Monthly Archives: December 2002

Uncategorized

Fallinn!

Það hlaut að koma að því, ég hef ekki fallið í fagi síðan 1995 þegar ég féll í lögfræði. Það fall setti stúdentsprófið í hættu, varð að ná endurtektinni eða útskrifast ella ekki fyrr en námskeiðið væri endurtekið ári síðar.

Ég og Björn Þór (hann hafði ekki náð að mæta í prófið sökum árekstra við annað próf) settumst því niður og í þrjá daga sökktum við okkur ofan í kennslubækurnar 18 tíma á dag. Hef aldrei fyrr né síðar tekið þvílíka lærdómstörn og það bar árangur, fékk 9 í endurtektinni og stúdentshúfan því upp á réttum tíma.

Nú í dag fékk ég sumsé fréttir af því að hafa fallið í Java-kúrsi annarinnar. Mér gekk afar illa á prófinu þannig að það mátti búast við þessu. Að afloknum lestri jólabókanna verður því rauði hnullungirnn (bókin sem prófað er úr) dreginn fram og lesinn fram yfir áramót (endurtektarprófið er fyrstu vikuna í janúar).

Það eru fleiri sem að eru óvanir snjóleysi á þessum tíma árs, Winnipeg sem er þekkt fyrir mikinn kulda og snjó á veturna hefur nú orðið að fresta snjókarlaátaki sökum snjóleysis. Eru þetta gróðurhúsaáhrifin eða er bara reglubundið hlýindaskeið á næsta leiti?

Gildi jólanna hjá nútímamanninum er æ meira að snúast um hvíldina sem þessir frídagar gefa og tækifærið til að hitta vini og ættingja við notalegar aðstæður. Jólagjafir eru að missa vægi sitt sem betur fer, vafalaust þó efst á lista yngstu kynslóðarinnar. Hraðinn og lætin í nútímalífi geta varla haldið áfram með sama offorsi, held að stór hluti minnar kynslóðar sé farinn að meta líf sitt meira en peningatöluna á launamiðanum og stærð jeppans.

Talandi um hraða, hraði netsins kemur nú bágstöddum til hjálpar og lagar skattaskýrslur fyrirtækja með nýju veftóli sem að kemur umframmat á rétta staði. Gott framtak.

Uncategorized

Flóðgátt

Dagurinn byrjaði á heimsókn til tannlæknisins þar sem að sett var fylling í stað þeirrar sem ég týndi fyrir nokkrum vikum. Ég virðist einkar laginn við að týna fyllingum, kjafturinn stoppar kannski of sjaldan? Hann horfði vonaraugum á þessa þrjá endajaxla sem eftir eru og lýsti yfir vilja sínum til að fara að kippa þeim út. Spurning hvort jólagjafirnar hans séu í dýrari kantinum þetta árið?

LÍN lækkaði námslánin hjá mér, ég vann mér inn 150 þúsund kalli meira en ég áætlaði þannig að þeir lækka lánið um tæpar 80 þúsund krónur samtals yfir árið.

LÍN er grín. Það er ekki séns að vinnandi einstaklingar geti tekið sér námsleyfi í þessi þrjú ár sem að flestar Bachelor-gráður krefjast ef þeir ætla að treysta á LÍN til framfærslu. Það nær enginn að safna saman digrum sjóðum þegar verðlagið er eins og það er og skattarnir háir og margfaldir. Bankalán eru svo auðvitað beinasta leið til gjaldþrots, okurvextir innheimtir hér á landi sem eru óþekktir annar staðar í heiminum nema hjá Mafíumönnum í bíómyndum.

Sá að menntamálaráðherra íhugar lagasetningu (lögin leysa allt, gamalt mottó stjórnmálamanna) vegna aðgengis barna að tölvuleikjum. Vonandi að þetta fari ekki í neitt rugl, tölvuleikir ættu allir að vera löglegir en þeim á að fylgja aldursstimpill og foreldrar ættu að fara eftir honum. 6 ára börn að spila drápsleiki finnst mér meira en á tæpasta vaði og sýna bara skilningsleysi foreldra.

