Forritaði í dag aðeins í rök-forrit-unar-málinu Prolog og fannst það æði. Margar fyrirspurnir sem SQL ræður illa við sem hægt er að útfæra í þessu. Verandi veikur fyrir gagnagrunnum var þetta auðvitað sá flötur sem ég sá á þessu fyrrum óskabarni allra forritara.
Skaust til tannsa til að láta taka myndir af mér, endajöxlunum reyndar. Grunur minn var staðfestur, annar neðri endajaxlinn sver sig í ætt við þá efri sem komu út með miklum harmkvælum og brutu meðal annars hluta kjálkabeinsins. Sá fyrri reyndist þung raun fyrir tannlækninn og kom út í þremur hlutum. Sá seinni var ævintýralegri, brotnaði úr honum í þá mund sem við ætluðum að fara til Selfoss til jólahalds og ég fór á neyðarvakt tannlækna að kveldi Þorláksmessu. Sjá má myndir af þessum hnullungi hér og hér. Á síðari myndinni má sjá tannræturnar þrjár gægjast upp úr kjálkabeinsflísinni sem er orðin dökk og blóðsprungin.
Röntgenmyndir dagsins í dag leiddu sumsé í ljós að vinstri endajaxlinn niðri er með tvöföldum vinkli en sá hægri er með þeim saklausari þó vel boginn sé. Mér hefur því verið vísað til sérfræðinga til að leggja á ráðin þar með næstu skref. Ég bíð spenntur eftir því að taka mynd af enn einum harðjaxlinum og smella hér á netið til að hrella þá sem eru með ósköp óspennandi og venjulegar tennur. Ég er víst með tanngarð úr ættinni hans Dalla afa þar sem jaxlar eru sko alvöru harðjaxlar.