Morgunblaðið hefur tekið smávegis útlitsbreytingum undanfarið, mjög svo módellað eftir erlendum fyrirmyndum, einkum frá Bretlandi sýnist mér.
Bresku blöðin eru misvönduð, The Sun og The Daily Star eru svona í tæpari kantinum eins og sést á viðbrögðum þeirra við því þegar að ungur afbrotamaður vann 800 milljónir í lottói. The Sun vill láta banna þátttöku afbrotamanna í lottóum sem er bara brandari.
Góðar fréttir fyrir sjúklinga, á næsta ári verður sett efni á markað sem unnið er úr kannabis. Efnið er víst með þeim róandi og verkjaeyðandi áhrifum sem kannabis hefur, en með lágmarks vímueiginleikum.
Í Fréttablaðinu í dag fer Kristín Helga Gunnarsdóttir með ótrúlega staðleysu þar sem hún tengir saman voðaverk og tölvuleiki. Hún bítur höfuðið af skömminni með því að segja að sálfræðingar og sérfræðingar hafi fundið “beina tengingu á milli morða og ofurhetja kvikmynda og tölvuleikja”. Fyrir það fyrsta þá hef ég aldrei séð rannsókn sem að kemst að þessari niðurstöðu, margar hafa farið af stað einmitt til að sanna þetta en aldrei náð því. Í annan stað þá er eðlismunurinn á kvikmyndum og tölvuleikjum geysimikill, annað er óvirk þátttaka en hitt er virk þátttaka þar sem þú berð ábyrgð gagnvart samfélaginu (öðrum spilurum) og verður að standa með verkum þínum (þeir sem eru með leiðindi og læti eru bannaðir oft).
Tengingar hennar svo við hryðjuverkamenn og hermenn er fádæma ósmekkleg og ekki sæmandi manneskju sem þykist vera komin til vits og ára. Nú er bara að grafa upp netfangið hennar og senda henni bréf sem varpar ljósi á villigötur hennar og beinir á betri braut.