinina í dómarasætum fyrri tíma sem létu ofbeldismenn, níðinga og nauðgara sleppa gífurlega létt.

Dómarar nútímans eru svo bleyður sem eru ófærar um að setja ný fordæmi. Eitt fordæmi um aldir alda. Þingmenn geta lengt refsirammann eins og þeim lystir, það hefur ekki áhrif á dómarana… nema að örlitlu leyti, meðaldómur er nú 1 ár í stað 2, eftir að refsiramminn fór í 12 ár. Kannski náum við 3 ára meðaldómi með því að hækka refsirammann í 24 ár!

Virðing dómstólana var dregin fram af þeim sem hneyksluðust á myndbirtingu Morgunblaðsins.

Virðing dómstólanna ræðst af verkum þeirra, virðingin fyrir þeim er ekki mikil þegar níðingar, nauðgarar og ofbeldismenn varla tylla tám í réttarkerfinu.

Ekki hjálpar til þegar dómstólar viðurkenna ekki lengur að þýfi sé nóg til að sanna sekt, samanber eftirfarandi af Textavarpinu áðan:

Karlmaður var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur af 2 þjófnaðarákærum þótt megnið af þýfinu fyndist í bíl hans nóttina sem því var stolið.

Hann var líka ákærður fyrir að hafa stolið 8 flatskjám úr gámi við verslun. Hann var handtekinn um nóttina með skjáina í bíl sínum en ekki þótti sannað að hann hafi stolið þeim.

Þýfi hefur því greinilega horfið af listanum yfir gild sönnunargögn.

Orðabókarárás

Ekki var ég fyrr formlega hættur sem starfsmaður Landsbókasafns Íslands en ég varð fyrir orðabókarárás.

Orðabók þessi var reyndar rafræn og náði að smeygja sér inn á gamalt og ónotað notandanafn á vefþjóninum og setti þar upp veiðisíðu sem þóttist vera Bank of America. Þetta hékk inni í um 12 tíma eða þangað til aðili út í bæ lét mig vita af þessu.

1. janúar fór því í það að henda þessu og fylgifiskum þess út, finna hver stóð fyrir þessu og koma þeim tölum áleiðis og svo að loka og læsa öllu sem hægt var til að tryggja að svona árás, og aðrar óskyldar, nái ekki í gegn aftur.

Næsta mál á dagskrá er að aðstoða heimilisfólk Betrabóls við að minnka fjölda ruslpósta sem læðast inn í gestabækur og orðabelgi þeirra. Fjölmargar tölvur eru á bannlista en það dugir ekki til, né að nota tilvísunartækni til að athuga uppruna sendinga. Næsta skref er því að leggja fyrir gestaþrautir fyrir notendur og vona að ruslvélarnar séu illa að sér í þeim.

Louis og Johnny

Maður vissi það ekki að Louis Armstrong hefði verið eitthvað í kántrí-tónlistinni. Stutt myndband segir frá þessu og í seinni hluta þess má sjá Johnny Cash og Louis Armstrong að sprella saman.

Ekki sitja beinn í baki!

Það er svo að maður hlustar oftar á líkama sinn en einhver boð og bönn. Ég hef stundað það að sitja langt í frá beinn í baki, og nýlegar niðurstöður staðfesta það að það er slæmt að sitja beinn í baki !

Stellingin sem ég hef verið í er mun betri fyrir líkamann, hættið nú að segja börnum að sitja bein í baki!

Endurfundirnir

Í nóvember mætti ég á endurfundi grunnskólahópsins míns. Þarna voru 80% meðlima Dead Sea Apple sem og fréttamaður, barnalæknir, húsmæður, gröfumaður, grafískir hönnuðir, tölvuleikjahönnuður og aðrir.

Skemmtileg kvöldstund og ég var hás af tali, lét mig svo hverfa þegar stefnan var sett á reykmettað veitingahús, astminn nógu slæmur í borgarloftinu þó svo ég tefli ekki í tvísýnu og reyni við reykjarmökk líka.