Gærkveldið fór ekki það glæsilega af stað, klukkan 16 braut Sigurrós tönn og fyllingu, nákvæmlega sama dæmi og hjá mér á Þorláksmessu. Við brunuðum á neyðarvakt tannlækna, að þessu sinni ofar í Hlíðarsmára. Öðrum sem kunna að leita til neyðarvaktar í Hlíðarsmára er bent á að sléttu húsnúmerin eru efst á hæðinni en oddatölurnar er neðst… það er svo skemmtilega raðað húsunum þarna. Tannlæknirinn rétt slípaði þar sem hafði brotnað, rukkaði fyrir það 2.030 krónur og sendi Sigurrós svo heim með þau skilaboð að panta tíma hjá tannlækni sem allra fyrst.
Við náðum því að komast í matinn heima hjá mömmu í tæka tíð þar sem fínn kalkúni (fínn þegar búið er að baða hann upp úr sósu á diskinum) var á boðstólum og ís í eftirrétt. Skaupið lagðist afar vel í heimilismenn enda mjög lýðræðissinnað heimili og skotin á Falun Gong málið eiga meira en lítið rétt á sér. Prýðisgott skaup, spurning hvaða atriði það voru sem urðu að víkja til að skauparar gætu skeytt inn öllum Ingibjargar Sólrúnar atriðunum sem voru gerð á síðustu stundu.
Útsýnið af svölunum í Miðhúsum er glæsilegt, við sáum yfir til vesturbæjar Reykjavíkur og yfir allan Mosfellsbæ og Grafarvog.
Leiðin lá svo til Arnar og Regínu sem voru með áramótapartý í nýju íbúðinni sinni. Hitti þar í fyrsta sinn í nokkur ár þá Alla og Magga sem nú spila með Reisn. Hitti líka Eini og aðra grislinga úr Vesturbænum (í Kópavogi… vesturbærinn í Reykjavík fær ekki stórt v í mínum fræðum) enda er Regína grislingur úr Vesturbænum.
Fórum tiltölulega snemma heim, klukkan hálf-fjögur enda margt sem þarf að gera í dag og vinna á morgun.
Í dag hef ég svo leikið mér og lesið fræðin fyrir endurtektarprófið á laugardaginn. Maður hefur gott af því að falla á áratugsfresti svona til að hrista upp í manni… alltaf að líta á björtu hliðarnar.
Sá áðan einhverjar 10 sekúndur af gjörningi þar sem maður í kassa þóttist vera útvarp með hendi og var að búa til auglýsingu á kínversku. Fannst þetta afskaplega óspennandi þannig að ég tékkaði ekki frekar á þessu, gjörningar í Kína eru nefnilega mun öflugri en þessi útvarpskassi.
Árið byrjar sæmilega samt, Uglurnar vinna og ítalskar kjötbollur í kvöldmat. Nú er bara að sjá hvort að það verði eitthvað meira traðkað á mannréttindum á þessu ári, held við höfum sloppið skammlaust í dag þannig að það lofar vonandi góðu.