Svo virðist að þegar fleiri en tveir tjá sig um eitthvað málefni á netinu að þá finnist öðrum að “allt sé á suðupunkti” og “allir að tala um þetta”. Mér hefur aldrei fundist þrír vera margmenni þó að þannig orðatiltæki sé til á ensku (líklega hugsað út frá hugtakinu par og hvað það getur gert saman þegar þriðji aðili er ekki viðstaddur?).

Ég hef reyndar velt því fyrir mér að setja skilmála þess efnis á vefinn að “ljósvaka- og prentmiðlum er óheimilt að vitna í efni á þessum vef án samþykkis þess er þetta ritar”, netmiðlum væri hins vegar auðvitað frjálst að gera það. Ég hef heyrt af því að vondur grínisti hafi lesið upp færslu hjá mér fyrr á þessu ári í útvarpi, það er ekki miðill sem ég hugsaði mér að fara í enda eðli sínu hraðsoðinn og ónákvæmur. Efnistök í sjónvarpi, útvarpi og á dagblöðum einkennast af hraðsoðnum fullyrðingum sem sjaldnast standast nánari skoðun en svona alhæfingar hljóma víst betur. Ég vil sem minnst af svona fjölmiðlun vita og hef því íhugað að setja þessa skilmála á vefinn, hægt væri tæknilega að leyfa ekki að lesa efni nema að samþykkja skilmálana, þá ætti lagalega hliðin vera komin í lag hvað mig varðar.

Hversu margir ætli endist að lesa þetta mikinn texta? Mér hefur nefnilega sýnst að allt sem nær yfir fleiri en 3 línur sé “of mikill texti, ég nennti ekki lesa það” eins og sjá má í athugasemdum við greinar hér og þar á netinu. Stuttlæs kynslóð fædd?

Reykvíkingar eru orðnir þreyttir á snjóleysinu hér fyrir sunnan, meira að segja í Þýskalandi snjóar duglega. Snjórinn reyndar kemur sumum óþyrmilegar á óvart en öðrum.

Frakkar eru ekki langt á eftir Íslendingum þegar kemur að málverndunarstefna. Þeir hafa þó líkt og við skrifstofublækur sem að eru ekki alveg í tengslum við samfélagið og reyna að koma undarlegum orðum að í stað annara sem þegar hafa náð almennri útbreiðslu.

Mexíkómenn eru með nýstárlegt framtak í löggæslumálum, kúrekalöggur sem verða mælandi á enska tungu og sögulega þekkingu á hverfinu sem þeir vakta.

Uncategorized

Langur skóladagur

Mætti rúmlega 09:00 í skólann í dag en er nú á leiðinni heim klukkan 22:00 eða svo. Fyrir utan tvö stutt matarhlé hefur dagurinn farið í að forrita í honum Krösusi, eins og ég nefndi verkefnið okkar og var samþykkt af öðrum hópmeðlimum.

Chihuahuas eru minnsta hundategund í heimi minnir mig, það er því óvenju heimskulegt að rugla þeim saman við bolabíta.

Frekar óvenjuleg afmælisveisla, það er fínt að snáðinn veit hvað hann vill verða í framtíðinni.

Þetta er óvenjuleg jólasaga með góðum endi, hlutabréfamiðlari í hlutverki góða kallsins sem er auðvitað frekar óhefðbundin hlutverkaskipan.

Þjóðverjarnir mega eiga það að þeir kunna að mótmæla, Schröder er nú að fá bílfarma af skyrtum og lag um kosningasvik hans er á toppnum í Þýskalandi þriðju vikuna í röð.

Uncategorized

Vaknað mjúkur

Verkefnið gengur bærilega, vefgrindin komin upp ásamt DAOgrindum, helstu EJB-baunum og servlettum. Lítur þokkalega út fyrir föstudaginn þegar Beta-skil fara fram. Þá eigum við að sýna að forritið virki í aðalatriðum, þeir hnökrar sem finnast þá eiga að vera mjög léttvægir og auðleysanlegir fyrir sjálfan skiladaginn á þriðjudeginum þar á eftir.

