Stórafmælið

Ragna, sem ég hef kallað tengdó í 5 ár þó svo að það hafi fyrst orðið lögformlegt í sumar, varð sextug um síðustu helgi og bauð af því tilefni dætrum og tengdasonum í mat og gistingu á Grand Hóteli, pakkinn nefnist Grand Rómantík.

Smá byrjunarhnökrar við upphaf borðhalds en yfirþjónninn braut heilann og bjargaði afmælinu með því að færa okkur frá þéttsetnum bar og margförnum gangvegi að arineldinum í mun notalegri aðstöðu.

Maturinn var hnossgæti og þjónustan fín, laukfælni mín þýddi að ég fékk örlítið öðruvísi rétti en allir þóttu frábærir, lambið var einstaklega gott. Rauðvínið var svo flauelsmjúkt og einstaklega bragðgott, ekki minnsta vínandakeim að finna. Þetta vín virðist ekki fást í ÁTVR sem er miður. Hef auga með því hvort að Simon Pemperton, shiraz / sangiovese frá Ástralíu birtist þar einhver tímann í framtíðinni.

Comments are closed.