Stjórnmál

Ímyndið ykkur

Taco-sull í matinn í vinnunni í dag (grunur um að kjötið sé í raun sojakjöt og fínmalað að auki) þannig að við fórum 3 saman á Ruby Tuesday. Mikið ofsalega eru þeir með fína hamborgara, þeir líta alveg eins út á disknum hjá manni og þeir líta út á myndunum hjá þeim (ólíkt öðrum stöðum, einkum McDonalds). Var saddur frá hádegi að kvöldmatartíma, nokkuð sem að er mjög óvenjulegt.

Í stað þagnar í morgun kl. 10 þá ákváðu frönsku útvarpsstöðvarnar að spila lag Johns Lennon, Imagine. Það finnst mér reyndar meir við hæfi en bara þögn, ætla að láta textann fylgja með hérna:

Imagine there’s no heaven
It’s easy if you try
No hell below us
Above us only sky
Imagine all the people
Living for today…
Imagine there’s no countries
It isn’t hard to do
Nothing to kill or die for
And no religion too
Imagine all the people
Living life in peace…

You may say I’m a dreamer
But I’m not the only one
I hope someday you’ll join us
And the world will be as one

Imagine no possessions
I wonder if you can
No need for greed or hunger
A brotherhood of man
Imagine all the people
Sharing all the world…

You may say I’m a dreamer
But I’m not the only one
I hope someday you’ll join us
And the world will live as one
(John Lennon 1971)

Áhugavert lesefni:

Stjórnmál

Vakning?

Á meðan að Bush og fleiri láta sífellt meiri þvælu út úr sér þá er til fólk í Bandaríkjunum með hausinn í lagi sem fattar hvað er í gangi, sjá tenglana hérna að neðan.

Áhugavert lesefni:

Fótbolti

Aftur í boltanum

Vorum að spila æfingaleik, þolið hjá mér sem var nú ekki upp á marga fiska hefur ekki aukist eftir Frakklandsferðina. Fann fyrir því núna þegar ég spilaði seinni hálfleik í hægri bakverði. Hitti fyrrum vinnufélaga minn sem að var einmitt hægri bakvörður hins liðsins, hann er núna rafvirki í Smáranum, og sagði mér að það yrði líklega að fresta opnuninni sem á að vera 10. október, þar sem að það er enn heilmikið að gera og þó eru 1200 manns þarna að vinna á hverjum degi. Þvílíkt bákn.

Áhugavert lesefni:

Stjórnmál

Svakalegt

Aðalmálið í dag er auðvitað hryðjuverkin í Bandaríkjunum, þau mestu í sögunni, og enn er óljóst hversu margir létust en nokkuð víst er að það eru þúsundir. Sjálfum fannst mér eins og þetta væri atriði beint úr Independence Day eða bók eftir Tom Clancy, þetta var svo svakalegt að maður var bara þrumulostinn. Núna verður áhugavert að vita hvort að þessi dagur muni marka þáttaskil í sögunni, eða hvort að hann verið bara svona almennur svartur dagur í sögunni.

Ég hugsa að núna séu yfirmenn NSA, CIA og FBI í yfirheyrslum hjá þeim sem ráða, menn eru væntanlega spenntir að vita hvernig í ósköpunum þetta var hægt þegar að þessar 3 stofnanir nota fleiri fleiri milljarða á hverju ári til þess að njósna um borgarana til að koma í veg fyrir hryðjuverk og fleira. Svo finnst mér leiðinlegt að árásir á Bandaríkin eru túlkaðar sem “attack against freedom” og “attack against our way of life”. Mikið hrikalega er leiðinlegt að hlusta á þá jarma um USA og freedom þegar að málið er að það er fólk sem varð fyrir þessum árásum, ekki þessi hugtök. Ástæðan fyrir óvinsældum Bandaríkjanna er ekki sú að þar ríkir mikið frjálsræði og að þar sé öllum frjálst að lifa í ríkidæmi eða deyja úr fátækt, ástæðan er sú hvernig Bandaríkin haga sér í hinum stóra heimi, eins og stærsta hrekkjusvínið í skólanum.

Það sem margir eru hræddir við núna eru viðbrögð Bandaríkjamanna, og samkvæmt fyrstu yfirlýsingum Bush og félaga hans verða þau eins og flestir óttast, gífurlega hörð. Það er gífurleg hætta á því að Bandaríkin muni reiða hátt til höggs til þess að sýna fram á einhver viðbrögð, og líkur eru á því að þá verði margir saklausir fyrir því höggi, jafnvel fleiri en látist hafa í dag. Ég er viss um að ég er ekki einn um það að telja að heimurinn væri aðeins rólegri ef að Clinton væri við völd, en ekki blóðþyrsti Bush.