Stefán Pálsson varpaði fram hugmynd nú um daginn varðandi okkur stuðningsmenn enskra liða sem að styðjum ekki stóru liðin. Áhugaverð hugmynd, held að stórveldið (já!) Sheffield Wednesday sé það virkasta hér á landi af þessum “minni” liðum, a.m.k. eru öll úrslit uppfærð samdægurs á vef stuðningsmanna þess.

Ætli maður styðji ekki þetta framtak með ráð og dáð, annars munu engir litir sjást aðrir en rauður hér á götum úti (litir þriggja sigursælustu liðanna í Englandi).

Ökufáviti dagsins er ökumaður TJ 679 sem fór yfir 3 rauð ljós á Sæbrautinni og ók á líklega 140. Þetta er lítill gulur bíll og þó nær bílstjórinn rétt upp fyrir stýrið. Ætti að kippa svona geðsjúklingi af götunni hið snarasta.

Haukur bróðir er 26 ára í dag. Of hár aldur fyrir litla bróður! Það þýðir að ég sé enn eldri.

Áhugavert:

  • Knattspyrna gefur von
  • Uncategorized

    Jólahlaðborð

    Á mig rann æði í gær þegar ég fór að versla í matinn og ég festi kaup á “Ben and Jerry’s Chocolate Fudge Brownie” ís. 800 krónur fyrir pínulítið box. Það varð reyndar drýgra en ég bjóst við þar sem þetta var einum of mikið súkkulaði í þessu fyrir mig, fékk mér bara tvær litlar skálar.

    Fórum í kvöld á jólahlaðborð Hugvits. Það var haldið á Hótel Valhöll á Þingvöllum.

    Þetta hlaðborð fær falleinkunn, það á reyndar við ramman reip að draga sem er hlaðborð í Perlunni í fyrra en tekst þó að fella sig sjálft. Þegar komið var á staðinn vantaði herðatré í litla fatahengið. Þjappað var á borðin þannig að við sátum eins og sardínur í dós og maður þurfti að beita áður óreyndum vöðvum í að skera matinn og pota honum í munn sér. Þrengslin þvílík og svo ætlaði hitinn að drepa mig. Sessunautar mínir spurðu mig meira að segja hvort ég væri að deyja úr hita þar sem það sást greiðlega á mér að svo var. Síldarþjöppun, ofboðslegur hiti og raki, þokkalegur matur, vondir eftirréttir og la-la rauðvín.

    Þegar skemmtiatriðin hófust svo (ein söngkona og maður á hljómborði) var mér öllum lokið. Sem betur fer þurftum við ekki að bíða eftir rútunni sem fer ekki fyrr en um eittleytið í nótt, þau Arnar, Konni og Fjóla komu á einkabíl og skutluðu okkur heim og björguðu þar með verulegum hluta geðheilsu minnar (sem að er mjög viðkvæm fyrir miklum hita, sígarrettureyk og vondri tónlist).

    Sjá einnig færslu Sigurrósar um þetta kvöld.

    Uncategorized

    Vinnuaðstaða bætt

    Fór í dag og festi kaup á Chief skrifstofustól frá Rúmfatalagernum. Aðeins um 8.000 krónur fyrir þennan fína stól. Hann er enginn Aeron en 14 sinnum ódýrari þannig að það sleppur.

    Keyrði fram hjá Bílanausti áðan og sá þar mesta samansafn forstjórajeppa sem ég hef séð. Einhver gleðskapur væntanlega í gangi.

    Uncategorized

    Enn eitt lénið

    Lénið StarWars.is er nú komið á vefþjóninn minn. Ýmsar hugmyndir í gangi. Ekkert komið í gang. Reyndar ekki í fyrsta sinn sem að ég hef puttana í þessu léni, henti upp smá fréttasíðu þegar að lénið var fyrst skráð fyrir mörgum árum.

