Mannanöfn

Ég og Ævar dældum íslenskum mannanöfnum inn á íslensku Wikipediuna fyrir rétt um ári síðan. Þar settum við bæði inn þau nöfn sem fundust í þjóðskrá sem og öll «lögleg» íslensk nöfn.

Mannanafnanefnd hefur vakið athygli með ýmsum undarlegum úrskurðum í gegnum tíðina. Nú hafa fjórir þingmenn lagt fram frumvarp þar sem nefndin er felld niður og deilumálum þess í stað vísað til dómsmálaráðherra. Hvort þetta er til bóta er ég efins um, dómsmálaráðherra er líklega önnum kafinn (í að byggja up hersveit og leyniþjónustu þessa dagana?) og þessi mál varla með mikinn forgang á þeim bænum.

Spurningin er af hverju lögleiða þurfi nöfn, ef að má skíra Kaktus Ljósálfur (eins og Sigurrós komst að og kjamsar á) hví ættu stjórnvöld að skipta sér af öðrum nöfnum?

Fyrrum skólasystir mín hún Katrín Júl lagði svo fram fyrirspurn um mál sem er algjört hneyksli. Þjóðskrárkerfið er nefnilega ævafornt og getur ekki geymt nöfn sem eru lengri en 26 bókstafir. Að tæknilegar takmarkanir fornaldartíma í gagnagrunnsfræðum séu enn við lýði á 21. öldinni gerir mann alveg rasandi.

Comments are closed.