Fyrir okkur tæknifólkið þá var auðvitað áhyggjuefni að sjá hversu hægt netið varð sem og stærstu fjölmiðlarnir á því, þegar að allir voru að reyna að lesa fréttirnar. Bandvíddin er enn langt á eftir þörfunum, einkum þegar að streymandi hljóð og mynd er sótt.

Áhugavert lesefni:

Svo fékk ég bréf frá RÚV í 3ja skiptið, þar sem lýst var yfir áhyggjum af því að ég er ekki á meðal greiðenda afnotagjalda. Fyrsta bréfið hunsaði ég, öðru bréfinu svaraði ég harðlega og núna ætla ég að svara af fullum krafti, ætla kannski að pota svari mínu í Morgunblaðið.

Molasykur

Parlez vouz français?

Oui. Vonast að minnsta kosti til þess að vera orðinn slarkfær í henni árið 2002. Í Frakklandi skildi ég þó nokkuð af þeim samræðum sem fóru fram í kringum mig, en margt fór fyrir ofan garð og neðan, og mér var að auki fyrirmunað að tjá mig á málinu. Í dag skráði ég mig því á frönskunámskeið hjá Námsflokkum Reykjavíkur, að auki á ég svona “Achieve French fluency now” margmiðlunarnámsefni (4 geisladiskar með fyrirlestrum, sýnidæmum, prófum og framburðarkennslu). Plús það að vera með konu sem er reiprennandi, þannig að ég er vongóður um að geta babblað að minnsta kosti eitthvað að loknu námskeiðinu.

Molasykur

Vegaför

Vorum að spöglera að fara á Apaplánetuna (endurgerðina) í bíó, en eftir að hafa borið saman bækur um þá dóma sem hún hefur fengið, ákváðum við að eyða ekki 1600 kr. eða meira í enn eina sálarlausa hýpermyndina frá Hollywood. Ætluðum að taka þá State & Main eða Chocolat á vídeó, sú fyrri var ekki inni og sú síðari ekki komin. Enduðum á að taka Road Trip, þar sem við vorum í stuði fyrir gamanmynd. Hún kom skemmtilega á óvart og fær mín meðmæli sem grínmynd sem hægt er að hlæja að.

Samfélagsvirkni

Eilíft peningaplokk

Ekki ætlum við að læra að gera hlutina almennilega. Renndi yfir með öðru auganu yfir hvað var að finna á þessari blessuðu heimilissýningu í Laugardalnum, og sýndist þetta vera frekar klént, og ekki þúsund króna virði.

Aðrir heimilismeðlimir renndu hins vegar við þar með ungviðið í fararbroddi, og sögurnar frá þeim staðfestu þetta mat mitt. Tívolítækin sem fjallað var um voru víst ekki innifalin í aðgangseyrinum, heldur kostaði spes í hvert tæki. Í Fjölskyldugarðinum (sem var innifalinn í aðgangseyrinum) var svo minnst um að vera, sjoppan lokuð og því ekkert ætt að fá, auk þess sem að salerni voru öll lokuð og fólki bent á að hlaupa yfir á kaffihúsið sem er smá spöl frá garðinum. Til fyrirmyndar? Ónei.

Fótbolti

Stórhættulegt

Kynlíf er sko mun hættulegra en tölvuleikir, hvað sem uppeldissálfræðingar segja, sjáið bara þessar köldu staðreyndir að 616 manns hafa látist vegna notkun Viagra, á móti einum sem dó í Counter-Strike

Alien Ant Farm komu mér skemmtilega á óvart á MTV með þeirra útfærslu á Smooth Criminal, mun betri en Michael Jacksons.

Var að horfa á Eurosport, fínn leikur hjá Ali Daei, Íran unnu Írak 2-1 á útivelli. Merkilegast fannst mér hvað allir Írakarnir voru lágvaxnir, en Íranirnir flestir vel stórir.

Tónlist

Heimkoma

Við heimkomuna biðu Ragna og Haukur eftir okkur og keyrðu okkur heim. Við sváfum svo út, en Sigurrós mætti í tíma eftir hádegi. Hún hafði misst af 3 fyrstu skóladögunum (og tíma í morgun) en það gerði lítið til.

Þetta var skemmtileg ferð, en það er alltaf gaman að komast heim í kunnuglegt umhverfi þar sem maður skilur hvernig hlutirnir virka og er vanur þeim.

Myndir verður svo hægt að finna hjá Sigurrós í náinni framtíð.

Í fríhöfninni á leiðinni út keypti ég mér 3 geisladiska, þeir voru Generalisation frá Midfield General, Rooty frá Basement Jaxx og Feng Shui frá Q-Burns Abstract Message.

Diskarnir voru fínir, á Feng Shui var reyndar lagið Á.S.T. sem mér fannst skelfilega leiðinlegt lag, og Daníel Ágúst að gera vonda hluti í því.

