Endajaxla-taka 1

Skondið að Óli Njáll nefni mig og heimsóknir Kana í sömu andrá, mig grunar nefnilega að ég eigi kanaheimsókn hjá honum á samviskunni. Í dauðum tíma uppi á Velli skaust ég nefnilega á Nagginn og þaðan á Óla, naskef.navy.mil hefur þá komið inn á listann hans. Ég biðst afsökunar ef það kom illa við hann.

Fór í dag í mína fyrstu endajaxlatöku. Þeir eru allir komnir upp greyin en mislangt þó, sá efri hægra megin er komin allra jaxla lengst niður, og er nú það sem kallað er siginn. Það veldur því að sá neðri hægra megin kemst ekki eins langt upp og hinir jaxlarnir, honum er bara ekki hleypt lengra. Aðalefni dagsins í dag í tannmálum mínum (sem eru jafn æsispennandi og þetta hljómar) var þó sá efri vinstra megin. Hann var orðinn skemmdur greyið enda illa hægt að bursta kokið á sér, þar sem hann var næstum því. Í fyrstu umferð gekk ekki betur en svo að krúnan brotnaði af, og því var orðið aðeins verra í efni en áður. Eins og skiljanlegt er var takið orðið langtum minna en eðlilegt er. Eftir hálftíma glímu og boranir tókst að splitta restinni í tvennt, og upp kom þessi líka svakalanga og sveigða rót. Þá var bara smá bútur eftir sem að tannsi hélt að væri nú lítið mál. Eftir 10 mínútna glímu urðum við báðir að fallast á það að þessi litli bútur væri kannski efsti hlutinn á annari rót. 5 mínútum eftir það náðist hún svo upp, þessi var með krók á endanum. Tannsi sagði að þetta hefði ekki verið alveg það versta sem hann hefði lent í, en “Þetta er meiri andskotinn” (bein tilvitnun) þýddi að þetta væri í verri kantinum.

Ekkert varð af því að kíkja á fleiri endajaxla núna, 70 mínútna átök og 90 mínútna seta voru búin að þreyta okkur um of. Mér líður þokkalega eftir þetta, allar hryllingssögurnar af endajöxlum eru líka aðallega vegna þeirra sem að í neðri kjálka eru.

Í kvöld leit pabbi við og við settum upp hitt og þetta í baðherberginu. Sturtan að verða tilbúin, smá innkaup á morgun ættu að vera nóg til að klára dæmið.

Áhugavert:

  • Sandals and Shrapnel Dot Attack Site
  • Comments are closed.