Bulldal

Já, eitthvað er Halldór Blöndal að misskilja synjunarákvæðið. Hann telur synjunarvald forseta arfleið frá Loðvíki 14. eða álíka. Talar um að Alþingi sé æðsta stofnun þjóðarinnar en gleymir að þjóðin er æðri Alþingi. Segir meira að segja að þjóðaratkvæðagreiðsla hefði átt að fara fram en snýr sér svo í hringi og talar um prósentutölur og skort á lögum.

Mér finnst nokkuð djarft af manni sem er titlaður forseti Alþingis að reyna að varna því að lýðræði ríki í landinu nema á fjögurra ára fresti. Ef ekki eru Alþingiskosningar má þjóðin víst éta það sem úti frýs og ekki segja skoðun sína á því sem þingmenn gera.

Ef þingmenn ganga á bak orða sinna, brjóta stjórnarskrána og gera algjöran skandal, þá er það bara þjóðinni að kenna því að hún kaus þessa aumingja á þing nokkrum árum eða mánuðum áður. Hún verður bara að sætta sig við það að kjörnir þingmenn gangi á bak orða sinna, möglunarlaust.

Það held ég að þessi ríkisstjórn verði tekin fyrir í sögunni sem dæmi um siðlausa stjórn, efast um að Davíð og félagar nái að endurskrifa alla söguna þó þeir reyni sitt besta.

Gott að láta hugann aðeins reika frá þessum mannleysum á Alþingi og til fornra framtíðardrauma um farartæki í nútímanum og framtíð.

Comments are closed.