Eftir ársleit hef ég ákveðið að gefast upp á að finna fyrsta House of Pain diskinn, sem að gufaði upp. Pantaði nú annað eintak af honum á netinu, þetta var fyrsti diskurinn sem að ég eignaðist eftir þungarokksskeiðið (átti Iron Maiden, Artch og Metallicu diska.. löngu horfnir nú) og varð kveikjan að myndarlegu safni mínu.

Ferðalög

Frakkland: Dagur 10

Kjúklingur í hádegismatinn og súkkulaðikaka í eftirrétt. Veðrið þokkalegt, sæmilega hlýtt og sól. Skruppum í Grand Place af því að Sigurrós bara varð að fá þennan leðurjakka sem hún sá á degi 4 þegar við komum hingað síðast. Því næst var bara haldið á lestarstöðina hérna í Grenoble og þar kvöddum við Jean með virktum.

Eftir 70 mínútna bið kom svo TGV-hraðlestin okkar á stöðina og við flýttum okkur að finna sætin okkar. Sigurrós hafði reynt að fara á gjaldklósett á lestarstöðinni en þar vantaði klósettpappír og allt frekar ógeðfellt. Í lestinni var svo sama uppi á teningnum og í fyrra skiptið, það var slökkt á vatninu á salernunum og því varð það frekar ógeðfellt þegar á leið ferðina. Ótrúlega fáránlegt dæmi, þetta var nú ekki svona slappt 1998 þegar við félagarnir vorum hérna á HM. Að auki var kortalesarinn í matsölunni bilaður og við vorum búinn að eyða mestu af gjaldeyrinum þannig að við fengum aðeins eitt lítið Toblerone þar, sem við vorum ekki lengi að klára.

Þegar til Parísar var komið vorum við stödd á Gare de Lyon-lestarstöðinni. Þar keyptum við okkur miða á Orly-flugvöll. Við sumsé tókum RER A (RER eru hrað-metro lestir, sem stöðva á færri stöðvum)frá Gare de Lyon í áttina að St. Germain en fórum út á Chatelet les Halles. Þar tókum við RER B í áttina að Antony, og fórum þar út. Þar komumst við svo í sérstaka hraðlest (Orly Val) sem fer eingöngu á milli þessarar lestarstöðvar og Orly-flugvallar.

Á Orly-flugvelli vorum við svo snögg á salernin og svo að innrita okkur, röðin í innritun var mjög stutt en þegar að við vorum að ganga burtu til að fá okkur að borða mættum við um 150 manna hópi Íslendinga, þar var á ferð hjónaklúbbur sem að fer árlega í svona fjöldaferð. Við vorum mjög fegin að hafa verið á undan þeim í innritunina, röðin sem myndaðist hlykkjaðist um stöðina nærri endilanga.

Okkur til undrunar sáum við að nú var búið að loka salernunum, heljarinnar járngrind nú komin fyrir, þarna höfðum við líka sloppið naumlega. Nú fórum við að leita okkur að æti og ekki gekk það mjög vel, eini veitingastaðurinn á svæðinu var með eitthvað sem okkur leist ekkert of vel á, barnaskammturinn leit ágætlega út, nokkrir kjúklingabitar og franskar, eitthvað sem við gátum vel hugsað okkur. Hins vegar var okkur neitað um hann, þar sem einungis börn mættu panta hann. Því kunnum við illa og héldum því för okkar áfram. Sjoppurnar voru nokkrar þarna, en þar var allt orðið galtómt, á endanum fengum við okkur tvær Oranginur og eina samloku, allt annað virtist vera búið. Nokkrum mínútum seinna lokuðu svo sjoppurnar, greinilegt að allt hætti þarna á slaginu 22:00, sem að okkur finnst undarlegt á svona alþjóðlegum flugvelli.

Síðasti viðkomustaður okkar á franskri grund var svo bóksalan í flugstöðinni, þar urðum við að kaupa fyrir lágmark 60 franka til að geta borgað með kreditkorti og keyptum við okkur einhver sætindi til að hafa í vélinni, National Geographic og teiknimyndabók á frönsku til að lesa.

Á meðan að við biðum svo eftir að vera kölluð í vélina sáum við svo þó nokkuð marga meðlima þessa ferðahóps lifa sig inn í gömlu íslensku utanferðastemmninguna, vodka- og viskípelar teknir upp og fólk staupaði sig fyrir flugið, eins og það hefur gert síðastliðin 40 ár (þetta var allt miðaldra fólk og eldra).

Í vélinni mátti svo heyra fylleríslætin í gömlu köllunum og kellingunum, á meðan að yngra fólkið var prúðmannlegt og kunni sig.

Gömlum hundum er víst erfitt að kenna að sitja.