    Tilvitnun dagsins:
    “matters not that Padilla is a United States citizen captured on United States soil” (src)

    Þarna er sumsé bandarískur ríkisborgari handtekinn í Bandaríkjunum fyrir hálfu ári síðan. Bush undirritar tilskipun þannig að hann er gerður að óvini ríkisins og settur í umsjón hersins þar sem hann hefur verið síðan án dóms. Þau eru lítil þessi mærðu réttindi ef að þetta er hægt, ein skipun frá forsetanum og dómstólar gerðir óþarfir. Flækjast örugglega bara fyrir.

    Það er ekki að ManU mönnum að spyrja, nú vill rekstrarstjóri þeirra fækka atvinnuliðum í Englandi niður í 40. Hinir mega éta það sem úti frýs, þetta er gömul saga frá ManU en sjaldan verið orðað jafn nákvæmt og núna. Vissulega eru mörg félög í fjárhagskröggum en það er vegna vitleysunnar sem fór í gang, að borga mönnum tugmilljón króna laun á viku! Enginn rekstur stendur undir því, hvort sem það er knattspyrnulið, pizzastaður eða fjárfestingabanki. Áður en geðveikin fór í gang lifðu hins vegar öll deildarliðin 92 ágætis lífi.

    Annan daginn í röð kemur sjálfsmorð við sögu, núna er það ung listakona sem að drepur sig á listsýningu en það tekur sinn tíma fyrir alla að átta sig á því að líkið sé alvöru og ekki hluti af gjörningi.

    Þessir glæpamenn eru magnaðir, 15 manna hópur í Brasilíu réð ekki við fenginn sem voru tveir hraðbankar. Þeir redduðu sér því vinnuafli með því að ræna strætisvagni og neyða farþegana til að hjálpa sem og gesti á nálægum bar.

    Áhugaverðar fréttir fyrir píanóleikara og kaldranalegar fyrir píanóstillingamenn. Það er búið að búa til píanó sem stillir sig sjálft!

    Uncategorized

    Seint að sofa eða snemma í háttinn?

    Gærnóttin var svefnlaus hjá mér, sat til hálf-átta í morgun við að berja saman hönnunarskýrslu sem átti að skila í dag. Námsþreyta orðin talsverð nú á þriðju önn ársins hjá mér og notkun á .jsp-síðum að ergja mig þar sem að þær eru í mínum huga mun verri kostur en bæði .php og .asp. Það er hins vegar ekkert val um það í þessu verkefni. Nóttin leið í félagsskap Bolta, Beyglu og annara sem ekki ganga undir álíka nöfnum.

    Lagði mig þegar ég kom heim og fór svo í vinnu upp úr hádegi. Kvöldið farið í smá afslappelsi en bjó þó til smá fítus sem að verkefnið okkar mun styðjast við, gengi hlutabréfa á íslenska markaðnum. Þar sem að Icex myndi rukka okkur um 100 þúsund krónur fyrir að hafa alvöru rauntímagögn (sem þarf að auki að seinka um 30 mínútur) þá bjó ég bara til okkar eigin hlutabréfaveröld. Þetta er ekki alvöru gengi bréfa í þessum hlutafélögum! Vissara að slá varnagla svo að maður verði ekki lögsóttur fyrir rangar upplýsingar.

    Þörf grein í Mogganum um dreifingu mynda á netinu. Þetta hefur mér alltaf verið þyrnir í auga og þó að ég opni póstinn og skoði innihaldið þá áframsendi ég það aldrei ef mér sýnist að efnið sé niðurlægjandi fyrir viðkomandi. Suma er þó hægtnefna sem að vita fátt skemmtilegra en að velta sér upp úr útliti og hegðun annara.

    Netsambandið hérna heima hefur verið afskaplega ótraust í dag, ADSL-tengingin dottið niður af og til í lengri tíma. Í 8007000 fæ ég bara símsvara og svo þegar gefa á mér samband við almennan þjónustufulltrúa fæ ég bara gamla “du-du-du”, línurnar hjá þeim kannski rauðglóandi?

    Sigurrós bendi ég á einn mann sem að ergir sig á hringingum kirkjuklukkna. Ég ákvað að líta á björtu hliðina, maður sefur þá að minnsta kosti ekki það mikið frameftir á sunnudögum (kirkja í 30 metra fjarlægð frá okkur).


    Þetta er magnaðasta sjálfsmorð sem ég hef lesið um held ég. Gerði sitt besta til að koma fólki ekki í uppnám og það virðist hafa virkað að hluta til.

    Þegar veðurguðirnir eru manni ekki hliðhollir er sjálfsagt að friðþægja þá og hvað er betra til þess en naktir kvenmannslíkamar?

    Þessi maður er búinn að búa til eigin Bachelor, konur sækja nú um í hrönnum að gerast eiginkona hans. Peningar eru alltaf lokkandi.

    Ég held að þetta sé með verri jólagjöfum sem hægt er að gefa. Efast um að frúin hafi sama smekk og eiginmaður hennar.

    Uncategorized

    Setið við

    Sit nú við skýrslugerð, hönnunarskýrslan á að skilast á morgun og það verður unnið fram á kvöld sýnist mér.

    Queen-áhugamönnum gæti þótt áhugavert að skoða þessa frétt þar sem myndbandið við “Bicycle Race/Fat Bottomed Girls” er endurskapað til að auglýsa tölvuleik.

    Það er að verða sífellt varasamara að leyfa börnum að leika með jafn einfalda hluti og lykla nú þegar tölvukubbar eru komnir í þá. Börnin éta að sjálfsögðu tölvukubbana og það getur verið kveikjan að undarlegri atburðarás.

    Michelangelo virðist hafa spilað sig fátækari en hann var. Nýútkomin bók um kappann greinir frá því að hann hafi verið forríkur þegar hann lést. Með ígildi hallar í lausafé við rúmstokkinn og arðbærar fasteignir um borg og bý.


    Þetta er fyndin grein. Að það sé óverðskuldað að blettur falli á íslenska ríkið vegna meintra mannréttindabrota þess? HaHaHaHa! Sagði Ástþór “handtakið mig á grunni nýju laganna”? Sögðu tævanskir vísindamenn “meinið okkur inngöngu byggða á þjóðerni okkar” við sendiráðin sem neituðu þeim um vegabréfsáritanir á vísindaráðstefnu? Sögðu Falun Gong iðkendur “handtakið okkur því að við munum stara ásökunaraugum á menn sem valda ómældri þjáningu og kúgun”?

    Það eru margir blettir sem hafa fallið á íslenska ríkið undanfarna mánuði, og þeir eru allir verðskuldaðir.

    Uncategorized

    Á spani

    Potturinn sagði að Katrín Fjeldsted “fylgdi san[n]færingu sinni (hver gerir það ekki?)”. Hver gerir það ekki? Enginn annar en Vilhjálmur Egilsson sem lýsti því yfir að hann ætlaði að greiða atkvæði gegn eigin sannfæringu á þingi. Þar með fór hann á “ævarandi skömm” listann hjá mér, þegar að það er ekki hægt að treysta þingmönnum til að standa við eigin sannfæringu þá er orðið lítið gagn í að hafa þá á þingi. Svo eru auðvitað örugglega fleiri á þingi sem greiða atkvæði gegn eigin sannfæringu en básúna það ekki út, þeir eru verri ef eitthvað er.

    Annasamur dagur í vinnu og tveim lokaverkefnum (jólaverkefnið og svo lokaverkefnið). Sést alls staðar í mýflugumynd.

    Gömlu hjónin fyrir neðan okkur eru að flytja út, búin að fá íbúð við Hrafnistu. Hvorugt í nógu góðu ástandi fyrir stigana hérna. Áhugasömum er bent á að íbúðin fer á sölu einhver tímann í janúar, stór íbúð á besta stað. Þetta verður ekki undir 20 milljónum hugsa ég.